Keppni: Úrslitaleikur Ofurbikarsins
Dag- og tímasetning: Miðvikudagurinn 11. ágúst kl 19:00
Leikvangur: Windsor Park
Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport.
Upphitun eftir: Þór Jensen
Eftir gott sumarfrí með Evrópumóti, Ólympíuleikum og íslenskum fótbolta til að stytta okkur stundir er loksins komið að keppnisleik hjá okkar ástkæru Chelsea mönnum. Bláklæddir Evrópumeistarar mæta gulklæddum Evrópudeildarmeisturunum Villarreal á Windsor Park í Belfast.
Margir leikmenn Chelsea fóru langt í Evrópumótinu og skiluðu sér því seinna til baka á æfingasvæðið en aðrir og munu því mögulega spila minna í leiknum gegn Villarreal. Þeir eru þó allir með í hópnum, sem er góðs viti, og líklega munum við sjá alla helstu stjörnurnar fá einhverjar mínútur.
Mason Mount, Reece James, Chilwell og Jorginho voru allir í hóp sinna liða í úrslitaleik Evrópumótsins og skiluðu sér til baka á Cobham æfingasvæðið 2. ágúst, en Thiago Silva kom einnig til baka sama dag eftir Copa America. Þeir munu því líklega ekki byrja leikinn gegn Villarreal aðeins 9 dögum eftir endurkomuna. Þjóðverjarnir í hópnum sneru til baka til æfinga 24. júlí ásamt Frökkunum og Kovacic. Þessir menn munu því líklega allir byrja leikinn.
Chelsea og Ofurbikarinn
Chelsea hefur einu sinni áður unnið Ofurbikarinn en það var árið 1998 þegar við lögðum sjálfa Real Madrid af velli 1-0 með marki frá Gus Poyet. Eftir að Chelsea vann Meistaradeildina árið 2012 mættum við Atletico Madrid í Uefa Super Cup og töpuðum þeim leik 4-1. Árið eftir vann Chelsea Evrópudeildina og mættu Evrópumeisturum Bayern München í Ofurleiknum. Sá leikur endaði með 2-2 jafntefli og úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni sem Bayern menn unnu 5-4 eftir að hinn eini sanni Romelu Lukaku klúðraði síðustu spyrnu Chelsea. Það hefði því verið tilvalið að sjá Lukaku spila þennan leik og setja eins og eitt gott sigurmark til að bæta upp fyrir vítaklúðrið, en það verður víst að bíða betri tíma þar sem hann er ekki í hóp fyrir þennan leik. Síðasti Ofurbikarleikur Chelsea var 2019 gegn Evrópumeisturum Liverpool, sá leikur endaði nákvæmlega eins og Bayern leikurinn, 2-2 og 5-4 fyrir Liverpool í vító.
Byrjunarliðið
Það verður athyglisvert að sjá liðsuppstillingu Chelsea manna í þessum leik. Í æfingaleikjunum þremur sem hafa verið spilaðir undir opnum dyrum hefur Tuchel alltaf byrjað í 3-4-3 en í leikjunum gegn Arsenal og Tottenham sáum við hann skipta yfir í einhvers konar 4-2-3-1 kerfi á köflum, hvort það hafi verið taktísk tilraun eða einungis til að leyfa mönnum að fá mínútur í sínum bestu stöðum er erfitt að segja, en líklegt verður að teljast að Tuchel stilli upp í sitt hefðbundna 3-4-3 kerfi í Belfast.
Við sáum Callum Hudson-Odoi spila í vinstri- og hægri vængbakvarðarstöðunni í æfingaleikjunum og ég spái því að hann byrji þar hægra megin gegn Villarreal, þar sem Reece James er tiltölulega nýkominn til baka úr fríi. Kai Havertz og Werner eru nokkurn veginn “auto” inn í fremstu þrjá, ásamt Ziyech sem hefur átt algjörlega frábært undirbúningstímabil.
Aðeins erfiðara er að spá fyrir um hverjir munu mynda miðvarðaþríeykið, en líklega mun það skipa Rüdiger, Christensen og þá annað hvort Zouma eða Azpilicueta. Zouma hefur verið sterklega orðaður við önnur félög og er líklega á leið frá félaginu áður en glugginn lokar, svo mögulega mun Tuchel frekar vilja nota Azpi, nema að hann vilji nota leikinn sem sýningarglugga fyrir Zouma.
Í síðasta þætti af Blákastinu spáðum við m.a. fyrir um byrjunarliðið í leiknum gegn Villareal, en í þættinum ræddum við einnig leikmannamál, endurkomu Lukaku (LuBacku) og tímabilið sem er að hefjast. Þátturinn er aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum, en einnig í síðustu frétt hér á cfc.is.
Ég spái byrjunarliðinu í Ofurbikarsleiknum svona:
Þetta er hrikalega sterkt byrjunarlið, þrátt fyrir að vera án nokkurra lykilmanna. Mount, Chilwell, James, Pulisic og Jorginho munu svo líklega koma inn og spila einhverjar mínútur.
Villarreal
Guli Kafbáturinn, eins og Villarreal eru jafnan kallaðir á Spáni, áttu virkilega gott tímabil í fyrra. Þeir enduðu í 7. sæti en unnu eftirminnilega Evrópudeildina eftir sigur á Man Utd í úrslitaleik. Sá leikur fer líklega í sögubækurnar fyrir lengstu vítaspyrnukeppni síðari ára.
Unai Emery við Villarreal fyrir síðasta tímabil og var þetta hans fjórði sigur í Evrópudeildinni sem er auðvitað sturluð staðreynd. Lið Villarreal hefur á að skipa flottum leikmönnum eins og miðverðinum Pau Torres sem m.a. var orðaður við Chelsea, Man Utd og Real Madrid. Dani Parejo er frábær miðjumaður sem á spænska landsleiki og sömuleiðis framherjinn Gerard Moreno sem líklega er þeirra besti leikmaður.
Það er gaman að segja frá því að bærinn Villarreal er í raun bara lítill smábær á spænskan mælikvarða þar sem aðeins um 50.000 manns búa. Því er í raun magnað að svo lítill bær geti átt svona frambærilegt fótboltalið.
Spá
Á pappír er okkar lið mikið sterkara en Villareal, svo sigur ætti að vera krafa. Herra “good ebening”, Unai Emery er hins vegar alltaf með einhver spil uppi í erminni og mun ekki selja sig ódýrt, það er nokkuð ljóst.
Ég spái okkar mönnum 2-1 sigri í hörkuleik, Havertz og Ziyech með mörkin fyrir Chelsea.
KTBFFH
Þór Jensen
Comments