top of page
Search

Góð úrslit í Madríd - Leikskýrsla og einkunnir



Chelsea mætti til leiks af miklum krafti og dómineraði algjörlega fyrsta hálftíma leiksins. Pressa liðsins var af hæsta gæðaflokki, leikmenn Real fengu engan tíma á boltanum og við unnum alla seinni bolta. Okkar menn komust trekk í trekk í góð færi þegar við unnum boltann af Real mönnum á þeirra vallarhelmingi. 3-5-2 kerfi Real með þriggja hafsenta varnarlínu var engan vegin að virka og ekkert gekk upp hjá þeim. Marcelo var arfaslakur, bæði varnar- og sóknarlega og Casemiro átti einnig í miklum vandræðum með að binda saman miðju Real liðsins og brjóta niður sóknir Chelsea manna eins og hann gerir vanalega svo vel.


Úr þessum sóknum uppskárum við fyrsta mark leiksins þegar að Antonio Rüdiger sendi frábæra sendingu yfir varnarlínu Real sem að fann Pulisic á hinum endanum sem tók boltann niður inn í teig, var pollrólegur, leit upp, sólaði Courtois í markinu og kláraði dæmið. Þvílíkt sjálfstraust sem að Captain America er með þessa dagana og hann er að komast í sitt allra besta form. Yngsti leikmaður í sögu Chelsea til að skora í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.


Á þessum 30 mínútna kafla hefðum við hæglega getað skorað 2-3 mörk ef að allt væri eðlilegt en Timo okkar Werner hélt uppteknum hætti og klúðraði dauðafæri einn á móti markmanni. Ef að hann hefði helminginn af sjálfstraustinu sem að Pulisic er með í augnablikinu hefði hann sett boltann í netið, en hann skaut beint á snákinn í marki Real manna.


Á 29. mínútu upplifðum við Deja Vú moment frá síðasta tímabili þegar við fengum á okkur hálf klaufalegt mark úr hornspyrnu. Við töpuðum fyrsta bolta og seinni bolta og Real menn fundu Benzema í teignum, sem er uppskrift af vandræðum, Frakkinn kláraði færið sitt frábærlega.


Staðan í hálfleik 1-1 en hefði átt að vera 0-3.


Seinni hálfleikur var mun lokaðari en sá fyrri og bæði lið mjög þétt varnarlega. Seinni hálfleikurinn var því þessi taktíski 0-0 leikur sem ég hafði spáð fyrir um, en fáir bjuggust við svona líflegum fyrri hálfleik. Leikmenn Chelsea voru augljóslega þreyttir þegar á leið seinni hálfleik og Azpiliqueta var alveg búinn, enda að spila sem vængbakvörður 2 leiki í röð með 3 daga millibili, sem maður sér ekki oft frá fyrirliðanum okkar. Tuchel gerði þrefalda skiptingu á 66. mínútu þegar hann tók Azpi, Pulisic og Werner út af fyrir James, Ziyech og Havertz. Skiptingin blési þónokkru lífi í okkar menn og við vorum nokkrum sinnum nálægt því að komast í ákjósanlegar stöður en það vantaði herslumuninn.


Real menn settu elsku Hazard okkar inn á á sömu mínútu en greyið kallinn gerði ekkert þegar hann kom inn á og var lítið í boltanum. Real menn fengu varla færi í öllum leiknum fyrir utan nokkur föst leikatriði, og skoruðu úr eina skotinu þeirra á markið.


Kanté var gjörsamlega ómannlegur í leiknum, hann var alls staðar á vellinum, hljóp endalaust, vann boltann trekk í trekk og að vera með hann í liðinu er eins og að vera manni fleiri.





Þegar öllu er á botninn hvolft eru þetta góð úrslit fyrir seinni leikinn heima á Brúnni, en svekkjandi að hafa ekki unnið leikinn þar sem við vorum mun betri aðilinn í leiknum. Við erum með betra byrjunarlið og miklu betri bekk og eigum að vinna seinni leikinn heima, svo einfalt er það. Tuchel er að gera frábæra hluti með liðið og gaman að sjá hversu vel við erum að spila gegn stærstu liðum Evrópu.


Einkunnir

Mendy: 6 - lítið að gera hjá Heimaklettinum en gat lítið gert í markinu, enginn markvörður hefði varið þetta. Var öruggur í teignum og greip nokkrar fyrirgjafir vel.


Christensen: 7 - Daninn öruggur að vanda í hjarta varnarinnar, gaf ekkert eftir og sýndi hörku sem er gaman að sjá frá honum.


Rüdiger: 7 - lagði upp markið með frábærri sendingu en gerði smá mistök í marki Real og skyldi Benzema eftir ódekkaðan þegar hann reyndi að ná skallaboltanum sem hann náði ekki. Fyrir utan það öruggur og sterkur í vörninni.


Silva: 8 - ótrúlegur varnarmaður og les leikinn betur en flestir. Veit hvað sóknarmaðurinn ætlar að gera áður en hann veit það sjálfur.


Azpi: 7 - duglegur straujandi upp og niður vænginn, öruggur varnarlega og fínn sóknarlega.


Chilwell: 7 - fínn leikur hjá honum, góður varnarlega en saknaði þess að sjá fleiri fyrirgjafir frá honum í sókninni.


Jorgingo: 7,5 - myndar frábært miðjupar með Kanté, öruggur og nákvæmur í sendingum að vanda.


Kanté: 9,5 - það er varla til sá leikmaður í heiminum sem ég myndi vilja skipta út fyrir Kanté á þessum tímapunkti. Þvílík forréttindi að fá að hafa þennan gæja í liðinu sínu, hann spilar á við tvo leikmenn, eltir alla bolta, hleypur allan leikinn og vinnur bolta út um allan völl, í öllum leikjum. Þvílíkt vélmenni þessi maður. Ef hann hefði gert betur í einni skyndisókninni þegar sendingin hans var slök hefði hann fengið 10.


Mount: 8 - spilaði sinn 100. leik fyrir aðallið Chelsea, og enn aðeins á sínu öðru tímabili, ótrúlegur árangur. Var frábær í fyrri hálfleik og skapaði aragrúa af færum, vann boltann og fór vel með hann, beinskeyttur og áræðinn.


Pulisic: 8 - frábært mark hjá Kananum, þvílíkt composure og gott slútt. Hefði getað gert betur í lokasendingunni í nokkrum færum í fyrri hálfleik, annars flottur leikur.


Werner: 5 - fyrir að klúðra svona dauðafæri í svona mikilvægum leik dreg ég hann hressilega niður í einkunn. Átti ekki slakan leik fyrir utan klúðrið, pressaði vel og kom sér í góðar stöður, en hann hefði átt að fara langleiðina með að senda okkur í úrslitaleikinn.


Varamenn:


Ziyech: 7,5 - kom inn með miklum krafti og olli usla í vörn Real manna. Hefði kannski átt að byrja leikinn á kostnað Werner.


Havertz: 7 - var sprækur eins og Ziyech en hefði getað komist einn í gegn með smá meiri áræðni undir lokinn en hikaði og reyndi svo að sóla varnarmanninn sem gekk ekki.


James: 6 - leysti verkefnið vel og hélt Hazard í skefjum.


KTBFFH

Þór Jensen

Comments


bottom of page