top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Spurs koma á Stamford Bridge

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 2 days ago
  • 6 min read

Keppni: Enska Úrvalsdeildin, 30. umferð

Tími, dagsetning:  Fimmtudagur 3. apríl kl: 19:00

Leikvangur:  Stamford Bridge, London

Dómari: Craig Pawson

Hvar sýndur: Síminn Sport

Upphitun: Bjarni Reynisson



Lesendur góðir, finnið þið ykkur suma daga einfaldlega hugsandi um Chelsea. Fer hugurinn stundum á flakk yfir í póstnúmer SW6 á Brúnna og hugsanir um akademíuna, gengi klúbbsins, vonarstjörnurnar og framtíð klúbbsins brjótast fram eins og ljósgeislar yfir fjallatinda færandi hlýju og bros á vör…(stundum). Verður næsta tímabil betra en það sem stendur yfir núna? Þurfum við að þola Robert Sanchez í markinu annað tímabil? Mun Jackson skora aðra þrennu gegn Spurs á fimmtudaginn? Svo margar spurningar. 


Ég hef enga ást fyrir Spursurunum og gerði ég óspart grín af þeim í upphitunar pistli mínum fyrir fyrri leikinn okkar við þá á leiktíðinni. Spoiler alert, það mun að öllum líkindum halda áfram í þessum pistli. Þegar ég hugsa um liðin í London þá finnst mér alltaf skemmtilegast að hugsa til þess að Tottenham og Arsenal hafa hvorugt unnið Meistaradeildina. Á eftir því kemur tilhugsunin um hversu langt síðan það var sem að Spurs vann titil. Gengið í gegnum tíðina hefur verið gott á móti Tottenham og eina breytingin frá tölfræðinni úr síðasta upphitunar pistli er að sigrunum fjölgaði um einn. Þrátt fyrir að Cucurella átti skóævintýrið sitt í þeim leik, þar sem að hann rann tvisvar á afdrifaríkan hátt á fyrstu 11 mínútum leiksins með þeim afleiðingum að Spurs skoraði í tvígang. Eins og margir muna hljópa hann rakleiðis að hliðarlínunni og skipti um skó eftir að seinna markið var skorað og henti svo í kjölfarið fyrra parinu í ruslið að leik loknum.


Það eru tveir  leikmenn okkar sem að elska Tottenham, eða það er að segja elska að skora á móti þeim. En það eru auðvitað Cole Palmer og Nicolas Jackson, en samkvæmt fregnum er þeir báðir klárir í slaginn til að mæta Spurs. Báðir hafa átt þátt í fjórum mörkum gegn þeim í þremur viðureignum. Palmer með þrjú mörk og eina stoðsendingu og Jackson með fjögur mörk. 


Þeir leikmenn Chelsea sem ekki voru kallaðir upp í landslið þjóða sinna sátu ekki auðum höndum í landsleikjahléinu. Blásið var til innanhúss leiks við U21 liðið sem hafði þó líklega gagnstæð áhrif við það sem Maresca sá fyrir sér þar sem liðið tapaði 3 - 0 fyrir ungstirnunum. Þá komu líklega við sögu Sancho, Nkunku, Badiashile og Lavia. Þetta vakti enga kátínu hjá Maresca og tók hann til þess ráðs að aflýsa skipulögðum frídegi leikmannana. Vel má vera að þetta hafi bara verið “freak” tap, einsdæmi sem mun ekki endurtaka sig en þetta vekur upp tvær spurningar hjá mér. Fyrsta varðar hugarfar leikmanna aðalliðsins, eru þeir með hausinn rétt skrúfaðan á sig eða eru þeir á spenanum hjá klúbbnum. Það er ekki pláss í Chelsea fyrir neina stjörnuleti. Seinni spurningin tengist á vissan hátt leikmannakaupunum og stefnu klúbbsins á þeim fleti. Erum við að veðja of stórum fjárhæðum í vonarstjörnur með þeim afleiðingum að enginn gróði fæst að lokum fyrir þær? 15.0 milljónir er í mínum huga fínn peningur fyrir að selja leikmann sem er ungur og með lítinn spilatíma svo framarlega sem að það séu önnur félagsskipti leikmannsins. Þ.e.a.s. ef að Chelsea væri að selja menn eins og David Washington áfram fyrir 15 milljónir eftir að hafa keypt hann á undir fimm þá myndi ég flokka það sem góð viðskipti. Þegar þessir leikmenn fá engan eða lítinn spilatíma þá sé ég fáa þeirra ná að auka virði sitt nóg á skömmum tíma til að klúbburinn hagnist verulega. Að sjálfsögðu eru undantekningar, eins og Andrey Santos, sem að ég held að við vonumst öll til þess að verði með aðalliðinu á næsta tímabili. Þessar fjárfestingar reynast svo enn meiri sóun þegar að akademían hjá klúbbnum virðist vera betri en þeir leikmenn sem ekki voru kallaðir upp í landsliðsverkefni (ef dæma má þá út frá einni niðurstöðu). 


Innkaupastefnan “kaupum frá Brighton” virðist vera komin úr tísku og svo virðist sem nýjasta tískan er að kaupa frá Sporting Lisbon. Klúbburinn er nú þegar búinn að tryggja sér þjónustu bolabítarins Dario Essugo sem á að auka dýptina á miðsvæðinu sem varaskeifa fyrir Caicedo og Andrey Santos. Þetta er að mínu mati okkar dýpst mannaða svæði en innkaupastjórarnir elska ekki einu sinni fjölskylduna sína meira en að fjárfesta í þessa stöðu. Annar Sporting piltur sem er að koma lítur vel út á YouTube með hraða fætur og hæfileikann til að valsa fram hjá varnarmönnum. Sé er um ræðir heitir Geovany Quenda og leikur oftast nær sem hægri vængbakvörður. Bæði Manchester United og Bayern höfðu víst áhuga á leikmanninum en auðskiljanlega vildi hann frekar koma til Chelsea. Það er einn í viðbót sem við ásælumst hjá þeim og sá hefur verið að raða inn mörkunum í Liga Portugal. 30 mörk og sjö stoðsendingar í 26 leikjum og spilar sem framherji. Ég er að sjálfsögðu að tala um Viktor Gyökeres en líklegt er að hart verði barist um undirskrift hans í sumar. Samkvæmt Transfermark þá eru 59% líkur á að hann fari til Liverpool, en ég held og vona að Chelsea séu að vinna í honum á bak við tjöldin.


Lánsher Chelsea er vel mannaður að venju og eins óþreyjufullur og maður er að fá suma leikmenn til baka til að geta spilað fyrir Chelsea þá á það því miður ekki við um alla. Á annari hliðinni eru menn eins og Andrey Santos og Djorde Petrovic sem hafa verið að brillera í Ligue 1 með Strasbourg en á hinum pólnum eru menn eins og Raheem Sterling og Joao Felix sem að eru vægast sagt ekki að standa undir væntingum. Svo döpur er frammistaðan hjá hinum síðarnefnda að samherji hans, Kyle Walker, sem er einnig á láni hjá AC Milan þurfti að minna hann á að hann væri ekki Messi, og biðja hann vinsamlega um að hætta þessu einspili og gefa boltan meira. Ég hugsa hýru auga til þess sem hefði geta verið, hefði Chelsea fengið Samu Omorodion frá Atletico Madrid í staðinn fyrir Felix. Það virðist einnig vera að okkar bestu markmenn eru staddir á láni í stað þess að vera að spila fyrir móður klúbbinn. Þar á ég að sjálfsöðu við manninn sem að okkar fyrrum stjóri Mauricio Pochettino treysti á milli stanganna, Ðjorde Petrovic. Tölfræði hans í Ligue 1 er gjörsamlega mögnuð og margir sparkspekingar flokka hann meðal fimm bestu markvarða í heiminum. Dreifingin hans finnur samherja  í um 80% tilvika, en borið saman við Sanchez þá er hann einungis með um 70% heppnaðar sendingar. Eitthvað sem að átti að vera hans helsti styrkleiki. Borinn saman við Jörgensen virðist tölfræðin mála þá sem jafnoka en hafa þarf í huga að Jörgensen hefur aðallega leikið gegn minni spámönnum úr neðri deildum Englands og úr deildum neðar í styrkleikalista UEFA í Sambandsdeildinni. Annar markmaður sem er að standa sig vel á láni er vonarstjarnan Mike Penders en honum hefur verið lýst sem blöndu af Thibaut Courtois og Ederson.




Hann er loksins að styttast aðeins, meiðslalistinn hjá klúbbnum. En auk Palmer og Jackson eru einnig að snúa úr meiðslum þeir Noni Madueke og Marc Guiu. Þetta eru allt menn sem reyndust okkur vel í byrjun tímabils og við þurfum á þeim að halda sem fyrst til að aðstoða við að tryggja Meistaradeildar fótbolta á næstu leiktíð. Lavia skrifar nýjan kafla í sinni meiðslasögu og kemur sér aftur á listann, óskum honum skjóts bata Maresca er búinn að vera að stýra endurkomum úr meiðslum hjá leikmönnunum frekar vel að mínu mati, þrátt fyrir að vera örlítið varkár. Þar af leiðandi tel ég að hvorki Jackson, né Madueke verði í byrjunarliðinu gegn Spurs. Ég trúi því hins vegar að þeir fái mínútur af bekknum. Sanchez er aftur kominn í náðir hjá Maresca og heldur sæti sínu í markinu. Varnarmennirnir sem að mínu mati mynda okkar sterkustu fjögurra manna línu eru allir heilir en það eru Reece James, Fofana, Colwill og Cucurella. Miðsvæðið velur sig sjálft, Enzo og Caicedo. Palmer er of mikilvægur hlekkur fyrir okkur til að setja hann ekki beint í byrjunarliðið og honum til halds og trausts tel ég að verði Jadon Sancho, Tyrique George á köntunum og Pedro Neto uppi á topp.


Ég spái okkar mönnum vitaskuld sigri í þessum leik með 3-1 sigri. Spurs eru búnir að eiga ævintýralegt meiðsla tímabil en því er hægt og rólega að ljúka. Eftir fyrstu 12 umferðirnar sátu þeir sæti fyrir ofan okkar menn í þriðja sæti með 23 stig og eru því engir aukvisar. Með meiðsla vandræðunum náðu þeir þó að spila sig langleiðina niður í fallbaráttuna og ef það er ekki mest Spurs hlutur sem að þið heyrið í dag þá skal ég hundur heita. Ég spái að þeir endi tímabilið um miðja töfluna og nái ekki að halda áfram að rétta úr kilinum með heimsókn á Stamford Bridge.


Takk fyrir lesturinn, áfram Chelsea og KTBFFH!

 
 
 

Comments


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page