top of page
Search

Chelsea brúar bilið - Timo Werner


Þann 26. júlí 2020 tilkynnti Chelsea Football Club um kaup liðsins á einum mest spennandi sóknarmanni í Evrópu, Þjóðverjanum Timo Werner. Allt benti til þess að leikmaðurinn væri á leið til Liverpool enda hafði hann verið orðaður við Englandsmeistarana nánast síðan að Jurgen Klopp tók við keflinu í Bítlaborginni. Bölvaði heimsfaraldurinn hefur lán í óláni fyrir okkur Chelsea menn, enda hefur faraldurinn haft minni fjárhagslegar afleiðingar á Chelsea heldur en flest önnur fótboltalið í heiminum, enda með sterkan eiganda sem stendur sem klettur á bakvið sitt félag með sína djúpu vasa.


Chelsea flaug eins og haförn inn í samningaviðræður Liverpool og orkudrykkjaframleiðandans og stal einum stærsta bitanum á markaðinum fyrir litlar 53 milljónir punda, sem er afar vel sloppið miðað við markaðinn í dag fyrir heimsklassa framherja. Það er orðið ansi langt síðan að Chelsea keypti leikmann sem að stærstu klúbbar í Evrópu hafa verið á eftir eða orðaðir við og er afar góð tilfinning að sjá Roman nýta tækifærið þegar aðrir klúbbar eiga í fjárhagsvandræðum og endurreisa alvöru stórveldi í Vestur-Lundúnum.


Æskan

Timo Werner er fæddur árið 1996 í Stuttgart, Þýskalandi. Hann var skírður í höfuðið á móður sinni, Sabine Werner, en faðir hans, Günther Schun, var einnig atvinnumaður í fótbolta og framherji eins og erfinginn. Timo er alinn upp í þýskum aga og var snemma á lífsleiðinni kennt þýsku gildin, virðing, ábyrgð og hógværð. Það sem ég hef séð af Timo Werner er ekkert nema hógværðin uppmáluð, engir stjörnustælar og ekkert vesen, bara fagmennska.



Þrátt fyrir mikla hæfileika á vellinum frá unga aldri kláraði Timo Werner framhaldsskóla (Gymnasium) í Þýskalandi 17 ára gamall og þótti góður nemandi, þrátt fyrir að missa af helmingi tímanna vegna fótbolta. Werner byrjaði fótbolta með ungliðafélaginu í hverfinu, TSV Steinhaldenfeld Youth, sem gáfu honum sviðið til að sýna hæfileika sína og byggja sig upp fyrir næsta skref. Árið 2011, þá 15 ára gamall, fór Werner yfir í ungliðastarf VfB Stuttgard. Ári seinna var hann kominn inn í u-17 ára lið Stuttgard og skoraði þar 32 mörk í 37 leikjum og var færður beint upp í u-19 ára liðið, aðeins 16 ára gamall. Werner skoraði 24 mörk í 24 leikjum fyrir u-19 ára lið Stuttgard og var afhent Fritz Walter silfrið sem er tákn um framúrskarandi árangur á u-19 ára stiginu hjá Stuttgart.


Ferillinn

Werner spilaði sinn fyrsta leik fyrir aðallið Stuttgart í Evrópudeildinni tímabilið 2013-14, þá aðeins 17 ára og 4 mánaða gamall og yngsti leikmaður Stuttgart frá upphafi til að spila með aðalliðinu. Hann var því enn í framhaldsskóla, orðinn leikmaður í Þýsku Bundesligunni. Hann er yngsti leikmaður Stuttgart til að skora í þýsku bikarkeppninni og Bundesligunni ásamt því að vera yngsti leikmaðurinn til að spila 50, 100 og 150 leiki fyrir Stuttgart, ásamt því að vera sá yngsti til að skora 2 mörk í sama leik í Bundesligu fyrir Stuttgart.



Tímabilið 2015/16 féll VfB Stuttgart niður í Bundesliga 2 og var Werner þá seldur til óvinsælasta liðs Þýskalands, RB Leipzig, fyrir áætlaðar 14 milljónir €. Red Bull mennirnir voru nú komnir upp í efstu deild í Þýskalandi í fyrsta skipti frá stofnun félagsins árið 2009. Nýríku orkudrykkjarisarnir RasenBallsport (RB) Leipzig, sem samkvæmt þýskum lögum mega ekki heita Red Bull Leipzig, var stofnað árið 2009 og er afar óvinsælt í Þýskalandi vegna eignarhalds þess en flest félög í Þýskalandi eru sjálfseignarstofnanir eða í eigu stuðningsmanna liðsins.


Werner skoraði 21 mark og lagði upp sjö í 31. leik á sínu fyrsta tímabili fyrir orkudrykkjarliðið sem enduðu í 2. sæti í Bundesliga og tryggðu sér Meistaradeildarsæti á fyrsta ári liðsins í efstu deild í Þýskalandi. Hann fylgdi því eftir með því að skora 13 mörk og leggja upp átta í 32 leik á sínu öðru tímabili með Leipzig. Werner hafði spilað með öllum yngri landsliðum Þýskalands og frammistaða hans með Leipzig heillaði Joachim Löw, þjálfara Þýska landsliðsins og spilaði Werner sinn fyrsta A-landsliðsleik fyrir Þýskaland í mars 2017 en hefur nú spilað 30 landsleiki fyrir Þýskaland og skorað í þeim 12 mörk.



Á HM 2018 var Timo Werner gefið stórt hlutverk sem fylgdi mikil ábyrgð, að vera aðal framherji þýska landsliðsins í 4-3-3 leikkerfi Joachim Löw. Til að gera langa sögu stutta var mótið martröð frá byrjun til enda fyrir Þjóðverjana sem komust ekki upp úr riðlinum sínum í fyrsta sinn síðan 1938 eftir 2-0 tap gegn Suður-Kóreu. Werner spilaði alla þrjá leiki Þýskalands á mótinu, skoraði 0 og lagði upp 0. Slök tölfræði hjá okkar manni, sem var þó langt frá því að vera eini slaki leikmaður Þjóðverja á mótinu. Liðið virtist illa fyrir kallað og eftir mót sagðist Joachim Löw ætla að gera róttækar breytingar á landsliði Þjóðverja og að reynsluboltar og lykilleikmenn undanfarinna ára eins og Thomas Müller, Jérôme Boateng og Mats Hummels ættu ekki framtíð með landsliðinu lengur og að nú yrði byggt upp nýtt lið. Pressan á 22 ára gömlum Werner fyrir mótið var líklega of mikil, enda er Þýska landsliðið, Die Mannschaft, eins og trúarbragð fyrir um 80 milljónum Þjóðverja.


Eftir hörmungarnar í Rússlandi 2018 þurfti Timo litli Werner að sanna hvað í honum bjó. Hann var kallaður ‘flopp’ í þýskum fjölmiðlum eftir frammistöðu hans í leikjunum þremur á HM og nú var hans að sýna úr hverju hann var byggður. Werner svaraði gagnrýnisröddum og átti frábært tímabil með RB Leipzig 2018/19, skoraði 16 mörk og lagði upp 9 í 30 leikjum. Síðasta tímabil var svo hans besta fyrir Leipzig, 28 mörk og 8 stoðsendingar í 34. leikjum í deild og 4 mörk og 2 stoðsendingar í Meistaradeildinni þar sem RB Leipzig komst alla leið í undanúrslit þar sem þeir duttu út gegn risunum frá París.


Turbo Timo

Timo Werner er oft kallaður Turbo Timo vegna gífurlegs hraða en hann hefur hlaupið 100 metra á 11,11 sekúndum. Hann hefur sagt í viðtölum að hann vilji sparka boltanum 3-4 metra á undan sér til að vinna upp meiri hraða og auka bilið á milli hans og varnarmanna sem elta hann í skyndisóknum. Werner hefur spilað flesta leiki á sínum ferli sem fremsti sóknarmaður, þá oftast í sóknarsinnuðu 4-4-2 leikkerfi Leipzig með annan sóknarmann með sér. Með Stuttgart spilaði Werner oftar á vinstri kanntinum en með Leipzig, og skoraði þá minna en hann gerir þegar hann er fremstur. Á síðasta tímabili spilaði Werner 5 leiki á vinstri kannti og 39 sem ‘striker’ og 1 sem ‘second striker’.



Werner skorar langflest sín mörk inn í teig af stuttu færi. Hann er mjög hraður á fyrstu metrunum sem leyfir honum oft að stinga sér fram fyrir varnarmann og ná fyrirgjöf frá kanntinum og setja boltann í netið í fyrstu snertingu. Werner skítur oft í skrefinu, líkt og við sáum Hazard svo oft gera, sem gerir markverðinum erfitt fyrir að tímasetja skotið. Hann þarf engan tíma á boltanum og gerir hlutina oftast eins einfalt og hann kemst upp með. Mjög oft sólar hann markvörðinn eins og Brasilíski Ronaldo og rennir honum í tómt markið. Hann á það einnig til að lúra fyrir aftan öftustu línu andstæðingsins og bíða eftir því að einhver gleymi sér, komast inn í sendingarnar þeirra og komast einn í gegn. Werner var einnig vítaskytta Leipzig seinni 2 tímabilin hans hjá þeim, skoraði úr 13 spyrnum en klúðraði 3. Með Willian á brott og Jorginho ekki líklegur til að fá margar mínútur gæti ég trúað að Werner verði ofarlega á lista Lampards yfir vítaskyttur. Werner er þessi týpíski “Réttur maður á réttum stað” striker og er ótrúlega góður í að klára færin sín.


Áhyggjuefni

Árið 2017 var Werner tekinn af velli á 32. mínútu í Meistaradeildarleik gegn Besiktas í Istanbúl. Ástæðan er sögð hafa verið að Werner átti erfitt með andardrátt vegna mikils hávaða frá stuðningsmönnum Besiktas. Tyrkir eru þekktir fyrir mikil læti á áhorfendapöllunum og fór það ekki vel í 21. árs Timo Werner. Til að byrja með setti hann hendur fyrir eyru til að reyna að minnka áhrifin og á tímapunkti fékk hann eyrnatappa frá þjálfarateymi liðsins til að geta haldið áfram leik. Þetta endaði með því að Werner bað um skiptingu eftir 31. mínútu af leiknum í stöðunni 1-0 fyrir Besiktas. Eftir leik kom yfirlýsing frá Leipzig að Werner þjáðist af “circulation problems” - einhverskonar blóðstreymisvandamál.



Þjálfari Leipzig á þeim tíma, Ralph Hasenhuttl, þótti skjóta heldur hart á Werner eftir leikinn þar sem hann sagði það mikilvægt fyrir hann að sjá hverja hann gæti treyst á í stórum leikjum og hverja ekki og hverjir gætu þolað hávaðann í Tyrkneskum stuðningsmönnum. Sem betur fer hefur þetta ekki skeð aftur eftir atvikið í Istanbul og við Chelsea menn vonum bara að þetta vandamál dokki ekki upp aftur.


Werner fékk einnig mikla neikvæða athygli eftir að hafa hneppt titilinn “Die Rote Bullen” fyrir dífu sem hann framkvæmdi í leik gegn Schalke 04 og fiskaði með henni ósanngjarna vítaspyrnu. Dífur eru ekki vel metnar í Þýskalandi og fá leikmenn miklar skammir þegar þeir eru gómaðir við að dífa sér. Baulað var á Werner í hvert skipti sem hann fékk boltann í marga leiki eftir þetta og meira að segja var baulað á hann af Þjóðverjum í sínum fyrsta landsleik vegna atviksins.

Sagt er að Werner hafi þurft sálfræðiaðstoð frá sálfræðingum RB Leipzig á þessum tíma til að hjálpa sér að takast á við áreitið. Werner segir sjálfur að hann hafi sagt dómaranum að varnarmaður Schalke hafi ekki snert hann og að þetta væri ekki víti, sem hann dæmdi þó. Ég trúi okkar manni, enda virðist hann vera heiðarlegur og fagmaður fram í fingurgóma.



Framtíðin

Það verður ótrúlega áhugavert að sjá hvernig Werner mun þróast sem leikmaður hjá Chelsea. Ég hef óbilandi trú á því að Werner verði í framtíðinni álitinn einn af þessum Chelsea goðsögnum sem við tölum svo oft um. Áhugavert verður að sjá samspil hans við leikmenn eins og Havertz, Ziyech og Pulisic en einnig gæti orðið áhugavert að sjá hvernig hann mun tengja við Tammy Abraham eða Giroud, þá spilandi á vinstri kanntinum. Eitt er víst, að Werner mun skora fullt af mörkum fyrir Chelsea Football Club, ef að allt verður eðlilegt.


Velkominn til Chelsea Turbo Timo!


KTBFFH

Þór Jensen



Comments


bottom of page