top of page
Search

Chelsea mætir á Emirates

Arsenal - Chelsea



Keppni: Enska úrvalsdeildin


Leikvangur: Emirates stadium


Tími, dagsetning: Þriðjudagur 2. maí kl: 19.00


Hvar er leikurinn sýndur: Síminn sport


Upphitun eftir: Finn Marinó Þráinsson



Þá er komið að 34. umferð í efstu deild enska boltans og þá ætla bláliðar okkar að bregða sér á Emirates völlinn og eiga kvöldstund með spútnikliði deildarinnar en við heimsækjum best greidda stjóra deildarinnar Mikel Arteta og drengina hans í Arsenal.


Óhætt er að segja að þetta verður ekki auðveld né þægileg heimsókn en Arsenal hefur verið á toppnum eða við toppinn meira og minna allt tímabilið og hafa sýnt mjög flotta spilamennsku en hafa aðeins verið að missa taktinn og hökta undanfarið en á góðum degi eru þeir gríðarlega erfiðir. Þeir verma nú annað sætið þar sem hið fáránlega sterka lið Manchester City er nú stigi ofar og á leik til góða og læðist að mér sá grunur að City komi til með að veita Arsenal mönnum harða keppni um titilinn og munar auðvitað mest um norska tröllið Haaland sem er að sprengja alla skala hvað varðar markaskorun og raunar flest sem að boltanum snýst í deildinni.





Það er ekki hægt að segja að maður sé bjartsýnn fyrir leikinn en maður vonar þó að þetta verði ekki harður skellur. Það andlega þrot sem virðist vera að eiga sér stað hjá klúbbnum okkar sýndi sig enn og aftur síðastliðið miðvikudagskvöld þegar leikið var gegn Brentford og var sá leikur út í gegn sá grautur sem liðið hefur verið að elda meira og minna í allan vetur og töpuðum við honum 2 - 0.


Það eru ekki beint auðveldustu andstæðingarnir sem við eigum eftir að spila við sem eftir lifir. Ég held að það sé skásta leiðin að ljúka þessu ömurlega tímabili með eins mikilli reisn og hægt er og reyna eftir fremsta megni að skara einhvern eld að þeim glæðum sem þó eru eftir í liðinu.

Það þýðir ekkert annað en að horfa fram á við og vona að nýr stjóri, hver sem hann nú verður nái að kreista fram hungrið og viljan sem hefur vantað sárlega. Lampard okkar hefur ekki náð að vinna neitt úr stöðunni og er efalaust farinn að horfa til þess að losna úr þessari krísu.


Ég held að mórallinn sé orðinn ansi súr og það þarf eitthvað að fara að gerast enda er langt síðan klúbburinn hefur verið öðru eins klamaríi. Ég býst við miklum mannabreytingum og vona það enn fremur að mönnum auðnist að hitta á réttan mannskap og menn fari að sjá til lands.



Arsenal:


Arsenal hefur gengið fram úr öllum vonum þetta tímabil og það hefur verið ótrúlega flott ára í kring um liðið í allan vetur og allt hefur einhvern veginn fallið með liðinu.

Félagið hefur á að skipa mörgum frábærum leikmönnum sem hafa átt góðan vetur og má þar nefna Saka, Martin Ödegaard, Gabríelana frá Brasilíu þá Martinelli og Jesus og fleiri mætti telja.

Einnig má þar finna Jorginho sem átti sannarlega sín móment með okkar mönnum en hefur þó ekki verið sérstaklega áberandi með Arsenal.


Manchester City hefur þó alltaf verið að narta í hæla Arsenalmanna og persónulega held ég að það verði Haaland og félagar sem hampa titlinum í vor þar sem þeir tóku Arsenalmenn í netta kennslustund í síðasta leik liðanna en spyrjum að leikslokum.



Chelsea:



Það er spurning hvar maður á að byrja á umfjöllun um okkar ástkæra lið án þess að tárin leki ofan í lyklaborðið en við verðum að taka okkur saman í andlitinu og halda ótrauðir áfram.

Það gæti orðið spennandi að sjá hvað Lampard gerir á móti Arsenal. Heldur hann strikinu og breytir litlu eða gefur hann ungum og nýjum leikmönnum séns?

Það sem það er ekki að neinu að stefna nema heiðrinum þá myndi ég vilja sjá ungu og nýju strákana fá að spreyta sig á þessu stóra sviði sem Emirates er og leyfa þeim að fá smjörþefinn af því að takast á við stóru kallana.


Nú þegar dregur nær sumri þá heyrast enn fleiri sögur um hverjir gætu hugsanlega komið og nöfnin sem hafa heyrst eru nokkur en mér er til efs að það verði einhverjar risakanónur þar sem stór nöfn með metnað hafa alla jafna mikinn áhuga á að spila í Meistaradeildinni og þar verðum við ekki næsta misserið en það gæti jú haft áhrif ef góður stjóri kæmi og hefði þá “goodwill” frá leikmönnum í hæsta gæðaflokki.


Nýjustu nöfnin sem hafa heyrst eru Ivan Toney hjá Brentford, Sadio Mane frá Bayern og Victor Osimhen hjá Napoli. Allt eru þetta miklar markamaskínur og það er einmitt og nákvæmlega það sem við þörfnumst.

En hvatinn er ekki mikill eins og staðan er í dag en það breytist með hækkandi sól og nýjum stjóra.


Það er áhugavert að minnast þess að fyrir nákvæmlega 7 árum, þann 2.maí 2016 bundum við enda á titilvonir Tottenham þegar Eden Hazard smellti honum í fjær á 83. mínútu. Það tímabil gátum við ekkert og enduðum í 10.sæti.


Það er óhætt að segja að það lifi inn í manni einhver vonarglæra um að sagan endurtaki sig og við bindum enda á titilvonir Arsenal með því að einhver eins og Mudryk smelli honum í netið á lokamínútum leiksins. Litla veislan sem það yrði.






Byrjunarlið og spá:


Mason Mount, Reece James, Koulibaly og Cucurella eru allir fjarverandi vegna meiðsla. Kai Havertz hefur æft síðustu daga en óvíst hvort hann komist í liðið.


Ég veit ekki alveg hvað Lampard gerir varðandi uppstillingu… Ætlar hann að halda áfram að stilla upp í einhvers konar útgáfu af 3-5-2 með 6-7 miðjumenn inná líkt og hann hefur gert upp á síðkastið eða er komið ákveðið “fuck it” hugarfar hjá honum og hann stillir upp sókndjörfu liði? Það er erfitt að segja til um það en ég vona að það verði hið seinna.

Ég nenni ekki að kíkja á byrjunarliðið klukkutíma fyrir leik og sjá að þrír fremstu leikmenn liðsins eru Gallagher, Sterling og Kante…


Þess vegna gef ég mér það bessaleyfi að spá liðinu svona:





Ég tek það sterklega fram að þetta er óskhyggja og mér finnst gríðarlega ólíklegt að byrjunarliðið verði eitthvað í líkingu við þetta. Maður verður að leyfa sér að dreyma á þessum síðustu og verstu.


Enn og aftur læt ég draumórana ráða og spái því að við vinnum þennan leik 2-1. Jafntefli væri þó það sama og sigur!


Ég ætla að segja að þetta verði algjör martröð fyrir Arsenal. Það er að segja að Aubameyang skori fyrra markið og “næstum því Arsenalmaðurinn” Mudryk hamri honum í netið á síðstu mínútum leiksins og renni sér á hnjánum a la Drogba í smettið á stuðningsmönnum Arsenal. Takk fyrir.





Comments


bottom of page