Keppni: Sambandsdeildin
Tími, dagsetning: Fimmtudagur 13. mars kl: 20:00
Leikvangur: Stamford Bridge, London
Dómari: Radu Petrescu (Rúmenía)
Hvar sýndur: Stöð 2 Sport 3
Upphitun eftir: BFR - Bjarni Reynisson

Seinni leggurinn í viðureigninni við þá dönsku og í þetta skiptið á Brúnni. Það var vottur af Chelsea sem að ég var að vona að væri festilega í baksýnisspeglinum sem bauð upp á óþarflega spennuþrungnar loka mínútur á Parken í síðustu viku. Fyrir vikið er staðan í einvíginu 2-1 fyrir okkar mönnum. Það er orðið helvíti algengt að maður klárar áhorf á Chelsea leik með tilfinninguna að frammistaðan hafi ekki verið nægilega góð. Oft á tíðum spilum við boltanum hægt á milli manna, gefum boltann ódýrt frá okkur og bjóðum andstæðingum okkar þar af leiðandi að sækja hratt á okkur. Hrunið á forminu á Cole Palmer spilar líklega stóra rullu á slæmum úrslitum í undanförnum leikjum en samhliða því höfum við verið að glíma við meiðsli á hinum ýmsu lykilmönnum. Samt sem áður virðumst við vera að sigla út úr þessu tímabili af slæmu gengi með þremur sigrum í síðustu þremur leikjum og fengið á okkur aðeins eitt mark.
Það er ekki annað boðlegt fyrir liðið en að vinna þessa Evrópukeppni. Strákarnir stóðu af sér storminn á Parken en lætin voru mikil og leikmenn Köbenhavn margir hverjir að spila stærsta leik ferils síns til þessa sem gaf þeim líklega byr undir báða vængi. Maður getur aðeins vonað að stemningin á Brúnni verði sambærileg á fimmtudaginn kemur. Við erum komin á þann stað í Sambandsdeildinni að línan á milli A-liðsins og B-liðsins hefur verið afmáð af einhverju leyti. Við erum með annan fótinn í átta liða úrslitum og eins og gefur að skilja því dýpra sem við förum því erfiðari verða andstæðingarnir. Köbenhavn eru í öðru sæti í dönsku Súperlígunni, einu stigi á eftir Midtjylland. Það var enginn munur á tölfræðinni í leiknum í síðustu viku varðandi skot og skot á mark. Bæði lið með fimm skot og þar af tvö á rammann. Áætluð mörk (xG) voru Dönunum í hag með 0,45 mörk á móti 0,37 hjá okkar mönnum. Fyrri hálfleikurinn var algjör hrotuhátíð en Reece James opnaði markareikninginn á 46. mínútu með snyrtilegu skoti. Enzo Fernandez tvöfaldaði forystu okkar eftir flottan undirbúning Tyrique George sem var að gefa sína fjórða stoðsending á tímabilinu. Köbenhavn minnkaði muninn á 80. mínútu með marki úr skalla eftir fast leikatriði. Chelsea at kappi við Leicester í Úrvalsdeildinni og þrátt fyrir jákvæða niðurstöðu þá held ég að ég tali fyrir alla stuðningsmenn Chelsea að við hefðum átt að jarða þá með talsvert meiri mun.
Ég tók hið hávísindalega augnapróf á Wesley Fofana í endurkomu hans úr meiðslum í þeim leik og get nú birt niðurstöðurnar sem að sýna að hann sé einn af nokkrum leikmönnum í liðinu sem hafa áhuga á að berjast, safna stigum fyrir klúbbinn og halda hreinu. Ásamt honum er mörgæsamaðurinn Cucurella, Caicedo, Neto, James og Enzo Fernandez þeir sem að ég tel að skila mesta vinnuframlaginu á vellinum fyrir okkar menn. Ég er á þeirri skoðun að velgengni á fótboltavellinum hefst í öftustu línu og því tók ég að mér að rýna í miðvarðapörin sem að við höfum verið að tefla fram á tímabilinu hingað til í Úrvalsdeildinni. Alls hefur Marsca stillt upp sjö mismunandi miðvarðapörum. Leikjahæstu samsetningar samanstanda af Colwill - Tosin og Colwill - Fofana með 10 leiki í byrjunarliðinu á par. Þar af hefur Colwill - Tosin samstarfið skilað eftirfarandi árangri W5 D1 og L4 en Colwill - Fofana samstarfið skilað W5 D4 og L1. Það sem var sláandi við þessa yfirferð á miðvörðum og hreinum lökum að við höfum einungis haldið hreinu sex sinnum í Úrvalsdeildinni á tímabilinu. Þar af komu fjögur þeirra með Colwill og Tosin í miðverðinum en tvö þeirra með Colwill og Fofana. Þrátt fyrir að Colwill - Fofana samstarfið hafi ekki skilað jafn mörgum hreinum lökum þá voru þeir tveir í hjarta varnarinnar á besta kaflanum á tímabilinu okkar hingað til. Það er mín von að þeir báðir haldis heilir héðan frá og nái að líkja eftir þeim frammistöðum og sækja jákvæð úrslit.
Það eru tvö mikilvæg markmið í gangi hjá klúbbnum fyrir tímabilið. Annað þeirra er að tryggja meistaradeildarfótbolta á næsta tímabili og hitt er að vinna Sambandsdeildina. Framundan í Úrvalsdeildinni er mikilvægur leikur gegn Arsenal og þar sem að staðan í einvíginu okkar við Köbenhavn er einungis 2 - 1 þá gefur það Enzo Maresca ákveðinn hausverk varðandi liðsvalið. Staðan er ekki það þægileg að það sé hægt að treysta eingöngu á ungdóminn og minni spámennina en ákjósanlegast væri að okkar bestu menn fengju sem mesta hvíld. Ég er viss um að liðsvalið sem þið eruð að fara að lesa veiti hið fullkomna jafnvægi. Sanchez í markinu, Acheampong í hægra bakverðinum með Reece James tilbúinn að leysa hann af ef að Köbenhavn jafnar einvígið. Miðvarðapar skipað af turnunum tveimur Tosin og Badiashile, þá verða Colwill og Fofana úthvíldir og klárir í Arsenal. Cucurella í vinstri bakverðinum. Romeo Lavia og Dewsbury-Hall á miðjunni, Cole Palmer á sínum stað í tíunni með Tyrique George sér á hægri hönd og Sancho á vinstri vængnum. Fremsti maður Shim Mheuka sem ég spái að skori sitt fyrsta mark fyrir aðalliðið í þessum leik.
Verum hreinskilin, Chelsea er of stór biti fyrir Köbenhavn, okkur er þó fyrirmunað að halda hreinu og því munum við fá á okkur eitt mark en lokaniðurstaðan verður 3 - 1 sigur, 5 - 2 heildarstaða í einvíginu. Cole Palmer finnur markaskónna sína með tvennu og Mheuka setur eitt. Megi það verða!
Takk fyrir lesturinn, áfram Chelsea og KTBFFH!!!