Gangur leiksins
Leikurinn byrjaði vel hjá okkar mönnum, þeir sóttu fram völlinn og héldu boltanum virkilega vel. Werner og Odoi sýndu að þeir voru óhræddir við að spila úr stöðu þegar Odoi hljóp af hægri kantinum yfir á þann vinstri og Werner fór í miðsvæðið. Mér fannst lítið sjást til Werners í leiknum og gæti það vel verið af því að honum er spilað vinstra megin í staðinn fyrir að vera „center“-framherji. Ég vænti þess að sjá meira frá honum á næstu mánuðum. Abraham var iðinn þarna frammi en kom boltanum ekki í netið. Havertz spilaði stórt hlutverk í að finna menn og gefa boltann upp á framlínuna. Hann virðist einnig vera með góða rýmisgreind sem gerir honum til dæmis kleift að reikna snögglega út hvenær andstæðingur mætir til hans og hve langur tími er í að boltinn nái til hans. Kante átti virkilega góðan leik og ánægjulegt að fylgjast með honum stela boltum og lesa leik andstæðinganna. Þetta ætti svo auðvitað að vera fyrirsögnin: Varnarlína Chelsea átti mjög góðan leik. Chilwell, Silva, Zouma og Azpilicueta stóðu vaktina af mikilli yfirvegun með góðri aðstoð frá Kante og Jorginho. Reyndar var vaktin svo vel staðin að Mendy fékk varla að snerta boltann í fyrri hálfleik. Öll mörkin voru skoruð í seinni hálfleik og spiluðu tveir varnarmenn okkar aðalhlutverkin í fyrstu tveimur: Chilwell var fyrstur til að þruma boltan í markið, Zouma skoraði svo annað markið eftir fyrirgjöf frá Chilwell. Sá sem veðjaði á varnarmenn Chelsea í Fantasy er í frábærum málum, stigalega séð!
Seinni tvö mörkin skoraði Jorginho af vítapunktinum. Vítin voru alveg eins. Nákvæmlega eins. Mér fannst ég vera að horfa á endursýningu af fyrra vítinu þegar hann tók það seinna. Lampard gerði tvær skiptingar á liðinu á 83. mínútu. Pulisic inn – Odio út ; Kovacic inn – Kante út. Pulisic var sprækur, hljóp töluvert og vildi greinilega vinna alla bolta sem hann fór í en fékk því miður ekki tækifæri til að sýna mikil töfrabrögð. Kovacic átti rólegri innkomu, hann hefur kannski ekki náð að hitna almennilega eða eitthvað en hann gerði þó engin stór mistök. Mér fannst enginn í liðinu eiga slæman dag, það fór kannski minnst fyrir Werner en hann átti góða spretti.
Allir stuðningsmenn Chelsea hljóta að vera sáttir með fjögurra marka sigur og finnst einhverjum það jafnvel heldur lítið miðað við hvernig leikurinn spilaðist. Yfirburðir Chelsea í leiknum voru algjörir, þeir voru með boltann 71% af tímanum, áttu 17 skot og með 90% sendingarhlutfall. 4-0 er eiginlega bara of lítið miðað við þessa tölfræði.
Þessi úrslit fleygja Chelsea upp í fjórða sæti deildarinnar með sjö stig. Þetta er að sjálfsögðu fyrsti leikur umferðarinnar svo staðan verður önnur á morgun. Mörkin fjögur þýða að við erum komin með jákvæða markatölu, +4.
Umræðupunktar
Eru leikmenn oft að missa af hlaupum inn fyrir vörn, þ.e. að gefa stungusendingar inn fyrir? Mér finnst að í síðustu leikjum hafi framherji oft gefið merki og farið í hlaup en boltinn fer aldrei af stað.
Er það áhyggjuefni að af 17 skotum hittu aðeins sex á rammann?
Eru Zouma og Silva miðvarðaparið sem við höfum leitað að?
Hefur Odoi verið nógu góður til að við höldum honum í staðinn fyrir að senda hann á lán eða selja hann?
Eru mistök að spila Werner ekki sem fremsta manni?
Var það frekja í Tammy að vilja taka seinna vítið í stað yfirlýstrar vítaskyttu okkar, Jorginho?
Jorginho er fyrsti leikmaður Chelsea til að skora úr tveimur vítum í sama leiknum síðan Frank Lampard lék sama leik gegn Aston Villa í mars 2010.
Einkunnir
Byrjunarliðið:
Mendy – 8
Lítið að gera hjá honum, stóð vaktina engu að síður vel.
Azpilicueta – 7
Átti flotta spretti, var solid. Fékk óþarfa gult spjald í leiknum.
Zouma – 9
Átti mjög góðan leik. Skoraði mark. Virtist yfirvegaður.
Silva – 9
Átti mjög góðan leik. Stýrði varnarleiknum frá A-Ö. Kemur með mikla yfirvegun í varnarlínuna.
Chilwell – 9
Kemur aftur á óvart. Virkilega flottur leikur hjá honum. Mark og stoðsending. Var einnig solid í varnarleiknum.
Kante (út 83.mín) – 8
„Gamli“ Kante mættur. Las leik andstæðinganna og vann mikla og góða varnarvinnu. Fékk tækifæri til að skjóta í teig og greip það í þetta skiptið í staðinn fyrir að gefa boltann til baka. Takk fyrir það.
Jorginho – 7
Stýrði miðjunni vel. Ekki jafn áberandi og Kante en átti engu að síður ljómandi leik. Skoraði auðvitað úr tveimur vítum.
Odoi (út 83.mín) – 8
Var sprækur í fyrri hálfleik en líklega farin að þreytast í þeim seinni. Átti marga góða spretti og gafst ekki upp þó hann ætti í vandræðum með að komast framhjá Mitchell í vörn CP.
Havertz – 8
Sýndi aftur að hann verður lykilmaður í sóknarleiknum, nákvæmt auga fyrir sendingum og góða tilfinningu fyrir leiknum.
Werner – 7
Bar lítið á Werner í dag en hann átti þó mjög góða spretti í leiknum. Átti fyrsta skot Chelsea sem Guaita fékk reyndar beint í fangið.
Abraham – 7
Átti nokkur marktækifæri en nýtti engin. Hefði mátt vera eigingjarnari á tímum og láta vaða á markið. Besta færið hans var líklega skalli sem fór rétt framhjá á 75.mín.
Varamenn:
Kovacic (inn 83.mín) – 6
Sinnti sínu hlutverki þokkalega, ekkert umfram. Hefði kannski spilað sig inn í leikinn með lengri tíma.
Pulisic (inn 83.mín) – 7
Var duglegur, hljóp mikið en fékk lítinn tíma.
Maður leiksins: Ben Chilwell
KTBFFH
- Elsa Ófeigsdóttir
Comments