top of page
Search

Morecambe

Keppni:  Enski bikarkeppnin, 3. umferð

Tími, dagsetning:   Laugardagur 11. janúar 2025 kl: 15.00

Leikvangur:   Stamford Bridge, Lundúnum

Dómari:   Andrew Kitchen

Hvar er leikurinn sýndur? Viaplay ísland, Vodafone sport

Upphitun eftir:   Þráinn Brjánsson


Ég ætla að byrja skrifin á að óska ykkur Chelsea fólki gleðilegs árs og þakka bæði góðar og erfiðar stundir á árinu sem nú er nýliðið. Nú er framundan 3. umferðin í bikarnum og fáum við Rækjurnar frá Morecambe í heimsókn þennan laugardaginn. Maður hefur oft verið hressari með okkar ástkæru bláklæddu, en einnig oft verið verri, þar sem úrslitin um jólin og áramótin voru nú ekki til þess að lundin léttist eitthvað fram úr hófi. Liðið okkar spilaði ljómandi skemmtilegan bolta framan af desembermánuði og komnir í afar þægilega stöðu, og voru reyndar með hagstæðum úrslitum í dauðafæri til þess að komast fjandi nálægt Liverpool. En eitthvað virðist hafa farið verulega úrskeiðis og leikirnir um hátíðarnar hafa verið eitt bévítans klúður. Við gerðum hundlélegt jafntefli við Everton sem er eitt lélegasta lið deildarinnar og töpuðum svo klúðurslega á annan í jólum gegn Fulham og steininn tók úr 30. desember þegar við töpuðum gegn Ipswich í einhverjum slappasta leik sem ég hef séð okkar menn spila. Um síðustu helgi skruppum við svo á Selhurst Park og gerðum jafntefli við Crystal Palace. Mér finnst alveg einkennilegt hvernig liðið er farið að höndla mótlæti. Það virðist sem að þegar liðið er í kjörstöðu til að hífa sig verulega upp töfluna og ættu samkvæmt öllu að vinna þessi lið sem þeir voru að spila við, þá er eitthvað sem brestur verulega. Það kemur upp pirringur og eitthvað einkennilegt hrun og vesen. Eins og liðið er búið að spila seinnipart hausts þá var maður orðinn mjög bjartsýnn á að nú væri þetta loksins komið en það er greinilegt að það vantar enn mikið upp á að Maresca hafi náð að pússa menn saman, en leikurinn á laugardaginn gæti komið liðinu aftur á beinu brautina ef menn ná úr sér hátíðarsleninu og fara að rífa sig í gang. En við skulum nú ekki fara að halda því fram að allt sé í skrúfunni hjá klúbbnum þar sem Cole Palmer skorar enn nánast í hverjum leik og ekki veit ég hvar við værum á töflunni ef við hefðum ekki þessa maskínu.


Nú er janúarglugginn galopinn og sögusagnirnar hrúgast upp og maður tekur þessum vangaveltum með fyrirvara að venju, en ekki yrði ég hissa þó Nkunku færi í þessum glugga þar sem mér finnst holningin á honum benda til þess að hann sé farinn einhvert annað í hug og hjarta. Það má segja um þennann annars ágæta leikmann að hann hefur ekki staðið undir væntingum, en meiðsli hafa vissulega sett stórt strik í reikninginn. Maresca hefur verið að kvarta yfir því að Madueke leggi sig ekki nóg fram á æfingum og fái því ekki sénsinn og ég verð að segja að mér finnst það alveg prýðileg útskýring. Fofana er lagstur í hýði til vors og eru það svosem lítil tíðindi og nú er talið að Chelsea líti til Crystal Palace og hafi hug á að endurnýja kynni við Mark Guehí, varnarmanninn knáa, sem lék einn leik fyrir okkur árið 2018. Því miður náði hann ekki að heilla, þannig að hann var seldur. Guehí hefur blómstrað síðan og er nánast fastamaður í enska landsliðinu, en hann er jú með blátt blóð í æðum og alinn upp á Stamford, var lánaður til Swansea og svo seldur 2021 til Crystal Palace. Það er alveg ljóst að sá leikmaður hefur hækkað talsvert í verði og nú er lag að losa okkur við dragbítana og versla svolítið inn.


Einhverjar væringar eru í þá átt að nú sé fylgst með Kobbie Mainoo en samningaviðræður hans við Man Utd virðast ganga treglega. Einhverjar hugmyndir virðast vera um að kalla Trevoh Chalobah úr láni frá Palace ef málin ganga ekki upp með Guehí. Cesare Casadei og Ben Chilwell eru ekki í hópnum fyrir helgina sem bendir til þess að þeir séu á leiðinni annað. Þegar félagaskiptagluggar eru opnir þá held ég samt alltaf í vonina um að stjórnin hnjóti um einhvern afburða sóknarmann sem gæti myndað gott dúó með Cole okkar Palmer, en því miður held ég að mér verði ekki að ósk minni í þetta skiptið. En það er ekki eins og liðið okkar hafi ekki mannskapinn og hugsanlega kannski förum við að sjá Reece James í einhverjar mínútur? Hver veit. En nýtt ár er alltaf upphaf að einhverju nýju og það er fullt af jákvæðum hlutum að gerast hjá klúbbnum okkar þrátt fyrir bakslag í síðustu leikjum og leikmenn eins og Sancho, Colwill og svo auðvitað undradrengurinn Palmer fara hungraðir inn í nýtt ár og eiga bara eftir að eflast.


Enzo og Caiceido virðast vera að finna fjölina en þó örlar enn á svitaperlum á enni hjá manni þegar Sanchez fær boltann til baka og virðist ekki alltaf átta sig á hlutunum og mér finnst að Jörgensen ætti að fá fleiri sénsa og ég tel nánast öruggt að við fáum að sjá hann á milli stanganna á laugardaginn. Marc Cucurella er skrítin skrúfa og kemur manni sífellt á óvart, en hefur vaxið og dugnaðurinn er svakalegur. Sá spænski er farinn að skora og það með skalla sem mér finnst reyndar eðlisfræðilegt umhugsunarefni miðað við hármagnið. Leikurinn á laugardaginn verður áhugaverður, sjáum við menn koma grimma og ákveðna til leiks eða verður taugaveiklunin okkur að falli enn einn leikinn? Ég held að við fáum að sjá fyrri kostinn en ætla samt að hafa allan varann á og ég tel að hann komi ekki til með að tefla fram sínu sterkasta liði og við fáum að sjá nokkur nýleg nöfn en menn verða að fá mínútur og reynslu og við verðum að treysta Maresca til að hitta á réttu blönduna. 


Morecambe

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mjög kunnugur andstæðingum okkar í Morecambe F.C. en þetta er þó félag með langa sögu. Klúbburinn var stofnaður 1920 og er því rétt um 104 ára gamall. Þeir leika í 2. deild og verður að segja að árangurinn í deildinni hjá þeim sem af er, verður ekki til þess að menn hlaupi beinlínis út á náttsloppnum. Liðið vermir 23. og næstneðsta sæti deildarinnar um þessar mundir. Morecambe er rúmlega 34.000 manna strandbær í Lankaskíri og er einna helst þekktur fyrir talsverða knattspyrnuhefð og þá skemmtilegu staðreynd, að þar er hinn geðþekki hnefaleikamaður Tyson Fury búsettur. Leikmenn liðsins eru kallaðir Rækjurnar og þetta er eina liðið sem pistlaskifara er kunnugt um að sé með skeldýr og blóm í merki sínu. Goðsögnin Sammy Mcllroy sem gerði garðinn frægan með Manchester United , Manchester City og Stoke meðal annars var stjóri hjá félaginu frá 2007 til 2011, en ekki fer sögum af stórbrotnu gengi. Það er líklegt að þetta lið komi til leiks ákafir í að nota tækifærið til að fara lengra svo aldrei skyldi vanmeta. Það þekkjum við óþægilega vel.


Liðsuppstilling og spá:

Þetta verður áhugaverður leikur og ég er alveg klár á að Maresca ætlar ekki að taka neina sénsa í ljósi undanfarinna úrslita og hann ætlar sér að geirnegla þetta. Það er hins vegar spurning um hvað menn gera þegar á völlinn er komið. Mér þykir ekki líklegt að þeir hafi nokkurn áhuga á að tapa á heimavelli gegn Morecambe og ætla ég að koma með mína spá, þó ég og Maresca höfum verið einkennilega ósammála með liðsuppstillingu. Er nokkuð viss um að hann haldi sig þó við 4-2-3-1 og vil sjá Jörgensen í markinu og þar fyrir framan verða þeir Cucurella, Acheampong (hvað er þetta með nöfnin á leikmönnum??) Disasi og Veiga. Þar fyrir framan verða Dewsbury-Hall og Lavia, þar framan við verða Sancho og ég held að Madueke fái sénsinn og líklega Nkunku og fremstan vil ég sjá Marc Guiu þar sem ég held að hann eigi talsvert inni. Hvernig fer leikurinn? við skulum hefja árið með bjartsýni og ég á ekki von á að Rækjurnar nái á okkur marki en við setjum stefnuna á 5 - 0 og það verða Palmer, Guiu og Sancho sem sjá um mörkin. En spyrjum að leikslokum og krossum fingur. Það sem myndi gleðja augað er að Reece fengi að spreyta sig og komist heill frá.



Ég segi bara góða skemmtun og áfram Chelsea!! 








Comments


bottom of page