Keppni: Enska Úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: 4. janúar kl. 15:00
Leikvangur: Selhurst Park, London
Dómari: Tim Robinson
Hvar sýndur: Síminn Sport 2
Upphitun eftir: Hafstein Árnason
Við enduðum árið 2024 á ansi vandræðalegu tapi gegn Ipswich á útivelli. Enzo Maresca stillti upp liði, þar sem hann gaf leikmönnum sem hafa verið í aukahlutverki framan af tímabilinu pláss í byrjunarliðinu. Þar má sérstaklega nefna Joao Felix og Christopher Nkunku. Þeir ollu vonbrigðum með því að ná ekki að setja sitt mark á leikinn, þó svo að Felix skoraði mark sem var dæmt réttilega af sem rangstaða, og Nkunku átti eitt dauðafæri en náði því miður ekki að stjórna skoti í frákasti frá stönginni. Markmaður Ipswich átti hreint út sagt stórleik og varði hvað eftir annað. En þessir tveir félagar þurfa að gjöra svo vel og girða sig brók. Við þurfum mörk og stoðsendingar frá þeim.
Ipswich komust yfir snemma í leiknum með því að fá nokkuð vafasama vítaspyrnu. Liam Delap krækti löppinni utan í Jörgensen sem kom í úthlaup á eftir stungusendingu sem Delap hljóp á eftir. Jörgensen náði hemja sig en einhvernveginn rann Delap utan í hann, eða einhvernveginn krækti löppinni í þann danska, og vann vítaspyrnu. Þetta var skoðað gaumgæfilega í varsjánni sem úrskurðaði vítaspyrnu. Delap skoraði af öryggi nánast út við stöng og Jörgensen rétt missti af. Ipswich vörðust vel megnið af leiknum og Chelsea var með boltann 76% af leiknum með xG uppá 2.0 - en það vinnur því miður ekki leikinn. Omari Hutchinson laumaði svo einu marki eftir varnarmistök Axel Disasi úr hægri bakvarðastöðunni. Sá franski sendi ónákvæma sendingu í átt að Tosin sem Ipswich menn komust inn í og okkar maður Omari setti mark í grillið. Gríðarlega svekkjandi tap eftir léleg úrslit, í leikjaplani sem átti að vera kaffi og sígó. Eitt stig úr þremur leikjum sem Chelsea hefði með réttu átt að vera með níu.
Það er morgunljóst að það er þaulreynt með Axel Disasi í hægri bakvarðastöðunni. Ég tel það honum sé enginn greiði gerður með að spila honum sífellt útúr stöðu. Svona stór og mikill rumur getur ekki dekkað svona stórt svæði og þarna erum sannarlega að sjá, hvað við söknum Wesley Fofana eftir að hann meiddist gegn Aston Villa. Talandi um þann ágæta mann. Maresca tjáði okkur á blaðamannafundi fyrir leikinn að meiðslin hans eru alvarlegri en talið var í fyrstu. Það alvarleg að hann gæti verið frá í að minnsta kosti fjóra mánuði, jafnvel út tímabilið. Það á eftir að koma í ljós, en greyið Fofana hefur því aðeins leikið 27 leiki fyrir Chelsea á þremur tímabilum. Meiðslin að þessu sinni eru aftan í lærinu. Ólíkt krossbanda og hnémeiðslum sem hann hefur áður þurft að kljást við. Við skulum þó vona að þetta verði honum mikil eldraun að koma sér aftur á grasið, því ekki þarf hann að kvíða samningamálum, verandi á launaskrá til 2029. Maresca upplýsti einnig að Benoit Badiashile yrði frá um lengri tíma, sennilega langt fram í febrúar. Ánægjulegu fréttirnar á móti, eru þær að Reece James var kominn í hóp gegn Ipswich, en spilaði ekki, en sá ítalski gaf til kynna að hann myndi fá mínútur í leiknum gegn Crystal Palace.
Nú hefur klúbburinn verið að álagsstýra leikmönnum með áberandi hætti, með því að gefa mönnum eins og Fofana, Lavia og Palmer frí frá Sambandsdeildinni, ásamt því að hafa dottið útúr deildarbikarkeppninni nokkuð snemma. Þar fyrir utan hefur verið ágæt rótering á mannskapnum. Þarna ætti einhver tækifæri að vera fyrir Josh Acheampong myndi maður halda. Malo Gusto fékk hvíld í leiknum gegn Ipswich eftir að vera nokkuð bensínlaus í leikjunum á undan, þrátt fyrir stutta innkomu fyrir Disasi á 77. mínútu. Maresca hefur því þann höfuðverk að reyna stilla upp varnarlínunni. Þetta er mikilvægasta línan fyrir liðið því leikmenn verða getað spilað saman reglulega og slípað sig saman til í spilinu.
Núna eru 19 leikir liðnir af tímabilinu í deildinni og liðið okkar situr í fjórða sæti. Hefði getað verið betra, en það má með sanni segja, að þetta er framför frá síðasta tímabili. Það eina sem maður hefur áhyggjur af er hvort önnur lið séu farin að læra á Chelsea og finna hvernig sé best að verjast liðinu. Næstu tveir mánuðir verða því mjög þýðingamiklir uppá hvernig þetta tímabil mun spilast. Það er ljóst að Chelsea þarf að komast í meistaradeildina að nýju, bæði uppá heilbrigðari fjárhag, en einnig upp á að vera aðdráttarafl fyrir nýja og spennandi leikmenn.
Annar höfuðverkur sem þarf að athuga sérstaklega er að miðjan þarfnast einnig róteringar. Það sást að Enzo og Caicedo voru þreyttir í síðustu leikjum, við sjáum bersýnilega að Romeo Lavia virðist vera mikilvægari leikmaður en flestir gera sér grein fyrir. Maresca upplýsti að hann sé byrjaður að æfa aftur með liðinu en hann verður ekki með í hóp fyrir leikinn gegn Crystal Palace. Kiernan Dewsbury-Hall virðist ekki vera leikmaður af hæsta gæðaklassa eins og hinir miðjumennir, þrátt fyrir að hafa verið lítillega meiddur og Chukwuemeka var fjarverandi vegna veikinda gegn Ipswich. Því er líka spáð að hann verði lánaður til annara félaga hvort sem er. Það sama má segja um Cesare Casadei sem virðist vera á radarnum hjá fjölmörgum ítölskum liðum. Það myndi koma lítið á óvart ef við myndum sjá þá hverfa á braut ásamt, Ben "Bomb squad" Chilwell núna í janúar.
Við hjá CFC hlustum eftir öllum kjaftasögum um væntanlega leikmenn, en því er ekki að sælda að þessu sinni. Það myndi því koma talsvert á óvart ef stjórn félagsins myndi opna veskið í þessum mánuði. Þar að auki voru Acheampong og Tyrique George færðir úr unglingaliðinu yfir í aðalliðið. Þannig að segja má að þeir séu viðbæturnar sem klúbburin sá fyrir sér í þessum vetrarglugga. Einhverjir hafa kallað eftir því að fá framherja, en fókusinn er líklega ennþá á Victor Osimhen fyrir sumarið, og sá er einbeittur að leika sér að tyrksnesku deildinni og mun klára væntanlega tímabilið hjá Galatasaray. Sá er með 9 mörk í 11 leikjum og nýtur lífsins í Istanbul. Varðandi framherjamálin þá ætti klárlega að gefa Marc Guiu fleiri tækifæri til að dekka mínútur fyrir Nicholas Jackson. Hann hefði gott af því að fá fleiri mínútur í Úrvalsdeildinni, ekki vantar vinnusemina. Nkunku á hinn bóginn myndi eflaust sóma sér betur á öðrum kantinum, þar sem hann er ekki eins einangraður og hann er þarna upp á toppinum. Það mun líka koma að því að þurfa að álagsstýra Cole Palmer, þar sem hann mun án efa koma inn í Sambandsdeildarhópinn til að sigla þeim bikar heim í höfn.
Leikurinn um helgina verður á Selhurst Park, sem hefur í gegnum tíðina, verið okkar uppáhalds útivöllur. En það er ekkert öruggt í þessu enn sem komið er. Við gerðum jafntefli við Palace í september á Brúnni. Það verður líklega erfitt að brjóta þá niður eins og þeim leik. Oliver Glasner hefur gert góða hluti með liðið og það mætti segja að það sé betra undir hans stjórn, en þegar við mættum þeim undir stjórn Patrick Vieira og Roy Hodgson. Það er af þeim ástæðum þar sem maður fer ekki í leikinn með einhverri vissu að þetta verði einhver yfirspilun. Crystal Palace verða þó án Trevoh Chalobah sem ekki með útaf lánaskilyrðum.
Við gerum fastlega ráð fyrir því að Robert Sanchez komi aftur í markið. Malo Gusto fær aftur að spreyta sig í hægri bakverðinum eftir að hafa fengið smá hvíld. Tosin og Colwill virðast vera fyrsta val sem miðvarðapar og Marc Cucurella er farinn að eigna sér þessa hybrid bakvarðarmiðjustöðu. Enzo og Caicedo verða að venju á miðjunni, með Cole Palmer í holunni fyrir framan. Þar sem hvorki Madueke né Joao Felix náðu setja sitt mark á leikinn gegn Ipswich, þá má búast fastlega við því að Jadon Sancho og Pedro Neto komi til með að sjá um kantstöðurnar. Nico Jackson kemur að sjálfsögðu inn í framherjastöðuna.
Maður er eiginlega sannfærður um að Nico Jackson muni setja mark í leiknum, þar sem hann hefur verið á furðu kaldur að undanförnu, eftir frekar öfluga byrjun á tímabilinu. Við lítum bjartsýn á leikinn og segjum að þetta verði helvítis hark, iðnaðar útisigur með einu marki gegn engu.
Áfram Chelsea!
Comments