top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Chelsea - Ipswich

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 3 days ago
  • 3 min read

Keppni: Enska Úrvalsdeildin, 32. umferð

Tími, dagsetning:  Sunnudagur 13. apríl kl: 13:00

Leikvangur:  Stamford Bridge, London

Dómari: Stuart Attwell

Hvar sýndur: Síminn Sport2

Upphitun: Guðna Reyni Þorbjörnsson

Á Pálmasunnudag koma leikmenn Ipswich í heimsókn á Stamford Bridge. Þetta er leikur í 32.umferð ensku úrvalsdeildarinnar og hvert einasta stig, já og mark, skiptir gríðarlega miklu máli í baráttu okkar um sæti í meistaradeild Evrópu. Við sitjum í 4. sætinu sem stendur en þetta er ansi þéttur pakki í kringum okkur og lítið svigrúm að misstíga sig. Fyrir þessa umferð höldum við 4. sætinu aðeins á markahlutfalli, en Newcastle eru jafnir okkur að stigum með einn leik til góða. Man City og Aston Villa eru síðan í humátt á eftir okkur.


Síðastliðinn fimmtudag unnum við góðan 0-3 útisigur í fyrri leik okkar gegn Legia Warsaw í Sambandsdeild Evrópu. Það var mjög ánægjulegt að sjá hinn unga Tyrique George skora sitt fyrsta mark fyrir aðallið félagsins og svo minnti Madueke heldur betur á sig með tveimur laglegum mörkum eftir undirbúning Jadon Sancho. Vonandi gefa þessi tvö mörk þessu tvíeyki aukið sjálfstraust fyrir endasprett tímabilsins. Christopher Nkunku klikkaði síðan á vítaspyrnu sem kórónaði nokkurn veginn tímabilið hjá honum, sérstaklega eftir áramót, en hann hefur lítið sýnt okkur á árinu 2025, því miður. Næstir á dagskrá, eins og áður kom fram, eru nýliðarnir Ipswich Town. Ipswich eru í 18.sæti deildarinnar, 12 stigum frá öruggi sæti þegar aðeins níu umferðir eru eftir. Þeir fóru mjög illa að ráði sínu í síðasta leik á heimavelli á móti Wolves þar sem þeir komust í 1-0 forystu og voru með kjörið tækifæri til að blása smá lífi í fallbaráttuna. En eins og oft áður í vetur, þá glutruðu þeir niður forskotinu og misstu Úlfana enn lengra frá sér. Fall úr ensku úrvalsdeildinni eftir aðeins eitt tímabil virðist óhjákvæmilegt hjá Traktorsstrákunum úr því sem komið er, en við megum samt alls ekki vanmeta þá, enda töpuðum við fyrri leiknum á Portman Road 2-0 í mjög lélegum leik okkar manna. Við þurfum að blása til sóknar í þessum leik. Í síðustu fjórum deildarleikjum höfum við aðeins skorað tvö mörk. Nicholas Jackson og Noni Madueke eru mættir aftur eftir meiðsli og það sást greinilega hvað Jackson er mikið meiri ógn í sókninni heldur en Nkunku í leiknum gegn Brentford. Ég er nú búinn að vera mikill Nkunku maður síðan við keyptum hann en ég viðurkenni alveg að ég fer að játa mig sigraðan hvað hann varðar. Ég held að hann eigi ekki mikla framtíð fyrir sér hjá Chelsea og mun eflaust flytja sig um set í sumar. Madueke kom svo sterkur inn á fimmtudaginn og það kæmi mér ekki á óvart ef hann hefur unnið sér sæti í byrjunarliðinu á sunnudaginn með þessum mörkum.


Ég ætla að viðurkenna að ég er ekki viss hvernig Maresca mun stilla upp liðinu, hann hefur sýnt að hann getur verið óútreiknalegur eins og gegn Brenford í síðustu umferð. Ég ætla að koma með tillögu fyrir hann og hann breytir því þá bara ef hann er ekki sammála mér. Sanchez byrjar eflaust í markinu. Malo Gusto verður hægri og Cucurella vinstri í vörn. Chalobah og Colwill verða miðvarðapar. Caicedo, Enzo og Palmer verða að sjálfsögðu á miðjunni. Madueke og Pedro Neto verða á köntunum en sá síðarnefndi var hvíldur á fimmtudag og byrjar því líklega þennan leik. Jackson verður síðan uppi á topp.  


Við vinnum þennan leik 3-1 þar sem Liam Delap skorar fyrir Ipswich og tekur út verðandi heimavöll sinn í leiðinni (plís).  Palmer, Chalobah og Jackson skora síðan mörkin okkar.

 
 
 

Comments


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page