Dag- og tímasetning: Þriðjudagurinn 19. desember kl 20:00
Leikvangur: Stamford Bridge
Keppni: EFL - Carabao Cup
Dómari: Jarred Gillet
Hvar er leikurinn sýndur? Viaplay
Upphitun eftir: Markús Pálma Pálmason
Chelsea
Nú eru okkar menn að koma úr góðum heimasigri gegn botnliði ensku úrvalsdeildarinnar, þar sem okkar allra besti Cole Palmer skoraði, og lagði einnig upp fyrir Jackson. Sterk þrjú stig, sama hver andstæðingurinn er, og tekur okkur aftur upp í 10. sæti. Flestir í liðinu áttu fínasta leik, en að mínu mati voru sumir sem stóðu upp úr. Palmer var frábær, Badiashile enn og aftur að sýna að hann er sterkur kandídat fyrir vinstri miðvarðarstöðuna, Petrovic öruggur í sínum fyrsta leik fyrir félagið, en svo fannst mér Mudryk helvíti sprækur á köflum. Framundan er heimaleikur í átta liða úrslitum í Carabao bikarkeppninni.
Síðast þegar við mættum Newcastle var í deildinni fyrir minna en mánuði síðan, eða 25. nóvember til að vera nákvæmur. Lokastaðan í þeim leik var heldur betur slæm fyrir okkar menn, en það sem var ennþá verra en það var að liðið spilaði hörmulega. 4-1 tap niðurstaðan og þrjú stig töpuð þar, en ekki nóg með það, heldur fékk fyrirliði okkar rautt spjald í seinni hálfleik og Newcastle höfðu betur í nánast allri tölfræði.
Ef við horfum aðeins á stöðuna eins og hún er í dag að þá er staðan hræðileg. Lið við miðja deild, færri mörk skoruð en öll stórlið deildarinnar fyrir utan Manchester United, og það sem verra er, endalaust af meiðslum. Alltaf vill fólk tala um “hvað ef” en aldrei “hvenær ætlum við að drullast til að rífa okkur í gang”! Meiðsli hafa alltaf áhrif, sama hvaða lið er umrætt. Markaþurrð er eitthvað sem allir framherjar eða sóknarmenn ganga í gegnum. En það á aldrei að vera “afsökun” fyrir stærstu félögin. Við erum með ungt lið sem á að sýna hungur í hverri einustu viðureign, og leikmenn eiga að sýna að þeir eigi heima í félagi eins og Chelsea, hvað þá í byrjunarliðinu.
Desember mánuður er frábær tími til að snúa gengi liðsins við, og horfa fram á við. Góðar viðureignir fyrir okkur í þessum mánuði, og þó að deildin sé kannski ekki að fara eins og maður vonaði, að þá þýðir það ekki að þetta þurfi að vera titlalaust tímabil. BIKAR Í HÚS TAKK FYRIR. FA bikarinn og Carabao Cup eru ennþá í augsýn og ættu ekki að vera “ómögulegir sigrar”. Meiðslalistinn okkar er eins og vanalega ekki góður. Enn erum við án Fofana, Chilwell, Lavia, Madueke, Reece James, Sanchez og Cucurella. Marc Cucurella fór í aðgerð og verður frá alveg fram til febrúar sem er vissulega óheppilegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Ég geri kröfu á að halda svipuðu liði og gegn Sheffield United, nema mögulega ein mjög skemmtileg breyting. Ef Nkunku byrjar ekki inná, þá finnst mér lágmark að hann komi inná ekki seinna en eftir klukkutíma leik. Newcastle eru líka töluvert erfiðari á heimavelli en útivelli, þannig að maður er bjartsýnn með heimaleik.
Svona spái ég byrjunarliðinu. Það verður óbreytt frá síðasta leik, í fyrsta skiptið á tímabilinu.
Newcastle
Newcastle hafa verið á góðu róli á þessu tímabili, hvað þá á því síðasta. Unnu sér inn meistaradeildarsæti á þeim tíma og stóðu sig alls ekki illa í riðlakeppninni, þrátt fyrir að vera í langerfiðasta riðlinum. 0-0 jafntefli og 1-2 tap gegn AC Milan, 1-1 jafntefli og 4-1 sigur gegn PSG, ásamt 2-0 og 0-1 tapi gegn Dortmund. Þrjú stórlið í Evrópu og Newcastle var inn í öllum viðureignum.
Eins og er, þá eru Newcastle í 6. sæti deildarinnar, aðeins fjórum stigum á eftir Tottenham, og fimm stigum frá Meistaradeildarsæti. Þeir eru með tveggja stiga forskot á Brighton og West Ham fyrir neðan sig, en með töluvert betri markatölu en þau bæði. Helsti styrkleiki Newcastle hefur lengi verið varnarleikurinn. Aðeins 21 mark fengið á sig, minna en öll lið deildarinnar nema efstu fjögur og Manchester United. Þeir hafa hins vegar einnig skorað meira en öll lið deildarinnar nema Manchester City og Liverpool. Liðið vann góðan 3-0 sigur á Fulham í síðasta leik í deildinni, en voru óheppnir að missa Fabian Schär og Joelinton af velli vegna meiðsla í fyrri hálfleik.
Í dag eru 9 leikmenn á meiðslalista Newcastle, en af þeim eru 5 lykilmenn í þeirra liði. Schar, Joelinton, Pope, Botman og Barnes allir meiddir. Liðið hefur átt í erfiðleikum í síðustu leikjum hins vegar. 3-0 tap gegn Everton, 4-1 tap gegn Tottenham og 1-2 tap á heimavelli gegn Milan í Meistaradeildinni. Núna er tíminn til að refsa liði eins og Newcastle, og nýta okkur góðan sprett í desembermánuði.
Líklegt byrjunarlið Newcastle:
GK - Dubravka
RB - Trippier
CB - Lascelles
CB - Krafth
LB - Livramento
CM - Guimaraes
CM - Longstaff
CM - Miley
RW- Almiron
LW - Gordon
ST - Wilson
Spá:
2-1 sigur! Almiron kemur Newcastle yfir snemma í leiknum, en strax og þetta fer að líta of illa út, þá jafnar Cole Palmer og rétt undir lok leiks kemur frábært sigurmark í hans fyrsta leik eftir sterka innkomu, en það er Nkunku sem skorar sigurmarkið í uppbótartíma og allt TRYLLIST á brúnni!
KTBFFH!!
Comments