top of page
Search

Chelsea vs Brighton & Hove Albion

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 28. september kl 14:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Td. NBC Sports (leikurinn er sýndur á Ölveri).

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason


Chelsea

Eftir frábæran sigur í miðri viku í Carabao deildarbikarkeppninni mæta okkar menn aftur til leiks í ensku Úrvalsdeildinni núna á laugardag. Andstæðingarnir að þessu sinni eru suðurstrandardrengirnir frá Brighton og hefst leikurinn kl 14:00.


Það var virkilega gaman að fylgjast með hinu unga Chelsea liði á miðvikudagskvöld, þó að Grimsby menn hafi sett upp takmarkaða mótspyrnu, má ekki vanmeta það hversu stór sigurinn var. Það gekk auðvitað allt upp hjá okkar mönnum og þegar staðan var orðin 2-0 eftir tæpar tíu mínútur þá fann maður í hvað stefndi. Þeir leikmenn sem heilluðu mig persónulega hvað mest voru þeir Billy Gilmor og svo Reece James. Það er engum blöðum um það að fletta að allt þetta "hype" í kringum Reece James á greinilega fyllilega rétt á sér. Hann er líkamlega mjög sterkur á öllum sviðum, en það kemur manni verulega á óvart hversu góður í fótbolta hann er og það sást vel í þessum leik enda lagði hann upp tvö mörk og skoraði svo eitt sjálfur - fögnuður hans var ósvikinn eins og myndin hér að ofan kemur vel til skila.


Hudson-Odoi átti svo einnig fínan leik og hefði í raun getað skorað þrennu en ég lét eitt mark næga í lokin eftir að hafa brennt af nokkrum færum - CHO verður orðinn lykilmaður í þessu áður en þetta tímabil rennur sitt skeið.


En núna tekur alvaran aftur við og Chelsea hefur farið frekar illa af stað í ensku deildinni og því kemur ekkert annað en sigur til greina í leiknum gegn Brighton. Þetta er líka fjórði heimaleikurinn okkar í Úrvalsdeildinni og svo sannarlega kominn tími á fyrsta sigurleikinn á Stamford Bridge!


Ég reikna með að Lampard haldi sig við leikkerfið 4-3-3. Kepa verður á sínum stað í búrinu. Tomori og Zouma verða í hjarta varnarinnar og Spánverjarnir Alonso og Azpilicueta í bakvörðunum. Inni á miðsvæðinu held ég að Lampard haldi í reynsluna og láti Jorginho, Kovacic og Kanté byrja leikinn með þá Mount, Willian og Tammy Abraham sem þrjá fremstu menn. Lampard staðfesti núna á blaðamannafundi að Rudiger væri ennþá meiddur en mögulega væri Christansen klár. Hann staðfesti einnig að bæði Reece James og Hudson-Odoi væru í leikmannahópnum og kæmu til greina í byrjunarliðið - ég held samt að þeira hlutskipti verða byrja á bekknum að þessu sinni.

Brighton & Hove Albion

Eftir að hafa naumlega sloppið með fall í fyrra ákváðu forráðamenn Brighton að segja hinum geðþekka Chris Hughton upp störfum. Hughton hafði unnið gott starf með Birghton um langt skeið en klúbburinn ákvað að breytinga væri þörf. Fyrir mér var þeirra þjálfararáðning ein sú mest spennandi í ensku Úrvalsdeildinni. Þeir réðu hinn 44 ára gamla Graham Potter sem gerði garðinn frægan hjá hinu sænska liði Östersund. Potter, sem er enskur, tók við Östersund þegar hann var aðeins 36 ára, á þeim tíma spilaði liðið í fjórðu efstu deild Svíþjóðar. Hann fór með liðið upp um tvær deildir á fyrstu tveimur árunum og var þar með kominn í næst eftstu deild Svíþjóðar. Eftir tvö tímabil í Superettunni (eins og næst efsta deild kallast í Svíþjóð) þá kom Potter liðinu upp í sænsku Úrvalsdeildina í fyrsta skipti í sögu liðsins.


Þetta var þó aðeins byrjunin á lygilegri sögu Östersund því í lok ársins 2017 gerði Potter sér lítið fyrir og sigraði sænsku bikarkeppnina og kom liðinu þar með inn í forkeppni Evrópudeildarinnar. Þegar þangað var komið þá gerðu Östersund sér lítið fyrir og sigruðu lið eins og Galatasaray og PAOK (sem Chelsea spilaði gegn í fyrra) og kom liðinu inn í sjálfa Evrópudeildina - Bara svo fólk átti sig á samhengi hlutanna að þá er fjárhagur Östersund álíka mikill og sumra Pepsi Max deildarliða hér á landi svo þetta er ekkert smá afrek. Það fékk ekkert Östersund stoppa í riðlakeppninni og fóru þeir upp úr sínum riðli ásamt Atletic Bilbao en þau enduðu með jafn mörg stig í riðlakeppninni. Þegar þarna var komið við sögu fékk Potter viðurnefnið The Wizard eða galdramaðurinn með vísan í nafna sinn Harry Potter.


Í úrsláttarkeppninni mætti svo Östersund sjálfum Arsenal mönnum á lokaári Arsene Wenger. Arsenal sigraði fyrri leikinn 3-0 sem leikinn var í Svíþjóð og var þá einvígið í raun búið en Potter átti engu að síður síðasta orðið og fór með lið sitt á Emirates leikvanginn og lagði þar Arsenal af velli 2-1 - þeir töpuðu því einvíginu 4-2.

Eftir þetta mikla öskubuskuævintýri fékk Potter starf á Englandi sumarið 2018 hjá Swansea. Liðið endaði í 10. sæti deildarinnar í fyrra sem þótti þokkalegur árangur miðað við allt og allt. Potter stökk svo á það tækifæri að stýra liði í ensku Úrvalsdeildinni þegar kallið kom frá Brighton.


Það sem er merkilegast við þennan þjálfara er að hann lætur lið sín spila alvöru fótbolta! Þetta sést best á leikstíl Brighton sem hefur algerlega kollvarpast með þessum stjóraskiptum. Brighton vill núna pressa andstæðinginn og halda boltanum vel innan liðsins. Byrjunin þeirra hefur ekkert verið alltof góð, sitja í 15. sæti með 6 stig og þeirra eini sigurleikurkom í opnunarleiknum í ágúst en að sama skapi hafa þeir aðeins tapað tveimur leikjum. Þeir spila leikkerfið 3-4-3 þar sem vængbakverðirnir eiga ýta vel upp í pressunni og reyna, eins og fyrr segir að halda boltanum vel innan liðsins. Það eru alveg fullt af ágætum fótboltamönnum í þessu Brighton liði eins og Matt Ryan, Solly March, Pascal Gross og svo framherjarnir Neil Maupay og Glenn Murray.


Spá

Brighton verða erfiðir viðureignar, þeir eru ekki að fá á sig mikið af mörkum og eru lið sem er með mikið jafnvægi milli sóknar og varnar. Okkar menn eiga samt alltaf að vinna þennan leik og spái ég því erfiðum 2-1 sigri sem verður háspennuleikur allt fram á síðustu mínútu. Tammy og Willian með mörkin.


KTBFFH

Comments


bottom of page