top of page
Search

Crystal Palace - Chelsea

Keppni:  Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning: 12.02 kl: 20.00

Leikvangur: Selhurst Park, London

Dómari:  Michael Oliver

Hvar sýndur: Síminn Sport

Upphitun eftir:  Hafstein Árnason



Hverjum hefði dottið í hug að Chelsea myndu negla í frammistöðu tímabilsins eftir háðulega útreið gegn Liverpool og Wolves? Það var alveg magnað að sjá þessa kombakk frammistöðu gegn Aston Villa í FA bikarnum í síðustu viku, og það á útivelli! Það mætti segja að Pochettino hafi skákað Unai Emery all verulega. Við hjá CFC.is kölluðum eftir breytingum fyrir leik. Satt best að segja, var maður ekki sérstaklega bjartsýnn þegar byrjunarliðin litu dagsins ljós. Thiago Silva settur á bekkinn ásamt Nkunku og Raheem Sterling. Badiashile, Madueke og Jackson inn í liðið. Reyndar var Jackson settur á vinstri kantinn, sem var litla breytingin sem þurfti til. Madueke og Jackson ollu varnarmönnum Villa töluverðum vandræðum og liðið komst ítrekað fyrir aftan varnarlínuna með öflugum skyndisóknum. Fyrsta markið var einmitt þannig kokteill, þar sem Jackson komst aftur upp að endalínu og sendi fyrir þar sem Conor Gallagher slúttaði boltanum fallega í markvinkilinn. Annað markið var skallamark hjá Jackson eftir mjög fallega fyrirgjöf frá Malo Gusto. Ungi bakvörðurinn kvittaði all verulega fyrir hauskúpuframmistöðuna í leiknum gegn Wolves. Þriðja markið var beint úr aukaspyrnu af 30 metra færi. Enzo með hreint út sagt frábært mark sem minnti mann óneitanlega á helstu aukaspyrnusérfræðinga knattspyrnusögunnar, eins og Sinisa Mijhailovic, David Beckham eða Juninho Pernambucano. Gjörsamlega sturlað mark! Enzo fagnaði markinu með því að fara úr treyjunni og gefa það sterklega til kynna að hann væri ekki á faraldsfæti, eins og einhverjir spekúlantar voru búnir að fabúlera um. Aston Villa náðu svo að klóra í bakkann með laglegu marki frá Diaby en lengra komust þeir ekki. Enzo verðskuldað maður leiksins og í næstu umferð FA bikarsins mætir Chelsea sínum gömlu erkifjendum, Leeds United.




Framundan er leikur við Crystal Palace á Selhurst Park. Palace er eina nágrannaliðið sem Chelsea vinnur reglulega. Chelsea hefur unnið síðustu 13 viðureignir liðanna, nú síðast í desember. Palacemenn urðu fyrir miklu áfalli í síðasta leik þegar Marc Guehí, fyrrverandi leikmaður Chelsea, og Michael Olise, leikmaður Chelsea vildi kaupa s.l. sumar meiddust báðir í 4-1 tapi fyrir Brighton. Meiðslin þeirra eru alvarleg og verða þeir frá þangað til í apríl. Þeir bætast á meiðslalistann með Rob Holding, Nathan Ferguson, Joel Ward, Jesurun Rak-Sakyi, Eberechi Eze og Cheick Doucouré. Roy Hodgson og félagar eru því í talsverðum vandræðum þegar kemur að því að setja saman lið, en hann mun eflaust treysta á Jefferson Lerma, Jordan Ayew, Will Hughes, Jeff Schlupp og Jean-Phillipe Mateta.


Á heimasíðu Chelsea mátti sjá myndskeið þar sem leikmenn voru í reitarbolta og taka fleiri æfingar. Athygli vakti að Robert Sanchez er byrjaður að æfa á fullu sem og Trevoh Chalobah. Núna mætti alveg búast við því að þeir félagarnir verði í hóp. Meiðslalistinn telur því aðeins fimm leikmenn! Reece James, Lesley Ugochukwu, Marc Cucurella, Romeo Lavia og Wesley Fofana. Levi Colwill er ákveðið spurningarmerki þar sem hann sást ekki í þessu myndskeiði en er samt ekki skráður á meiðslalista. Maður hefði haldið að Thiago Silva ætti mögulega afturkvæmt í byrjunarliðið fyrir leikinn gegn Crystal Palace. Að öðru leyti ætti byrjunarliðið að vera eins og í leiknum gegn Aston Villa þar sem það virkaði svona glimrandi vel.




Leikurinn ætti að fara öruggt fyrir Chelsea 2-0, í ljósi þess að Crystal Palace eru á ekkert sérstöku "rönni". Roy Hodgson er orðinn valtur í sessi og meiðsli virðast hrjá leikmannahópinn. Jackson setur eitt mark og Nkunku kemur af bekknum og setur hitt.


Áfram Chelsea og KTBFFH!!


P.s. Fabrizio Romano nefndi það á Youtube rásinni sinni að margir klúbbar eru farnir að fylgjast með Ian Maatsen eftir hans líflegu byrjun hjá Dortmund. Maatsen er með 35 milljón punda klásúlu sem verður að öllum líkindum virkjuð, þar sem skortur er á vinstri bakvörðum á markaðnum. Það er þá einn þriðji af þessum 100 milljónum sem þarf að safna fyrir lok bókhaldsársins. Minnum svo einnig á að Lukaku er með mjög svipaða klásúlu sem bæði Roma og klúbbar í Sádí Arabíu horfa til.

Comments


bottom of page