Legia á Stamford
- Jóhann Már Helgason
- 13 minutes ago
- 4 min read
Keppni: Evrópska Sambandsdeildin - fjórðungsúrslit seinni leikur
Tími, dagsetning: Fimmtudagur 17. apríl kl: 13:00
Leikvangur: Stamford Bridge, London
Dómari: Alejandro Hernadez (Spánn)
Hvar sýndur: Stöð 2 Sport
Upphitun: Hafstein Árnason

Það er einhver sérstök tegund af lífsleikni sem maður þróar með sér sem Chelsea-aðdáandi: Hæfileikinn til að horfa á lið fullt af milljónamæringum spila bolta af minni nákvæmni en krakkar á skólalóð í Sandgerði – en samt trúa á betri morgundag. Þann 13. apríl tók okkar Bláa vél – eða púsluspil sem einhver henti út um glugga og sagðist svo hafa skipulagt með Excel-skjali – á móti Ipswich Town. Já, Ipswich. Þetta var svona leikur sem maður vissi að myndi klárast með einhverjum vafasömum tilfinningum… og svei mér þá, ef ekki pirringi af verstu sort.
Leikurinn byrjaði eins og margir góðir draumar – með smá von og mikilli sjálfsblekkingu. Við héldum boltanum eins og liðið væri í sálfræðitíma um stjórn og yfirvegun. En eftir fyrstu fimmtán mínúturnar varð fljótlega ljóst að þetta væri ekki liðið sem ætlaði sér að skora – heldur liðið sem safnar xG til gamans, en kýs að nýta ekkert af því. Fengum ágætis færi sem Nico Jackson þrusaði boltanum í stöngina, en svo hófst harmleikurinn. Ipswich komust upp hægri kantinn og sendu boltann fyrir þar sem Enciso komst á milli miðvarðanna og laumaði boltanum á fjær, framhjá Sanchez í markinu. Andartakið þarna þegar boltinn hafnaði í netinu minnti óþægilega á lokasenuna í kirkjugarðinum í The Good, The Bad and The Ugly. Tosin, Colwill og Sanchez horfðu á hvorn annan, pínu ráðvilltir til að byrja með, en sennilega tilbúnir að draga upp skömmbyssuna til að skjóta skömminni á hvorn annan. Þarna virðist eitthvað ægilegt samskiptaleysi eiga sér stað. Colwill á vera leiðtoginn í vörninni. Sanchez á að geta stjórnað í markteig... en það bara gerist ekki. Enda minnti það heldur betur á sig í seinna markinu þegar Ipswich komist aftur í skyndisókn, nema af vinstri kantinum sendu þeir fyrirgjöf sem endaði á fjærstönginni þar sem Ben Johnson fékk að fljúga eins og örninn og skalla yfir Marc litla Cucurella í öfugt horn við Sanchez. Sá spænski stóð frosinn á línunni og fór ekki út í boltann. Einhvern tímann hefur hann reynt við þessa krossa, en því var ekki að sælda í þetta sinn. Hann er með takmarkað sjálfstraust, og það stendur af þeirri staðreynd, að hann á ekkert erindi í topp klúbb í Englandi, hvað þá í Evrópu. Við munum að hann kom sem ferskur blær í stað Kepa sem þorði aldrei út í neina bolta. Núna er það bara staðan með Robert Sanchez. Uppspilið var í tómu tjóni og útspörk rata yfirleitt til áhorfenda, frekar en til liðsfélaga. Það þarf hugrekki til að byggja upp frá marki. En það þarf dómgreind til að hætta þegar maður veit að markvörðurinn þinn væri í vandræðum með að skila póstkorti rétt. Robert Sanchez er ekki upphafspunktur sóknar – hann er kveikjan að endalausa harmleiknum sem við erum föst í. Staðan 0-2 í hálfleik, á Stamford Bridge.
Maresca hafði fengið nóg og ákvað að hleypa af skammarskotinu. Tosin fauk útaf í hálfleik og inn á kom Malo Gusto. Seinni hálfleikurinn byrjaði öflugt og Nonni litli Madueke spólaði upp hægri kantinn og skaut boltanum svo fast fyrir að hann endaði í Axel Tuanzebe og þaðan í markið. Það kalla ég samstarf. Við lágum á Ipswich megnið af leiknum en einhvern veginn fengu þeir betri færi. Jadon Sancho kom inn á fyrir Noni Madueke. Sirka 10 mínútum síðar fékk hann boltann einn og óvaldaður í teignum, þar sem hann fékk að krulla boltanum snyrtilega í vinkilinn. Já krakkar, Jadon Sancho getur sannarlega eitthvað í fótbolta, þegar hann er ekki með varnarmenn utan á sér. 2-2 og maður var farinn að vonast eftir sigurmarkinu. Það kom hinsvegar aldrei og þriðja skiptingin sem Maresca notaði var Nkunku fyrir Jackson í lok leiks. Enzo Maresca hefur sýnt okkur aftur og aftur á þessu tímabili að hann sé ekki sérstaklega sterkur í leikstýringu á meðan leik stendur. Á sama tíma, á síðasta tímabili var stöðugur stígandi í leik Chelsea undir stjórn Pochettino. Núna er hið andstæða upp á teningnum. Baráttan um meistaradeildarsætið á bara eftir að harðna og þessu "kaffi og sígó" leikjaprógrammi er lokið. Nú tekur alvaran við í deildinni og við erum með TEMU útgáfuna af Pep Guardiola til að stýra liðinu. Guð gefi manni æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt.
Nú tekur Sambandsdeildin við í vikunni með seinni leiknum gegn Legia Warszawa. Maresca ákvað að hvíla Reece James og Tyrique George í leiknum gegn Ipswich, eftir að báðir stóðu sig feikna vel gegn Legia í Póllandi. Það sem er frábært við Legia eru áhangendur liðsins. Þeir mættu með alvöru stemmningu í fyrri leiknum. Aðdáendaborðinn (Tifo) var á heimsmælikvarða. Annað við Legia liðið var svo sem ekki neitt merkilegt þannig séð, liðið er alveg nokkrum númerum of lítið fyrir Chelsea. Þessi ágæta Sambandsdeild er það sem mun bjarga andltinu fyrir Chelsea á þessu tímabili, en munum þó að FC Kaupmannahöfn voru erfiður andstæðingur. Ég er ekki viss um að Legia, Djurgården eða Rapid Wien verði mikil fyrirstaða, en Real Betis og Fiorentina gætu verið erfið viðureignar. Það er því um að gera að halda einbeitingu og klára þetta einvígi strax í fyrri hálfleik.
Við búumst fastlega við því að Jörgensen fái traustið í markið. Josh Acheapong verður í hægri bakverði. Chalobah og Badiashile verða miðverðir. Malo Gusto verður í vinstri bakverðinum. Reece James og Dewsbury Hall verða á miðjunni. Cole Palmer verður á sínum stað í 10'unni. Jadon Sancho og Tyrique George á köntunum og Nkunku fær startið í stað Jackson, þó svo hann sé annar leikmaður rúinn sjálfstrausti. Sérstaklega eftir síðasta leik gegn Legia. Það má svo búast við því að einhverjir unglingar fái traustið í seinni hálfleik, sérstaklega ef Chelsea skora eitt eða tvö mörk.
Hvernig fer leikurinn? Leikurinn fer 4-0. Sancho með 2 mörk. Madueke 1 af bekknum og Palmer 1.
Áfram Chelsea!
Comments