Ég er líklega ekki eini stuðningsmaðurinn sem situr með beiskt bragð í munni eftir þennan leik. Þriðji tapleikurinn í röð á Goddison Park er staðreynd. Everton var að spila í fyrsta sinn fyrir framan stuðningsmenn sína á þessu tímabili. Það virðist hafa skipt sköpum fyrir Everton því þeir mættu afar agaðir í leikinn.
Leikurinn fór vel af stað, strax á 3. mínútu átti Havertz sendingu innfyrir á James en Havertz var því miður of fljótur að gefa sendinguna því James náði ekki til boltans í tíma. Hinu megin á vellinum átti Richarlison svo slakt skot á 6. mínútu á mark Chelsea sem Mendy varði örugglega. Liðin reyndu að sækja til skiptis án þess að skapa mikla hættu, Chelsea var töluvert meira með boltann en samspilið gekk brösulega, sérstaklega hjá sóknarmönnum liðsins. Litlar sendingar hér og þar sem fóru úrskeiðis. Það er svo á 21. mínútu sem Dominic Calvert-Lewin fær langa sendingu inn að vítateig Chelsea, Mendy hleypur út úr markinu til að sækja boltann en DCL nær að setja tánna í boltann áður en Mendy nær til hans. Mendy klessir á DCL, dómarinn flautar strax og bendir á vítapunktinn. Gylfi fer á punktinn og kemur Everton yfir, 1-0. Chelsea komst í nokkur færi fljótlega eftir markið: James átti skot á mark Everton sem fór í fjærstöngina og út, Chilwell tók aukaspyrnu inn í teig Everton, Giroud skallaði inn á markteig og Zouma sparkaði í tuðruna en beint í hendurnar á Pickford og þá átti Kovacic fyrirgjöf á Werner sem náði að pota í boltann og setja hann yfir. Chelsea sótti ívið meira undir lok hálfleiksins og leitaðist eftir að ná jöfnunarmarkinu fyrir hlé. En allt kom fyrir ekki og gengu menn sneyptir af velli í hálfleik.
Í seinni hálfleik virtist fjölga töluvert í varnarlínu Everton, miðjumenn komnir nánast í fasta varnarlínu fyrir framan hefðbundnu varnarlínuna. Gylfi stóð sig vel í leiknum enda vanur að spila agaðan varnarleik með íslenska landsliðinu. Ekkert gekk hjá Chelsea að koma boltanum á markið hjá Everton. Nánast allar sendingar á loka þriðjungi vallarins virtust missa marks. Þar gæti fjöldi Everton manna auðvitað spilað inn í. Engu að síður gerir maður sem stuðningsmaður Chelsea meiri kröfur til leikmanna en þetta. Varnarleikur Everton var upp á tíu með Michael Keane í fararbroddi. Það má gagnrýna ýmislegt í leik Chelsea í dag en það er ekki hægt að segja annað en að þeir hafi reynt að jafna leikinn af öllum mætti, það vantaði bara sköpunarkraft til að komast framhjá þéttsetinni vörn Everton.
Einkunnir:
Mendy – 4 : Gaf Everton vítaspyrnuna sem þeir skoruðu eina mark leiksins úr. Átti nokkrar vörslur og stóð sig að öðru leiti ágætlega.
Chilwell – 4 : Hann heillaði ekki í dag þrátt fyrir að rembast eins og rjúpan við staurinn.
Silva – 5 : Hann var leiðtogi í vörninni en átti ekki sinn besta dag, eins og flestir.
Zouma – 5 : Hann fær fimm fyrir að vinna skallaeinvígi í leiknum.
James – 6,5 : Hann átti þó nokkuð af fyrirgjöfum, skot í stöng og hljóp Richarlison uppi hvenær sem á þurfti að halda. Var okkar hættulegasti maður.
Mount – 6 : Duglegur eins og alltaf, átti skot rétt yfir markið og annað sem fór stöngin út.
Kovacic – 7 : Maður leiksins í dag. Betrumbætt útgáfa af Kovacic seinasta tímabils.
Kanté – 6 : Byrjaði leikinn brösuglega en hrökk í gang þegar á leið. Stal boltum, elti uppi andstæðinga og sinnti sínu.
Havertz – 4,5 : Átti nokkra góða spretti en ekkert meira en það en sendingar og ákvarðanatakan á boltanum alls ekki nægilega góð.
Werner – 5 : Átti nokkrar fyrirgjafir en sást annars varla í leiknum.
Giroud – 5 : Það var gott að hafa Giroud fremstan í dag, stóran og stæðilegan. Virtist hreinlega “drukkna” í varnarmönnum Everton í seinni hálfleik.
Varamenn:
Abraham - 5: Náði ekki að koma sér inn í leikinn og spilaði úr stöðu á vængnum.
Gilmour: - 5: Bætti litlu við okkar leik.
Коментарі