Keppni: FA Bikarinn – 8. liða úrslit
Dag- og tímasetning: Þriðjudagurinn 3. mars 2020, kl.19:45.
Leikvangur: Stamford Bridge.
Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport, Sportbarinn Ölver, BeIn Sport 11
Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason
Chelsea
Ég vil byrja á því að minna á nýjasta þáttinn af Blákastinu, hann er núna aðgengilegur í öllum helstu hlaðvarpsveitum, auk þess er hægt að hlusta á þáttinn með því að ýta hér. En að Chelsea liðinu okkar, það eina stöðuga við liðið þessa dagana er óstöðugleikinn. Flottur sigur gegn Spurs, hörmungar tap gegn FC Bayern og svo lélegt jafntefli gegn Bournemouth eru okkar síðustu þrír leikir. Chelsea hafa aðeins tekið 18 stig úr síðustu 16 deildarleikjum og það er því kraftaverki líkast að liðið hangir ennþá í fjórða sætinu. Að þessu sinni erum við keppa í FA bikarnum, þessari fornfrægu keppni sem Chelsea hefur gert vel í frá því að Roman Abramovich keypti klúbbinn. Frá árinu 2003 hefur liðið borið sigur úr býtum fimm sinnum og tapað tvisvar sinnum í úrslitaleik. Þannig þetta eru 7. úrslitaleikir á einhverjum 16. tímabilum – býsna gott.
Andstæðingar okkar í þessum 8.liða úrslitum keppninnar eru Liverpool, en þeir hafa verið lang besta lið Englands það sem af er þessu tímabili. Það er því spurning hvernig Super Frank mun nálgast þennan leik, hann hefur þegar gefið það út að hann muni ekki hvíla einn né neinn, heldur leggja allt púður í þennan leik. Ef ég reyni að spá fyrir um byrjunarliðið að þá held ég að Lampard haldi áfram með 3-4-2-1 leikkerfið. Í markinu verður líklega unglambið Willy Caballero, ég spái því að miðverðirnir verða þeir Azpilicueta, Christensen og Rudiger. Reece James og markahrókurinn Marcos Alonso taka svo vængbakverðina og Jorginho og Kovacic verða á miðri miðjunni. Mason Mount og Willian koma þarf fyrir framan og Olivier Giroud byrjar svo uppi á topp. Sem sagt, kunnulegt stef m.v. síðustu leiki liðsins en það er erfitt að rótera fram á við þegar leikmenn eins og Pulisic, Abraham, Hudson-Odoi og Loftus-Cheek eru saman á meiðslalistanum.
Liverpool
CFC.is fékk Vigni Örn Hafþórsson til þess að fara yfir leik sinna manna í Liverpool – Vignir er Poolari góður og mögulega einn af fáum úr hinu svokallaða „Samfélagi“ sem hægt er að ræða við af einhverju viti um Liverpool. Gefum Vigni orðið:
Liverpool hefur hálfpartinn slysast áfram í þessari keppni. Fyrst með því að slá Everton út og svo Shrewsbury í tveimur umferðum þar sem flestir byrjunarliðsmenn fengu hvíld. Leikurinn kemur ekki á besta tíma, liðið er nýbúið að tapa í fyrsta skipti í meira en ár í deildinni og á leik á laugardag gegn Bournemouth og risaleik við Atletico Madrid á miðvikudaginn eftir hann.
Ljóst hefur verið að megináhersla Liverpool er á Úrvalsdeildina og Meistaradeildina og má því búast við að liðsval Klopp verði með svipuðu sniði og síðustu FA leikir liðsins. Chelsea mönnum á eftir að svelgjast á þegar þeir munu sjá bikaraóða spánverjann Adrían í markinu, enda stoppaði hann drauma þeirra um að verða meistarar meistaranna fyrr á tímabilinu. Fyrir framan hann verður Lovren fyrsti maður á blað, þannig virkar bara Klopp. Ætli Matip verði ekki við hlið hans til að ná smá leikæfingu í hann en þó er Gomez orðinn heill, en kæmi mér á óvart ef hann færi beint inn. Í bakvörðunum verða svo væntanlega ungu mennirnir Larouci og Hoever. James Milner er orðinn heill heilsu og mun væntanlega byrja með Lallana og Chiravella sem eru báðir að spila sitt síðasta tímabil með Liverpool að ég tel. Frammi verða svo Evertonbaninn Curtis Jones, Minamino og goðsögnin sjálf Origi.
Chelsea leggur örugglega meiri áherslu á þennan bikar, Lampard spilaði á sínu sterkasta liði sýnist mér gegn Hull í 4. umferðinni. Leikurinn mun því væntanlega spilast þannig að Chelsea verði meira með boltann en Liverpool reyna að sækja hratt. Chiravella og Lallana hafa reyndar spilað ótrúlega vel á miðjunni í þessum bikarleikjum en nú hlýtur Klopp að takast að detta út úr þessari keppni.
Góðu fréttirnar eru þær að það er ekkert replay í boði þannig að það verður leikið til sigurs. Ætli Chelsea taki þetta ekki í framlengingu, eftir að hafa verið yfir fram að 89. mínútu þegar Origi jafnar með einhverju stórkostlegu marki. Segjum að Alonso skori snemma í fyrri hálfleik og Pedro setji hann í framlengingu.
Spá
Þar sem Vignir spáir því að Liverpool mætir til leiks með varaliðið tek ég heilshugar undir orð hans og spái okkar mönnum sömuleiðis sigri. Þetta verður samt flókinn leikur, ef varaskeifur Liverpool fá sénsinn munu þeir að sálfsögðu hlaupa úr sér líf og lungu til þess að heilla Klopp á hliðarlínunni. Að sama skapi vil ég sjá okkar menn mæta með kassann út stútfullir af orku líkt og þeir gerðu gegn Spurs. Ef okkar menn gera það og taka svo upp á því að nýta færin þá endar þetta vel. Að sama skapi vil ég taka það fram að ef van Dijk, Mane, Salah og Firmino byrja þennan leik munum við lílkega tapa og það sannfærandi.
Þannig við sjáum til á morgun...
Jói: 3-1 fyrir Chelsea
Vignir: 2-1 fyrir Chelsea
Comments