Keppni: Meistaradeildin
Dag- og tímasetning: Þriðjudagurinn 6. september 2022 kl. 16:45
Leikvangur: Stadion Maksimir, Zagreb í Króatíu.
Hvar er leikurinn sýndur? Stöð2 Sport 3, Ölver o.fl. betri sportbarir.
Upphitun eftir: Hafstein Árnason
Eftir algjörlega óverðskuldaðan sigur á West Ham um liðna helgi, þar sem Kai Havertz, af öllum mönnum, skoraði sigurmarkið. Þá er röðin komin að meistaradeildinni. Í þetta skiptið ferðumst við Zagreb í Króatíu á sjálfan Maksimir völlinn. Maksimirvöllurinn er heimavöllur Dinamo og Króatíska landsliðsins, þannig að við Íslendingar þekkjum vel til, sérstaklega eftir harmleikinn 2014 hjá íslenska landsliðinu. Það eru því margar ónotalegar tilfinningar sem leika um mann. Eftir þessa brösulegu byrjun á tímabilinu, er maður við öllu undirbúinn. Það eru allir leikmenn með að undanskyldum N'Golo Kante sem er meiddur, og Thiago Silva fær kærkomna hvíld. Nýju leikmennirnir, Denis Zakaria og Pierre Emerick Aubameyang eru báðir í hóp. Aubameyang er þó meiddur, þar sem hann er víst kjálkabrotinn, eða brákaður á kjálka - eftir því hvernig er litið á það. Hann virtist vera með grímu á æfingu liðisins, sem líktist Hannibal lecter eða Jason Vorhees úr Friday the 13th bíómyndunum. Við skulum vona að hann nái að hrella andstæðingana með einum eða öðrum hætti.
Kollegar mínir hafa ekki eytt mörgum orðum í Denis Zakaria, en sá leikmaður er djúpur miðjumaður, með eiginleika sem aðrir miðjumenn liðsins virðast ekki búa yfir. Hann er faktíst séð, einhverskonar ódýrari útgáfa af Claude Makelele. Í Bundesligunni, þegar hann spilaði með Borussia Mönchengladbach, var hann með eitt hæsta sendingarhlutfallið af djúpum miðjumönnum, eða a.m.k. yfir 90%. Hann var keyptur til Juventus í janúar glugganum, til þess að lappa upp á hræðilega samsetta miðju þeirra Tórínó-manna. Í stuttu máli sagt tókst það ekki, en það er mjög erfitt að leggja eitthvað mat á leikmenn sem koma frá Juve. Fyrir áhugasama er þó hægt að rýna í tölfræði Zakaria á þessari síðu. Mjög áhugaverð samantekt. Það verður amk áhugavert að sjá hvernig hann kemur til með að flútta við liðið, en af myndböndum af dæma er hann töluvert spenntari en Aubameyang.
Dinamo Zagreb er klúbbur sem hefur gefið af sér leikmenn eins og Luka Modric og okkar besta Mateo Kovacic. Þeir Dinamo menn sitja á toppi króatísku deildarinnar með 22 stig, átta stigum á undan Slaven, og tíu frá Hajduk Split í þriðja sæti. Króatíska deildin er nú nokkuð sérstök, en í þeirri deild leika aðeins tíu lið í fjórum umferðum. Í meistaradeildinni vann liðið Skhupi frá Makedóníu fyrst, svo Ludogoretz Razgrad frá Búlgaríu næst, áður en þeir mættu Bodo Glimt í síðustu umferð. Norðmennirnir voru helvíti nálægt því að slá Dinamo út, enda þurfti framlengingu til. Leikurinn var alveg hnífjafn þar Króatarnir skoruðu mark í uppbótartímanum. Við það settu þeir norsku allt fram og fengu það svo í bakið í skyndisókn. Úrslit leiksins urðu því 4-1 sem gefur ekki glögga mynd af málum. Heimavöllurinn kemur örugglega til að hjálpa eitthvað, þar sem stuðningsmenn af Balkanskaganum kalla ekki allt ömmu sína.
Byrjunarliðið:
Í ljósi þess að Thiago Silva fær frí að þessu sinni tel ég það líklegt að Thomas Tuchel stilli í 4 manna vörn með Koulibaly og Fofana í miðvörðum. Ben Chilwell sem var frábær gegn West Ham, virðist ekki alveg 100% og tel ég hann vera frekar á bekknum, þannig að Marc Cucurella heldur sæti í vinstri bakverði. Reece James er átómatískt fyrsti maður á blað - með nýjan langtímasamning við klúbbinn. Ég hygg einnig að Tuchel verði íhaldssamur í vali á miðjumönnum þar sem Jorginho fékk mikla hvíld í West Ham leiknum, og Kovacic verði startað - en líklega skipt útaf í seinni hálfleik, sennilega fyrir Zakaria. Ziyech fékk einnig næga hvíld og verður því ferskur á hægri kantinum í 4-2-2-2 kerfinu. Mason Mount á vinstri og Kai Havertz fær líklega aftur traustið fyrir markið í síðasta leik. Þeir tveir þurfa þó að hysja upp um sig brækurnar, því við erum með albanska hörkutólið Armando Broja kláran á bekknum. Raheem Sterling hefur staðið sig með prýði og ætti því ekki að hafa áhyggju af sínum stað. Mér þykir ólíklegt að Aubameyang byrji leikinn, en líklegt að hann fái kannski nokkrar mínútur ef vel gengur.
Ætli við segjum ekki að leikurinn fari 2-0 fyrir okkur. Ziyech snuddar einu marki inn utan við teig og síðan fáum við eitt óvænt mark af bekknum frá Broja.
Fyrir áhugasama þá má einnig benda á fréttamannafundinn þar sem Tuchel og Kovacic sátu fyrir svörum.
KTBFHH!
Comments