Keppni: Carabao Cup - Deildarbikarinn
Dag og tímasetning: 29 September Kl 18:45
Leikvangur: Tottenham Hotspur Stadium
Hvar er leikurinn sýndur: Stöð 2 Sport 2
Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason
Chelsea
Sökum Covid-19 er skammt stórra högga á milli í enska boltanum og þannig verður það á þessu tímabili. Leikurinn gegn Spurs er fimmti leikurinn á fimmtán dögum! Það er því spurning hvernig Lampard nálgast leikinn, er hann að fara rótera vel í mannskapnum eða spila á sínu fyrsta liði? Reyndar er það þannig að Lampard hefur notað 22 leikmenn í þessum fimm leikjum tímabilsins, sem verður að teljast býsna góð nýting á hópnum.
Okkar menn þurfa að taka sig saman í andlitinu eftir skelfilegan fyrri hálfleik gegn WBA. Jafnvel þótt síðari hálfleikurinn hafi verið vel leikinn þá má ekki gleyma því að þessi fyrri hálfleikur bauð upp á alla þá drauga sem voru að elta liðið allt síðasta tímabil; klaufaleg varnarmistök, mörk eftir föst leikatriði og slaka markvörslu.
Eins og fyrr segir var allt annað sjá okkar menn í síðari hálfleiknum gegn WBA. Stóran hluta af þessum viðsnúningi má rekja til þess að Lampard gerði taktíska breytingu í hálfleik - skipti úr þessu 4-2-2-2 kerfi sínu yfir í okkar hefðbundna 4-3-3 þar sem Mount og Havertz léku fyrir framan Kanté í þriggja manna miðju. Innkoma Hudson-Odoi gerði það að verkum að loksins var kominn einhver í liðið sem gat hlaupið á vörn heimamanna og kominn einhver heilbrigður stúktúr á liðið þar sem menn þekktu sín hlutverk. Í fyrri hálfleiknum gerðu menn lítið annað en að þvælast fyrir hvor öðrum á miðsvæðinu og allar sóknir enduðu með því að Reece James nelgdi boltanum fyrir markið úr stöðu sem var mjög aftarlega á vellinum, m.ö.o. afskaplega vond sóknaruppbygging. Það er því mjög áhugavert að skoða meðalstöður byrjunarliðsmanna, en slíkt er hægt að gera á hinum frábæra miðli whoscored.com.
Einu tveir leikmenn Chelsea sem halda einhveri breidd eru Reece James og Marcos Alonso og það verkur sérstaka athygli hvað Reece James spilaði framarlega - er í raun samsíða Tammy Abraham. Werner, Mount, Tammy og Havertz eru nánast allir að vinna á sama svæðinu! Fyrir mér þarf Lampard að hætta þessari tilraunastarfsemi og byrja að spila kerfið sem liðið þekkir hvað best (4-3-3).
Lampard staðfesti á blaðamannafundi fyrir leik að bæði Edouard Mendy og Ben Chilwell væru í leikmannahópnum og að Hakim Ziyech og Christan Pulisic yrðu hvorugir með ásamt Billy Gilmour. Ég ætla bara að gerast svo djarfur að henda Mendy strax í búrið. Það er risavaxin markvarðarkrísa hjá okkur og Mendy er okkar eina von í þeim efnum. Ef marka má orð Lampard virðist hann vera búinn að setja Kepa í eitthvað verndað umhverfi og það kæmi mér ekki á óvart ef hann myndi verma tréverkið í ansi langan tíma:
Ég vonast til þess að Lampard hendi í 4-3-3, jafnvel þó okkar menn hafi unnið Spurs tvisvar sinnum á síðustu leiktíð með því að spila 3-4-3. Chilwell kemur þá í vinstri bakvörðinn og Azpilicueta spilar í þeim hægri - held að Reece James þurfi á smá hvíld að halda, bara svo hann sé ferskur í næsta deildarleik. Ég vil sjá Zouma og Thiago Silva spila saman í miðvörðunum. Á miðjunni vil ég svo sjá Kante og Mount fá hvíld og stilli því upp Jorginho, Kovacic og Barkley. Frammi er svo þeir Werner, Tammy og Hudson-Odoi.
Leikjaálagið mun fara að segja til sín fyrr á þessu tímabili en vanalega, þess vegna verður Lampard að nota þennan stóra hóp sem hann hefur. Havertz, James, Mount og Kante hafa allir spilað mjög mikið og mikilvægt að passa upp á meiðsli hjá þeim, sérstaklega Kante!
Spurs
Það er sjaldan lognmolla í kringum okkar eina sanna Jose Mourinho og á því er engin undantekning. Mourinho er með allt á hornum sér og skil ég hann ágætlega. Í fyrsta lagi er hann brjálaður yfir því að Spurs hafi fengið á sig vítaspyrnu undir lok leiksins gegn Newcastle sem varð til þess að leikurinn endaði jafntefli. Í annan stað er hann verulega ósáttur við það leikjaálag sem hvílir á liði sínu og hefur hann samúð mína þar.
Eins og sést munu Spurs spila heila fimm leiki á ellefu dögum! Spila núna á þriðjudag, svo strax aftur á fimmtudag í Evrópudeildinni og svo um helgina gegn Man Utd. Þetta hefur gert það að verkum að Móri segist ætla að spila hálfgerðu unglingaliði gegn okkur annað kvöld - en þetta kemur allt saman í ljós, Mourinho er nú þekktur fyrir að koma á óvart í liðsvali og vera í svokölluðum "mind games" fyrir leiki.
Annars hafa Tottenham menn verið að leika ágætis bolta og pökkuðu m.a. annars Southampton saman 2-5 þar sem Son skoraði 4 mörk. Harry Kane hefur verið að spila vel og er með fimm stoðsendingar og tvö mörk í fyrstu umferðum ensku Úrvalsdeildarinnar. Eins og allir vita náðu Spurs að klófesta Gareth Bale, en hann byrjar ekki að spila fyrr en í október.
Spá
Eitthvað segir mér að Mourinho standi við stóru orðin og tefli fram löskuðu liði sem mun gera það að verkum að okkar menn muni eiga einfaldari leik fyrir höndum en ella. Spái því að Chelsea vinni 2-0. Mendy heldur hreinu, Werner setur sitt fyrsta mark og Hudson-Odoi bætir við einu í lokin.
KTBFFH
- Jóhann Már
Commentaires