top of page
Search

Frank Lampard snýr aftur

Wolves - Chelsea



Keppni: Premier League


Tími, dagsetning: Laugardagur 8. apríl kl: 14.00


Leikvangur: Molineux stadium


Hvar er leikurinn sýndur: Sjónvarp Símans


Upphitun eftir: Finn Marinó Þráinsson og Þráin Brjánsson





Það er óhætt að segja að dymbilvikan hafi verið viðburðarík fyrir okkar ástsælu, en eins og allir vita er Graham “hinn allt of ljúfi” Potter, horfinn á braut. Bruno Saltor fékk sinn jómfrúarleik sem bráðabirgðastjóri gegn Liverpool síðastliðinn þriðjudag. Þar sýndum við góðan leik og vorum mun betri en Liverpool. Chelsea skoraði tvö mörk, en bæði voru dæmd af og ekki náðist að koma boltanum löglega yfir línuna. Við þurftum því að sættast á markalaust jafntefli gegn vængbrotnu liði drengjanna frá bítlaborginni.


Athygli vakti að Frank nokkur Lampard var á leiknum og fóru menn strax að fabúlera um hvort það gæti verið að hann væri að taka tímabundið við liðinu. Þær fabúleringar reyndust á rökum reistar, því Frank er tekinn við liðinu til vors, og nú á að blása von í brjóst leikmanna og reyna að koma einhverju skikki á mannskapinn. Þær fréttir fóru misjafnlega í menn, því hann var sælla minninga stjóri Chelsea frá 2019 til 2021, en var svo látinn fara eftir að hafa misst taktinn og tók síðar við Everton þar sem hann gerði ekki miklar rósir. Hann hefur látið hafa það eftir sér að það hafi verið auðveld ákvörðun að taka þessu boði að vera bráðabirgðastjóri, eða “caretaker” til vors, þar til framtíðarstjóri verður ráðinn.


Við vitum svosem ekki hvað hann ætlar að koma með inn í dæmið sem ekki hefur verið reynt áður. Hann er jú goðsögn hjá klúbbnum, vinsæll hjá áhangendum, og kannski bætir móralinn sem ég held að sé ekkert í hæstu hæðum hjá klúbbnum. Við vonum að þetta breytist þá eitthvað og leikmenn rífi sig upp á rassgatinu. Liðið þarf að finna leiðina að marki andstæðingana, því að í þessu sporti skiptir ansi miklu máli að skora mörk og allra helst fleiri en andstæðingurinn. Þar höfum við verið að draga ansi mikið lappirnar sem af er.


Sleppum öllum vangaveltum um framtíðarstjóra og skoðum frekar aðeins síðasta leik og veltum svo fyrir okkur komandi leik gegn Wolves. Leikurinn við Liverpool var skemmtilegur á að horfa og margir bláliðar áttu flottan leik. Vörnin var prýðileg. Koulibaly og Cucurella áttu til dæmis, einn sinn besta leik í langann tíma og Kante var frábær! Almáttugur hvað þessi maður er liðinu mikilvægur!


Reece James skoraði flott mark, en það var dæmt af þar sem 1 ⅓ af hnéskel Enzo var víst innan línu. Joao Felix var flottur og ógnandi að venju og Kai átti spretti og skoraði mark, en einhvern veginn lak boltinn af hendinni á honum í markið, þannig að við græddum ekkert á því. Mikið lifandis skelfing vonum við að Lampard komi með einhvern vinkil og finni út úr þessari markaþurrð. En þá að leiknum gegn Wolves. Þeir eru eins og er með 28 stig, einu stigi ofan við fallsæti. Þeir leggja væntanlega allt í sölurnar til að skríða upp töfluna, en gleymum því heldur ekki, að okkar ástsælu ásælast þrjú stig ekki síður og það má búast við hörkuleik. Við treystum á að okkar menn bjóði Lampard velkominn með góðum sigri.


Wolves


Eins og áður segir eru Úlfarnir aðeins einu stigi frá fallsæti og hafa efalaust fullan hug á að bæta úr því. Lítið hefur gengið hjá félaginu og hafa þeir verið meira og minna í bullandi vandræðum á tímabilinu. Julen Lopetegui hefur ekki náð að smyrja vélina sem skyldi sem kemur örlítið á óvart, enda fínir leikmenn innan þeirra raða m.a. Matheus Nunes, Joao Gomes, Adama Traoré, að ógleymdum Diego Costa sem fór hamförum hjá Chelsea hér um árið. Nokkrir af lykilmönnum liðsins eiga við meiðsli að stríða, þannig að þeir koma ögn viðkvæmir til leiks og nú ríður á að notfæra sér tækifærið.


Chelsea


Það verður afar fróðlegt að sjá hvernig Lampard stillir upp í sínum fyrsta leik. Chelsea hefur verið að spila miklu betur í þriggja manna varnarlínu upp á síðkastið, þar sem við getum notað James og Chilwell í vængbakvarðarstöðunum. Ætlar hann að halda sig við það eða mun hann stilla upp í 4-3-3 / 4-2-3-1 líkt og hann gerði þegar hann var síðast við völdin? Hvað gerir hann varðandi Kepa?

Það er óhætt að segja að Lampard hafi ekki verið mikill aðdáandi Spánverjans síðast og var Mendy sennilega fyrsta nafn á blað á eftir Mason Mount. Fær Kepa sénsinn eða snýr Mendy aftur á milli stanganna? Persónulega teljum við að Kepa fái traustið til að byrja með en verði hann valdur að einu marki fái hann fallöxina.


Eitt er víst. Það er miðjumaður í röðum Chelsea sem hefur sennilega tekið 1-2 kalda við þær fréttir að Lampard væri kominn aftur. Mason nokkur Mount. Mase hefur ekki átt sjö dagana sæla síðustu mánuði og nánast ekkert fengið að spila eftir klofmeiðslin víðfrægu. Það var orðinn brandari á síðustu vertíð Lampard, að Mount væri sonur hans þar sem að hann spilaði nánast hverja einustu sekúndu undir stjórnartíð Super Frank. Það verður spennandi að sjá hvort að Mount rífi sig í gang núna og sýni loksins hvað í honum býr. Það er fótboltamaður þarna, það er engin spurning.





Svo má ekki gleyma að Lampard er í ákveðinni klemmu varðandi byrjunarliðið um helgina. Ætlar hann að stilla upp því sem hann telur sterkasta liðið til að sækja úrslit eða fara milliveginn og hvíla menn fyrir leikinn á móti Real Madrid í miðri viku? Menn eins og Kante sem eru að stíga upp úr meiðslum.



Ef ég ætti að reyna að spá fyrir um byrjunarlið leiksins væri það einhvern veginn svona:




Ég spái því að Lampard haldi sig við 4-3-3 og hendi Mount strax í byrjunarliðið. Hann hvílir Kante sem kemur sennilega eitthvað við sögu þegar líður á seinni hálfleikinn. Sterling kemur inn í byrjunarliðið og Havertz heldur sinni stöðu. Koulibaly og Fofana verða miðvarðaparið en ég gæti þó trúið því að Badiashile taki stöðuna hans Koulibaly. Kepa heldur sínu sæti eins og er.


Annað ætti ekki að koma á óvart varðandi byrjunarliðið.


Spá


Vonandi nær Lampard að blása einhverjum eldmóði í liðið og fái okkur til að skora allavega eins og eitt mark. Hvorugt liðið hefur reyndar verið mikið í því upp á síðkastið og sennilega mun leikurinn spilast eftir því.


Við náum þó að klára þetta og vinnum leikinn 2-0. Havertz skorar eitt og Mount fagnar endurkomu föður síns og neglir inn einu og sussar á myndavélina í fögnuðinum.


Koma svo!

















Comments


bottom of page