top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Chelsea gegn Everton

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 2 days ago
  • 6 min read

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:  Laugardagur 26. apríl kl: 11:30

Leikvangur:  Stamford Bridge, London

Dómari: Chris Kavanagh

Hvar sýndur: Síminn Sport  

Upphitun: Hafstein Árnason


Á páskadagsmorgni, þegar margir voru að opna páskaegg og njóta súkkulaðis, mætti Chelsea til leiks gegn Fulham á Craven Cottage. Eftir að hafa lent undir með marki frá Alex Iwobi í fyrri hálfleik, virtist sem páskadagurinn yrði ekki sá gleðilegasti fyrir stuðningsmenn Chelsea.​ Frammistaðan var hreint út sagt hræðileg. Aðdáendur hlóðu "wanker" söngva að Maresca þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. En eins og í sögunni um upprisu Krists, þá reis Chelsea upp frá dauðum í seinni hálfleik. Tyrique George jafnaði metin með sínu fyrsta marki í úrvalsdeildinni á 83. mínútu, og í uppbótartíma tryggði Pedro Neto sigurinn með glæsilegu bomber marki eftir stoðsendingu frá Enzo Fernández.​ Þessi sigur endaði átta leikja sigurlausa hrinu Chelsea á útivelli og hélt voninni um Meistaradeildarsæti á lífi. Þrátt fyrir það er andrúmsloftið meðal stuðningsmanna lævi blandið. Það er alls óvíst hvort Maresca haldi áfram jafnvel þótt hann vinni Sambandsdeildina og komi Chelsea áfram í meistaradeildina. Hann er að missa baklandið hjá stuðningsmönnum. Þetta er farið að minna óneitanlega mikið á veru Rafael Benítez og Maurizio Sarri. Þeir unnu báðir titla á evrópska sviðinu, en stemmningin var orðin of súr, þó svo að Sarri fékk tækifærið til stökkva til Juventus. Enzo Maresca hefur sýnt okkur það að hann er helvíti íhaldssamur í nálgun sinni. Hann ákvað að henda Petrovic útúr myndinni strax í byrjun og sá hefur brillerað í Ligue 1 hjá Strasbourg. Maresca ákvað að setja allt sitt egó á Robert Sanchez sem hefur verið einn lélegasti markvörður deildarinnar, og af þeim fjölmörgu markvörðum sem liðið hefur á að ráða, þá hefur hann staðið sig hvað verst í uppspili, sem átti að vera hans sterkasta hlið. Markspyrnunar hans hafa verið allt annað en sannfærandi. Sá ítalski sagði einhverntímann á blaðamannafundi að hann hótaði að henda Filip Jörgensen útaf ef hann myndi sparka langt sem leiddi til þess að Jens Lehmann sagði að Maresca skilur ekki hlutverk markvarða. Emmanuel Petit var einnig mjög óhress en sagði þetta eftir leikinn gegn Fulham: "Maresca ber líklega ábyrgð á nokkrum hlutum. Fyrst og fremst sagði hann fyrir nokkrum mánuðum að liðið hans gæti ekki unnið ensku úrvalsdeildina, og mér finnst það hafa verið mjög slæm skilaboð til leikmannanna. Sérstaklega þegar maður er með svona marga unga leikmenn. Þeir eru enn að læra og enn að bæta sig. En miðað við síðasta tímabil, þá held ég að sumir þeirra hafi bætt sig verulega.

Þannig að Maresca ber ábyrgð á ýmsu. En um leið finnst mér margir leikmenn ekki taka ábyrgð inn á vellinum, og þeir sýna ekki karakter eða persónuleika til að stíga upp þegar á móti blæs.

Sumir hafa þó stigið upp – ég hugsa til dæmis um Moisés Caicedo, og svo Palmer, sem var leiðtogi liðsins alveg þar til nýlega. Enzo Fernández hefur líka bætt sig mikið frá síðasta tímabili."


Það ber einnig að hafa í huga að Chelsea er núna 57 stig, þegar það endaði síðasta tímabil með 63 stig í heildina. Við þurfum tvo sigurleiki til að jafna stigafjöldann frá síðasta tímabili með fimm leiki til stefnu. Það sem stingur mest í stúf, er að deildin er töluvert lakari en í fyrra og Pochettino var á uppleið eftir því sem leið lengra á tímabilið, en Maresca hefur ekki endurtekið það stef, heldur þvert á móti, byrjaði liðið áfaklega vel, en eftir þessi ummæli í desembers sem Petit vísar til, þá hefur gengið verið mjög brösulegt og átta leikir án sigurs á útivelli, í prógrammi gegn litlum liðum að mestu, er vitnisburður um það. Ef Maresca nær ekki að bæta árangur síðasta árs, þá er löngu ljóst að hann á ekki erindi sem erfiði. En þar sem dregur nær lok tímabilsins byrjar að hitna í kolunum á leikmannamarkaðinum. Fylgifiskur þess er dellutíðin (e. silly season). Sagt var að Chelsea fylgdist grannt með samningamálum Virgil Van Dijk, sem líkast til hefur verið eitthvað smellubeitugrín. Aðrir orðrómar hafa verið um Dean Huijsen, en hann hefur 50 milljón punda úrlausnarákvæði á sínum samningi. Það er þó nánast allir toppklúbbar á eftir honum og hvort Chelsea hafi eitthvað vægi í dag er alls óvíst, sérstaklega ef það mistekst að komast í Meistaradeildina. Það hefur líka komið til tals að Chelsea séu að vakta stöðuna hjá Kim Min Jae hjá Bayern Munchen. Líklegasta skýringin á þessu er auðvitað sú Chelsea er í algjörri krísu með miðverði. Tosin, Chalobah og Colwill hafa ekki staðist væntingar og Fofana er sífellt meiddur, en þó líkast til besti miðvörðurinn þegar hann er heill. Þessi meiðslakrísa sem hefur staðið yfir um langt skeið lætur klúbbin líklega endurhugsa miðvarðamálin. Aðrir leikmenn sem eru einnig til skoðunar eru Jarrad Branthwaite og okkar besti úr Cobham, Marc Guehí.


Hinsvegar verðum við hjá CFC að benda á að Strasbourg eru með einn helvíti öflugan miðvörð í Mamadou Sarr. Sá hefur verið að færast upp metaorðastigann meðal leikmanna undir 20 ára aldrinum. Hann er líka 1.94 cm á hæð. Ég hvet aðdáendur Chelsea að fylgjast með þessum dreng.



Önnur meiðslasaga sem hefur krafið klúbbinn til að skoða miðjumenn eru meiðsli Romeo Lavia. Hann hefur aðeins komið við í sögu í 11 leikjum í deildinni, í heilar 545 mínútur sem telur ca. 49 mínútur að meðaltali per leik. Fyrir tímabilið var hugmyndin að rótera Lavia með Enzo og Caicedo, en það hefur alveg verið útúr myndinni og Kiernan Dewsbury-Hall er ekki beinlínis leikmaðurinn til að koma Chelsea á hærri stall. Það bárust óvæntar fréttir í Gazzettunni á Ítalíu að Chelsea væru að fylgjast grannt með samningamálum Andre-Frank Zambo Anguissa hjá Napoli. Það er sagt að Anguissa vilji leita á önnur mið, þrátt fyrir að Napoli hafi virkjað framlengingarákvæði í samningi hans til 2027, til þess að varnar því að hann fari frítt, en líklegt er að upphæðin sé ekki veruleg, ákveði Chelsea að sækja hann.

Anguissa að fagna marki með Napoli
Anguissa að fagna marki með Napoli

Þessi burðugi leikmaður frá Kamerún hefur reynslu af ensku úrvalsdeildinni eftir nokkur ár hjá Fulham, áður en hann fór til Ítalíu, þar sem hann hefur staðið sig prýðilega og var meðal annars leikmaður mánaðarins í janúar í Seríu A. Prófíllinn hans er öðruvísi en flestir okkar miðjumenn, en hann er stór og mikill af líkamlegum burðum, og hefur hæðina sem myndi vonandi koma sér vel að notum í föstum leikatriðum, þannig að Cueva þjálfari sem var tekinn frá Brentford, fari nú að skila árangri, en óhætt er að segja að sú tölfræði standi á sér. Hann hefur burði til að bera boltann upp völlinn og hamast í návígum líkt og Caicedo. Þetta er því áhugaverð nálgun, ef satt reynist og kemur með aðeins öðruvísi vídd í leikmannahópinn.


Vængmenn eru líka til skoðunar - þar sem óvíst er hvort Jadon Sancho verði áfram hjá okkur, enda kostar það 5 milljón punda sekt og málin hjá Mikhaylo Mudryk eru mjög óljós. Seinna prófið er enn til skoðunar, en þó bárust fréttir frá eigendum Shaktar Donetsk að Mudryk hafi staðist lygapróf, en ekki lyfjapróf. Mudryk er viss í sínu sakleysi en staðan er bagaleg þrátt fyrir allt. Það hefur getið sögusagnir að Chelsea skoði alvarlega að virkja klásúlu Nico Williams hjá Bilbao, en Jamie Gittens hjá Dortmund og Garnacho hjá Man Utd eru einnig til skoðunar samkvæmt Sky.

Framherjamálin verða án efa í brennidepli í sumar. Undirritaður hefur verið á Victor Osimhen vagninum um langt skeið, en það er undarlega hljótt í kringum þann leikmann. Nú berast fréttir að Manchester United séu að stýra ferðinni. Það gæti bent til þess að eitthvað hefur orðið á í samningaviðræðum. Töluvert hærri umræða er í kringum Benjamin Sesko hjá Leipzig, Liam Delap hjá Ipswich og Hugo Ekiteke hjá Frankfurt. Það verður því afar fróðlegt að sjá hvernig málin þróast á næstunni, en ef Winstanley og Stewart klúðra Osimhen málinu, verður að beina spjótunum að þeim sjálfum.


Eitt sem er alveg klárt með leikmannamálin er að Joao Felix verður ekki áfram hjá AC Milan eftir lánsdvölina. Leikmenn sem eru enn á láni eru ólíklegir til að eiga meiri framtíð hjá félaginu samanber Ben Chilwell, Carney Chukwuemeka og jafnvel Axel Disasi. Það má fastlega búast við sölum á þeim bæjum. En hvað um það! Nú er komið röðinni að leiðinlegasta andstæðing Chelsea síðasta áratuginn. Okkar helsta bogey lið, Everton Football Club undir stjórn David Moyes. Það eru ómældar mínútur af leiðinlegum fótbolta og þegar þessi lið hafa deilt velli. Eina skemmtilegi andartökin sem ég man eftir var þrumufleygurinn hjá Drogba á Goodison og þrennan hjá Cole Palmer. Fyrir utan það yfirleitt lokaðir leiki og yfirleitt jafntefli eins og síðast í desember. Við misstum Malo Gusto í lærvöðvameiðsli í Fulham leiknum og hans þjónustu nýtur ekki við. Marc Guiu er ekki ennþá orðinn heill og maður efast um Fofana og Lavia hvívetna þótt þeir hafa eitthvað komist á bekkinn. Hinsvegar misstu Everton James Tarkowski í meiðsli sem er áfall fyrir þá ásamt því að Dominic Calwert Lewin er ennþá meiddur. Everton sitja í 13. sæti í ágætis stöðu, og allir leikirnir hafa verið jafnir að undanförnu nema tapið gegn City í síðasta leik. Armando Broja (hey munið eftir honum?) verður líklega frá útaf lánssamningsklásúlum við okkur. Chelsea aftur á móti verða líklega skipaðir svona. Sanchez í markinu, Cucurella vinstri, Colwill og Chalobah í miðvörðum og Reece James hægri bakvörður. Caicedo, Enzo og Palmer á miðjunni með Madeuke á hægri og Neto á vinstri. Jackson á toppnum, en sá þarf að reima á sig takkaskóna, því hann er að fjarlægjast xG'ið sitt allt of mikið. Ég er þó ekki bjartsýnn á góð úrslit, þar sem formið á liðinu er í ótrúlega miklu ójafnvægi. Leikurinn fer annað hvort 1-0 fyrir Chelsea, eða 0-0 jafntefli svo ég tvítryggi mig. Ef við skorum, þá verður það eitt óvænt af bekknum frá Ty George! Áfram Chelsea! KTBFFH!

 
 
 

Comments


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page