top of page
Search

Chelsea – Leicester, seinni úrslitaleikur – nú á heimavelli.

Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Miðvikudagskvöldið 18. maí kl 19:15

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir Hafstein Árnason


Eftir hrikalega svekkjandi tap í úrslitaleik FA bikarsins um síðastliðna helgi, er röðin komin að seinni úrslitaleiknum. Þetta er úrslitaleikur í þeim skilningi um hvort liðið komist í Meistaradeildina að ári. Það er mjög mikilvægt fyrir Chelsea að vinna þennan leik, sérstaklega eftir að liðið hefur tapað tveimur leikjum í röð - í raun má segja að Tuchel sé að glíma við sína fyrstu "brekku" sem stjóri Chelsea.


Liverpool eru komnir upp að okkur og munar ekki nema um einu stigi. Jafntefli við Leicester væri í raun það sama og tap, því gera má fastlega ráð fyrir því að Liverpool sæki þrjá punkta, jafnvel þótt þeir þurfi að mæta til Burnley á þriðjudagskvöldi. Thomas Tuchel sagði í fjölmiðlum að hann teldi þennan leik mikilvægari þar sem "top 4" er mikilvægara takmark en FA bikarinn. Það hljómar ekkert sérstaklega vel núna í ljósi þess að hann tefldi fram sterkasta liðinu sínu um helgina. Núna er að duga eða drepast.


Chelsea eiga að vera með fullskipaðan hóp, nema að Mateo Kovacic og Andreas Christensen eru að stíga uppúr meiðslum. Tel það ólíklegt að þeir verði í byrjunarliðinu en aldrei að vita nema Kovacic myndi sitja á bekknum. Eina breytingin sem er alveg 100% klár, er að líklega verður Heimakletturinn okkar hann Mendy í markinu, á kostnað Kepa sem fékk að spila alla bikarleikina. Vonandi verður það til þess að það komi meiri ró á varnarleikinn, og í sannleika sagt, meiri líkur á að verja langskot utan af velli.


Við erum þeirrar gæfu aðnjótandi að vera með mjög stóran leikmannahóp, ólíkt Leicester, sem þurfa líkast til að spila mest megnis sama liðinu og þeir tefldu fram á Wembley. Myndi giska á að Rüdiger, Thiago Silva og Azpilicueta verði miðverðir í þetta skiptið. Reece James spilaði síðast í öftustu línu, sem kom nokkuð óvart – líkast til að passa hraða Jamie Vardy. Ég tel að Thomas Tuchel muni tefla fram örlítið sókndjarfara liði með því að hafa Callum Hudson-Odoi og Ben Chilwell í vængbakvarðastöðunum. Líklegast verður haldið áfram með N’Golo Kante og Jorginho á miðjunni, þar sem ég sé ekki fyrir mér að Tuchel taki áhættur þar.


Sóknarmennirnir okkar í síðasta leik voru vægast sagt slakir. Timo Werner og Hakim Ziyech gáfu ekkert af sér og Mason Mount átti í erfiðleikum. Af þessum myndi ég telja líklegt að Tuchel muni halda sig við Mason Mount, þar sem hann virðist vera með endalaust bensín á tanknum. Christian Pulisic er líklegur til að fá vinstri kantstöðuna. Búast má við því að Leicester sitji djúpt eins og í úrslitaleiknum og reyni skyndisóknarbolta. Í slíkum aðstæðum er Timo Werner mjög gagnslaus – þar sem hann hefur engin svæði til að hlaupa í. Miðað við hversu vel gekk að pakka Real Madrid saman, finnst mér líklegt að Kai Havertz fái traustið til að leika á milli línanna hjá Leicester. Olivier Giroud er líklegur til að koma af bekknum en greyið Tammy Abraham á bara ekkert upp á pallborðið hjá Tuchel. Það myndi amk koma verulega á óvart að sjá Tammy í byrjunarliðinu, en ólíklegt er að hann komist inn í hóp. Í þessu samhengi verður mikilvægt að færa boltann hratt á milli kantanna til að teygja á Leicester vörninni. Við vonum að þeir hafi ekki jafn ferska fætur, sérstaklega eftir að hafa misst Johnny Evans í meiðsli í bikarleiknum.



Leicester City

Brendan Rodgers hefur núna sýnt það að hann sé frábær stjóri, en hinsvegar vonum við að það sé einhver bikarþynnka hjá refunum. Það eru töluverð meiðsli í Leicester hópnum, fyrir utan Johnny Evans, þá eru Cengiz Under, Harvey Barnes og James Justin fjarverandi. Myndi tippa á að Brendan stillir Leicester upp svipað en þó með örlitlum breytingum. Líklegt er að hann spili 3-4-1-2 kerfið, með Kasper Schmeichel í marki, Soyuncu, Fofana og Castagne í öfustu línu. Marc Albrighton og Luke Thomas verða vængbakverðirnir, James Maddison kemur í holuna og Jamie Vardy og Kelechi Iheanacho verða frammi.



Gera má fastlega ráð fyrir því að flestir stuðningsmenn beggja liða verða með í maganum yfir þessum leik í kvöld. Hvíldarpúlsinn verður að lágmarki 110 slög á mín. Okkar menn verða að eiga góðan leik og þá sérstaklega við um miðjumennina. Spá

Ég segi að leikurinn fari okkur í hag 2-0. Bæði mörkin koma í seinni hálfleik þar sem Leicester liðið á eftir að þreytast meira en okkar. Mason Mount og Christian Pulisic skora mörkin. Áfram Chelsea!


KTBFFH

- Hafsteinn Árnason

Comments


bottom of page