top of page
Search

Heimaleikur gegn Newcastle

Keppni:  Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:  Sunnudagur 27. október 2024 kl: 14:00

Leikvangur:   Stamford Bridge, London 

Dómari:   Simon Hooper

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport 2

Upphitun eftir:  Elsu Ófeigsdóttur



Chelsea

Eftir þægilegan 1-4 sigur á útivelli í Sambandsdeildinni sl. fimmtudag á gríska liðinu Panathinaikos mætum við Newcastle á Brúnni. Maresca var jákvæður í garð leikmannahópsins á blaðamannfundi fyrir Newcastle leikinn og sagði að bæði hann og leikmennirnir sjálfir tækju eftir framförum en þó skortir jafnvægi á milli varnar og sóknar og vinnunni er hvergi nærri lokið. Þá er gaman að segja frá því að Maresca minntist sérstaklega á að leikmenn skildu leikinn betur og væru sjálfir farnir að sjá hvað hefði mátt gera betur þegar þeir horfa á klippur á vídjófundum. Hann sendi líka sneið á Reece James að hann þyrfti að sýna að hann væri liðtækur fyrirliði. Eitthvað samtal hefur átt sér stað og Reece þarf nú að sýna fyrir honum að hann stendur undir slíkri ábyrgð.


Það er margt jákvætt í leik okkar manna og gaman að sjá Mudryk og Joao Felix vinna saman og skora gegn Panathinaikos. Þá er líkt og liðið sé loksins að verða að einni heild og vonandi að samspilið haldi áfram að slípast til og óskandi að tíðum stjóraskiptum sé lokið.  Leikmannahópur Chelsea er aldrei þessu vant nokkuð heill en aðeins Chilwell er fjarverandi vegna veikinda. Þó verður að taka með í reikninginn að þeir leikmenn sem spiluðu í Grikklandi gætu verið þreyttir enda örfáir dagar á milli leikja. 




Andstæðingurinn

Newcastle hefur ekki náð í góð úrslit að undanförnu en síðast unnu þeir Wolves um miðjan september, töpuðu svo gegn Fulham, gerðu tvö jafntefli (City og Everton) en unnu leik gegn Wimbledon í Carabao bikarkeppninni og komust áfram í 4. umferð. Þeir töpuðu svo í síðustu umferð deildarinnar gegn Brighton, einhverjir segja að Newcastle hafi átt að sigra leikinn en svona er boltinn – það eru mörkin sem telja. 


Leikmannahópur Newcastle hefur tekið smá breytingum frá því á síðasta tímabili. Klúbburinn ákvað að selja tvo leikmenn um tvítugt í sumar til að freista þess að vera réttu megin við fjárhagsreglur Úrvalsdeildarinnar (PL Profit and Sustainability Rules). Stjóri Newcastle minntist sérstaklega á hvað hann var leiður að sjá á eftir þeim báðum, Elliot Anderson (21) og Yankuba Minteh (20). Sá síðarnefndi var á láni 2023/2024 tímabilið hjá Feyenoord í Hollandi þar sem hann spilaði 27 leiki undir stjórn Arne Slot. Minteh stóð sig vel en hann skoraði 10 mörk og átti 6 stoðsendingar. Elliot Anderson spilaði með Newcastle á síðasta tímabili, kom við sögu í 26 leikjum í öllum keppnum og átti 2 stoðsendingar. 

Fjórir leikmenn Newcastle eru fjarverandi vegna meiðsla, Kieran Trippier og Callum Wilson eru væntanlegir í nóvember en þeir Jamaal Lascelles og Sven Botman ekki fyrr en í janúar. Þá er vafi á því hvort Matt Targett og Martin Dubravka verði með.  


Þeir leikmenn sem verða alveg örugglega í byrjunarliði Newcastle eru Aleksander Isak, Anthony Gordon, Joelinton, Nick Pope, Fabian Schär og Daniel Burn. Ég reikna með að hinn tvítugi Lewis Hall verði einnig í byrjunarliði Newcastle en margir stuðningsmenn Chelsea muna kannski eftir honum þegar hann fékk að spila nokkra leiki með aðalliðinu 2021-2023 og var kjörinn besti leikmaður Chelsea-academíunnar árið 2023. Hann fór svo á láni til Newcastle sem keyptu hann í sumar á 28 milljónir punda. 



Ég spái byrjunarliði Chelsea svona: Sánchez, Gusto, Colwill, Fofana, James, Lavia, Caicedo, Mudryk, Palmer, Madueke og Jackson. 

Ég spái 1-0 sigri, Madueke skorar fyrir okkur. 


Áfram Chelsea! 

KTBFFH!


P.s. munið að skrá ykkur í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Það hefur heilmikið að segja fyrir Chelsea klúbbinn að við séum mörg, og líka að þetta sé besta og ákjósanlegasta leiðin til að verða sér útum miða á leiki með Chelsea. Allar upplýsingar varðandi skráningar eru á www.chelsea.is

Comments


bottom of page