Keppni: Premier league
Dag- og tímasetning: Sunnudagur 24. Apríl kl 13:00
Leikvangur: Stamford Bridge
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport
Upphitun eftir: Finnur Marinó Þráinsson
Þá er enn einn átakaleikurinn framundan en nú fáum við nágranna okkar frá London eða West Ham og nú er tími til að hefna síðasta leiks þessara félaga þar sem Hamrarnir unnu 3-2. Nú er ástæða sem aldrei fyrr að ná góðum úrslitum þar sem bilið milli okkar manna og næstu liða styttist hættulega mikið og úrslit helgarinnar eru ekki til að róa taugarnar. Arsenal, sem við jú töpuðum fyrir skammarlega í síðasta leik, er farið að narta óþægilega mikið í hælana á okkar mönnum og áður en það fer að sjá verulega á skónum þarf að hysja upp buxurnar og taka vel á því. West Ham hafa ekki verið að gera einhverjar rósir undanfarið og náðu í jafntefli gegn Burnley í síðasta leik sínum.
Úr þeirra herbúðum er það helst að frétta að þeirra langbesti maður og maðurinn með bláa hjartað Declan Rice hefur harðneitað að skrifa undir nýjan samning við Hamrana þó gull og grænir séu í boði og held ég að það væri góður kostur að tryggja okkur drenginn og færa hann heim. Samkvæmt nýjustu fréttum er handrukkarinn frá Hamborg að fara að kveðja okkur og verður hans skarð vandfyllt og sömuleiðis er Christensen á leiðinni í sólina þannig að vörnin þynnist þó Silva sé efalaust klár í að skóla nokkra góða varnarmenn til.
Ekki eru þetta einu leiðindin þar sem Buffið frá Belgíu er haldinn áhugabresti og verkkvíða og er gagnslaus þessa dagana. En ekki er allt vonlaust þar sem aðrir eru að stíga upp og yippy Kai virðist vera að ná tökum á hlutunum og Turbo Timo hefur átt góða spretti í síðustu leikjum og blómstraði í seinni leiknum gegn Real og skoraði glæsimark og tók svo copy paste af því á móti Arsenal fyrir þá sem af misstu. Af einhverjum ástæðum hafa Hamrarnir oft reynst okkur erfiðir en nú ríður á að girða sig í brók og sýna úr hverju við erum. Krafan er einföld, 3 stig í hús og ekki myndi örlítil flugeldasýning skemma neitt fyrir.
Ef Kai dettur í stuð og Timo finnur sig og kannski að Buffið fari réttu megin fram úr í fyrramálið þá gæti þetta orðið hinn besti sunnudagur. Það er deginum ljósara að glamrið í kring um klúbbinn undanfarið hefur haft mikil áhrif á leikmenn og ekki síst uppáhalds þjóðverjann okkar en ég hef fulla trú á að okkar menn séu ákafir í að klára þetta tímabil með allnokkrum stæl og menn fari í sumarfrí með stolti sem heimsmeisturum sæmir. Mjöðmin segir mér að minnsta kosti að One Step Beyond komi til með að hljóma á Brúnni á morgun og svo segir mér svo hugur að þýskur þjálfari fagni einnig sigri í næsta leik Chelsea og ykkur að segja heitir sá ekki Ralf.
West Ham
Það sem er helst að frétta úr herbúðum David Moyes og félaga er það að vörnin hjá þeim er í molum. Það ættu auðvitað að vera frábærar fréttir fyrir okkur og fyllsta ástæða til þess að hlaða fallbyssurnar. Kattafólk út um allan heim geta samgleðst með það að Kurt Zouma er meiddur og því engin ástæða fyrir því að læsa kettina inni. Ogbonna og Diop eru einnig báðir meiddir og því þrír miðverðir á meiðslalistanum á morgun. Sá eini sem er tilbúinn í slaginn er sennilega Craig Dawson.
Það sem þeir bláklæddu þurfa helst að passa er að hleypa vinnuvélinni á miðjunni ekki í gang. Heitur Rice er hættulegur Rice. Mig reyndar grunar að Rice verði hent í miðvörðinn á morgun. Ofar á vellinum þurfum við að negla niður bæði Bowen og Mr. Big D*** Antonio. Vonandi nær okkar vörn að díla almennilega við það án elsku Rudiger.
Chelsea
Okkar meiðslalisti samanstendur af Rudiger, CHO, Chilly og Kovacic. Stuttur listi en fáránlega mikilvægir leikmenn sem verða fjarverandi á morgun. Vörnin hefur hreint út sagt verið mjög ósannfærandi þegar Rudiger spilar ekki. Það er kannski full hart að segja þetta strax en að mínu mati eru Sarr og Chalobah ekki nærri því nógu góðir og verða það sennilega aldrei.
Kovacic hefur verið frábær fram að meiðslum, hann verður vonandi klár sem allra fyrst.
Byrjunarlið
Mín spá er sú að við sjáum 3-4-3 á morgun með eftirfarandi leikmönnum: Mendy, Sarr, Silva, Azpilicueta, Alonso, James, Kante, Jorginho, Mount, Havertz, Werner
Stóra spurningamerkið er vörnin… Hvað ætlar Tuchel að gera á morgun eftir skelfilega frammistöðu á móti Arsenal. Úrvalið er ekki mikið og því held ég því miður að Sarr fái að byrja. Hann virðist ekki hafa trú á Chalobah. Silva verður alltaf í hjarta varnarinnar og ég held að hann hendi Azpilicueta hægra meginn í vörnina og leyfi James að vera hægra meginn á kantinum. Alonso verður svo allan tímann vinstra meginn.
Mig grunar að miðjan samanstandi af Jorginho og Kante. Kæmi mér samt ekki á óvart ef að Ruben byrji í stað Jorginho. Mín von er að sókninn verði það sem er okkar LANGBESTA sókn. Mount - Havertz - Werner. Það er ekki fræðilegur möguleiki á að Tuchel hleypi Lukaku nálægt hliðarlínunni fyr en í allra síðasta lagi seint í seinni hálfleik.
Spá
Ég er bjartsýnn. Ég finn á mér að það komi alvöru svar á morgun. Við vinnum þennan leik 3-0. Timo heldur uppteknum hætti og setur í eitt. Mount skorar og Alonso einnig.
Nú verðum við bara að vona að grasið á Stamford Bridge hagi sér almennilega og Tuchel taki það í sátt eftir þægilegan sigur!
KTBFFH
- Finnur Marinó Þráinsson
Comments