Eins og mörg ykkar hafa tekið eftir höfum við á CFC.is verið að taka saman einkunnir leikmanna eftir hvern leik. Fyrst og fremst er þetta til gamans gert og sitt sýnist auðvitað hverjum. En við höfum líka verið að halda utan um þessar einkunnir líkt og snillingarnir í weaintgotnohistory.sbnation.com (WAGN) hafa gert - þaðan kemur þessi hugmynd.
Við munum birta heildar einkunnaspjaldið reglulega hér á heimasíðunni auk þess sem við munum fjalla um það í Blákastinu. Hér er einkunnaspjaldið eftir þessar fyrstu 19 leiki í öllum keppnum.
Sem sakir standa er Thiago Silva og Reece James með hæstu meðaleinkunnina, 7,4. Fast á hæla þeirra fylgja svo Edouard "Heimakletturinn" Mendy (7,3), N'Golo Kanté (7,2) og Ben Chilwell (7,1). Það er nokkuð áberandi að þeir leikmenn sem hafa verið bestir skv. þessum einkunnum eru varnarmennirnir okkar.
Eins og fyrr segir er Kanté með bestu einkunn meðal miðjumanna og Mount (6,9) fylgir þar á eftir. Hjá sóknarmönnunum er Ziyech efstur með einkunnina 7,0 en hann var auðvitað óstöðvandi í leikjunum gegn Krasnodar, Burnley og Newcastle, var maður leiksins í öllum þessum leikjum.
Timo Werner (6,8) var lengi vel mjög ofarlega í þessari einkunnagjöf en hefur all hressilega fatast flugið, eins og sést á spjaldinu. Giroud (6,6) er á mikilli uppleið, og mun væntanlega vera kominn yfir meðaleinkunnina 7,0 ef hann heldur áfram að spila svona vel. Annars eru flestir sóknarmennirnir okkar á sama reiki, með einkunnina 6,6-6,8. Kepa (3,8) er langneðstur í þessu öllu saman, enda var hans framlag í byrjun tímabilsins ekkert minna en hörmung. Hinn gleymdi Marcos Alonso er líka með slæma einkunn, eða 4,8. Hefur hann ekki spilað mínútu síðan hann fékk 3,0 í einkunn gegn WBA - þeim svakalega fótboltaleik.
Besti leikur tímabilsins skv. einkunnagjöfinni var 2-0 sigurinn á Newcastle, liðið var frábært í þeim leik og hefðu sigurinn átt að vera a.m.k. 4-0, meðaltal einkunna þar var 8,0. Slakasti leikurinn er fyrrnefndur leikur gegn WBA - einkunn leikmanna þar var 5,57 að meðaltali - aðeins slakari en í tapinu gegn Liverpool.
Markaframlag
Hin tölfræðin sem er gaman að skoða er markaframlag (e. goal contrubution). Það er í raun bara mörk + stoðsendingar. Ath, það er ekki tekið inn í þetta fiskuð víti.
Þarna sést glögglega hvað Timo Werner hefur, þrátt fyrir mörg klúður fyrir framan markið, verið öflugur. Hann hefur skorað 8 mörk og lagt upp 4. Næstur í röðinni er Tammy Abraham, hann hefur skorað 5 mörk og lagt upp önnur 5. Það vekur líka athygli að Kai Havertz er með markaframlag upp á 8 mörk, 4 mörk og 4 stoðsendingar, þar ber þó að hafa í huga að hann skoraði þrennu á móti Barnsley.
Ég vil vekja athygli á Mason Mount, hann hefur vissulega bara skorað 1 mark, en er búinn að leggja upp sex önnur og er hann stoðsendingahæstur í liðinu. Að lokum er svo gaman að sjá hvað bakverðirnir okkar eru frábærir - Chilwell með markaframlag upp á 5 og Reece James 4.
Alltaf gaman að kafa aðeins ofan í gögnin og pæla í þeim. Munum birta reglulega svona færslur hér á síðunni.
תגובות