top of page
Search

Vont tap á Emirates - Leikskýrsla og einkunnir



Gangur leiksins

Baráttunni um London er lokið í kvöld. Heimamenn gjörsamlega flengdu okkar menn mjög sannfærandi 3-1. Ég held að Arteta hafi komist yfir upphitunina og spánna mína og lesið hana fyrir sína menn í morgun, þeir einfaldlega mættu svakalegir til leiks með tvö markmið; troða fúlum ullarsokk upp í mig og tryggja sér stigin 3. Með sigri hefðum við getað komið okkur í 2. sæti deildarinnar á markatölu og með því ýtt Arsenal skrefi nær fallsæti. Aftur á móti spilaði Chelsea eins og liðið væri réttilega í fallsæti á meðan Arsenal steig vart feilspor allan leikinn. Arsenal menn voru einfaldlega of skynsamir fyrir okkar menn, voru skipulagðir og skoruðu geggjuð mörk.


Reece James var klaufinn í fyrrihálfleik þegar hann gaf heimamönnum víti, það má deila fram og til baka um hvort um víti sé að ræða eða ekki, burt séð frá því hefði James átt að gera betur. Lacazette fór hrímaður á punktinn og sendi Heimaklettinn í rangt horn og skoraði af miklu öryggi. 10 mín seinna skoraði svo Xhaka geggjað aukaspyrnu mark. Lítið sem Mendy gat gert í þessu og ekki langt frá því að verja / setja lúkuna í boltann. Arsenal gerði svo út um leikinn á 56. mín með skemmtilegu marki frá Saka en ég er handviss um að það hafi verið óvart því það er hæpið að ungi leikmaðurinn hafi ætlað sér þetta, líklega var þetta fyrirgjöf.


Lampard átti hreinlega engin svör við leik Arsenal í kvöld. Hann kom þó á óvart og gerði tvær skiptingar í hálfleik sem skiluðu litu fyrir utan aðeins meira possession í seinni hálfleik. Innkoma Jorginho og Odoi höfðu lítil sem engin áhrif á leikinn í lengri tíma. Það eina sem okkar mönnum datt í hug að gera í seinnihálfleik var að senda fyrirgjafir í teiginn frá hægri kantinum eða láta Pulisic reyna spóla sig inn í teig til að gera einhverjar gloríur. Þetta skilaði okkur einu marki og vítaspyrnu sem Jorgino því miður klúðraði. En öll hættan sem við sköpuðum koma á 85 mín og síðar, hreinlega EKKI NÓGU GOTT!!!!!!


Umræðupunktar:

· Fyrst og fremst áttum við EKKERT skilið úr þessum leik. Áttum okkur á því að liðið var ekki betra fyrir jól þegar við unnum West ham, við hreinlega sluppum með skrekkinn þar.


· Vorum að klúðra boltanum alltof oft sem varð til þess að við brutum klaufalega af okkur. Man ekki betur en að aukaspyrnu markið hafi komið úr þannig atviki.


· Markið hjá Saka átti aldrei að gerast, Silva eða Kante, jafnvel báðir áttur að vera búnir að stíga inn í það áður en að hann næði að skjóta.


· Ég velti fyrir mér hvort Lampard hefði gert rétta skiptingu í hálfleik. Persónulega hefði ég viljað sjá Werner fara á toppinn og láta Odoi á hægri og Pulisic á vinstri.


· Fannst lítið hægt að sakast við Mendy mörkunum þrem, þó gerðist hann sekur um slæm mistök sem hefði getað komið okkur 4 mörkum undir. Hann náði þó að skeina eigin skitu og varði skotið frá Lacazetta eftir að hafa gefið beint á hann.


· Þrjú töp í fjórum leikjum á móti minni spámönnum er gríðarlegt áhyggjuefni. Við vorum í svipuðum málum í fyrra eftir fína byrjun. Erum við að detta aftur í sama pakka?? Það var skilningur fyrir þessu í fyrra en sömu svör og afsakanir fá ekki jafn mikla þolinmæði í ár.


· Ég velti fyrir mér hversu heitt sætið hans Lampard sé orðið?


· Megum samt ekki gleyma einu. Havertz, Ziyech og Werner voru keyptir til að stýra liðinu sóknarlega ásamt Pulisic. Þessir gæjar hafa ekki fengið mörg tækifæri til að spila sig saman sem sóknarliðsheild vegna meiðsla og COVID.


Einkunnir:

Mendy - 6: Lítið við hann að sakast í mörkunum.


James– 5: Virkaði bara eins og hann væri enn meiddur. Azpi átti að fá þennan leik að mínu mati


Silva – 6: Faðir vor var óheppinn að skora ekki í lok seinnihálfleiks


Zouma – 6: Var ágætur í kvöld, mikilvægur í vörninni þegar andstæðingar dæla boltum í teiginn


Chilwell – 5: Sást lítið til hans og hann hafði lítil áhrif á leikinn, spurning hvort að Emerson hefði skilið meira eftir á vellinum


Kovacic – 5: Því miður var hann ekki skugginn af sjálfum sér, búinn að vera mjög óstöðugur.


Jorginho – 5,5: Hafði því miður ekki mikil áhrif á leikinn. Jú við sóttum meira í seinni hálfleik en NB Arsenal var komið í 3-0 eftir 56 mín og þurfti því ekki að eyða mikilli orku í sóknarleikinn sinn


Odoi – 7: Gerði vel í markinu okkar og skilaði mun meiri ógn á vængnum en Werner.


Pulisic – 7: Var duglegur í seinni að reyna taka menn á og keyra á menn.


Havertz – Spilaði of stutt til að fá einkunn


Werner – 5: Gerði því miður ekki nóg, hefði mögulega þurft seinni hálfleik í stöðu framherja?


Mount – 7,5 Var duglegur og hættulegur. Óheppinn að skora ekki úr aukaspyrnu í fyrri hálfleik og fiskaði vítaspyrnu undir lokin. F‘inn leikur hjá stráknum.


Abraham – 6: Gerði ágætlega í markinu en líkt og aðrir í liðinu verður hann að fara gera betur og mynda ógn á fleiri máta en hann gerir, hann getur ekki rakið eða haldið boltann eða spilað sig í færi. Hann verður að koma fleiri tólum í verkfærakistuna.


- Snorri Clinton

Comments


bottom of page