top of page
Search

Chelsea - Arsenal


Keppni: Premier League


Tími, dagsetning: Laugardagur 21. október kl: 16.30


Leikvangur: Stamford Bridge


Dómari: Chris Kavanagh


Hvar sýndur: Síminn sport og valdir staðir víða um land


Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson





Þá er landsleikjahléi lokið í bili og það er enginn smá leikur sem bíður okkar á laugardaginn þegar hinn óaðfinnanlega greiddi stjóri Arteta mætir með piltana sína í Arsenal á Stamford Bridge og við verðum vitni að Lundúnarslag af bestu gerð.

Þrátt fyrir að stjórar beggja liða séu afskaplega góðir vinir og hafa haldið góðum vinskap í um 20 ár eða allt frá því þeir léku knattspyrnu sjálfir og gengu á sama tíma til liðs við PSG í Frakklandi árið 2001 þá er ljóst að sá vinskapur gleymist þegar flautað verður til leiks og verður þá væntanlega stál í stál.


Ef við skoðum aðeins stöðuna á liðinu okkar þá eru 3 sigurleikir í röð staðreynd í öllum keppnum og virðist sem sjálfstraust og áræðni sé að smella inn og menn eru loksins farnir að skora og allnokkrir sem ekki hafa verið að gera gott mót hingað til eru að hrökkva í gang og virðast vera að finna fjölina.


Það sem helst má taka út úr síðasta leik okkar manna gegn Jóhanni Berg og félögum í Burnley er að Raheem Sterling virðist vera hrokkin í gang eftir brösuglega byrjun og eflist með hverjum leik og átti stórann þátt í öllum 4 mörkunum sem liðið skoraði. Þó var ekki laust við að færi aðeins um mann þegar Wilson Odobert kom Burnley yfir snemma leiks og allt stemmdi í að Burnley færi með eins marks forystu í hálfleik. En á 42 mínútu aðstoðaði markvörður Burnley okkur örlítið og með sjálfsmarki sá hann til þess að staðan var jöfn þegar leikmenn gengu til leikhlés.





Allt annað var uppi á teningnum í seinni hálfleik og stýrðum við leiknum að vild og á 55. mínútu var Sterling felldur innan teigs og dæmd var vítaspyrna og okkar efnilegi unglingur Cole Palmer fór á punktinn og skoraði sitt fyrsta mark fyrir Chelsea og kom okkar mönnum á sigurbraut. Það var svo Sterling sjálfur sem skoraði þriðja markið á 65. mínútu eftir stoðsendingu frá Gallagher og Nicholas Jackson innsiglaði svo sigurinn með marki á 74. mínútu eftir stoðsendingu frá Palmer.


Það er jú dálítið annað að eiga við Arsenal en Burnley en þó hljóta hagstæð úrslit og það að menn eru loksins farnir að skora að peppa menn upp og verðum við jú að trúa því að jafnvægi sé að nást og sjálfstraust að aukast. Heilt yfir voru allir leikmenn Chelsea nokkuð “solid” í leiknum gegn Burnley og gefur það ekkert annað en góð fyrirheit fyrir leikinn gegn Arsenal.


Fyrir leikinn erum við 11 sæti með 11 stig en Arsenal er í 2 sæti með 20 stig eða jafnmörg og toppliðið Tottenham en lakari markatölu þannig að 9 stig skilja liðin að.

Arsenal hefur verið á blússandi siglingu sem af er tímabils og eru sannarlega til alls líklegir og liðið er ógnarsterkt en ekkert lið er óvinnandi og verða liðsmenn Chelsea að fara óhræddir í leikinn og það er nú einu sinni þannig að það er alltof oft sem okkar menn sýna hvað í þeim býr á móti stóru liðunum en tapa frekar stigum á móti minni spámönnum svo ég er ekkert mjög hræddur við þennann leik.


Chelsea


Eitthvað virðist vera að rofa til í meiðslamálum og Disasi og Reece James eru rétt handan við hornið en ekki horfir vel með Romeo Lavia en hann náði sér í enn ein meiðslin og verður ekki til í tuskið fyrr en snemma á aðventunni. Nú hljóta menn að halda niður í sér andanum varðandi Nkunku og krossa alla tiltæka fingur og vona að ekki komi bakslag í hans bataferli en það er einhver óþægileg meiðslaára umlykjandi þann mann en vonum það besta og því fyrr sem hann kemur til leiks því betra þar sem okkur vantar enn markaskorara á svið. En á meðan þeir tínast inn hver af öðrum þá hlýtur þetta að vera á uppleið. Ljósu punktarnir eru klárlega að margir leikmenn eru að stíga upp og eflast og Cucurella, Gallagher og Caicedo eru að koma til og farnir að sýna mun betri leik og Mudryk virðist einnig vera að hrökkva í gang og var til dæmis allt í öllu hjá Úkraínska liðinu í landsleikjahléinu og það varð til þess að samlandi hans og landsliðsfélagi Oleksandr Zinchenko sem leikur einmitt með Arsenal komandi mótherjum okkar á laugardaginn tilkynnti Mudryk að ef hann sýndi sömu frammistöðu gegn þeim á laugardaginn þá myndi hann persónulega slíta af honum eistun en vona ég að þetta hafi verið sagt í léttu spaugi þar sem yrði leiðinlegt að verða vitni að barbarískri geldingu á okkar heimavelli. Samkvæmt öllu og ef allt gengur upp þá má allavega vona að flestir lykilmenn okkar aðrir en Fofana verði komnir í gang þegar hátíð ljóss og friðar gengur í garð. Ég ætla að bíða örlítið lengur með að fara að spá í leikmannamarkaðinn í janúar punktur.





Arsenal



Það er alveg ljóst að þetta verður basl og bardagi gegn Arsenal en þeir hafa einfaldlega verið á blússandi siglingu undanfarin 2 ár og voru hársbreidd frá því að verða enskir meistarar á síðustu leiktíð en misstu sénsinn einhvernvegin út úr höndunum á síðustu stundu og það er oft sem liðið náii ekki að standast mikla pressu og Arteta virðist ekki hafa náð að berja inn alveg nógu mikið sjálfstraust til að ná alla leið en þó skal athuga að þeir hafa styrkt sig verulega frá því í fyrra og eru að ég held talsvert betri þetta árið.

Declan Rice er genginn til liðs við Arsenal og munar hressilega um hann á miðsvæðinu og nú hafa tveir fyrrum Chelsea leikmenn klæðst rauðu og hvítu treyjunni eða þeir Kai Havertz og Jorginho en það hafa þó ekki verið neinar flugeldasýningar í kring um þá reyndar.


Það er óhætt að segja að liðið líti allavega vel út á blaði en það er hver stórstjarnan á fætur annari í öllum stöðum og sýnir staða liðsins á töflunni hversu hrikalega góðir þeir eru. Eg held að það borgi sig ekki að telja upp einhvern einn úr þessu liði því þeir eru fantagóðir allir en við höfum oft sýnt okkar bestu frammistöðu gegn erfiðum andstæðingum og held ég að það verði engin breyting þar á um helgina.



Spá og liðsuppstilling





Poch kemur ekki til með að breyta miklu frá síðustu leikjum og heldur sig líklega við 4-2-3-1. Sanchez verður á milli stanganna.

Vörnin verður skipuð þeim Gusto, Silva, Colwill og Cucurella sem virðist vera að finna sig vel.

Þar fyrir framan verða þeir félagarnir Caicedo, Fernandez og Gallagher. Fremstir verða svo Mudryk, Jackson og Sterling.


Ég gæti svo alveg trúað að Palmer fái mínútur og þá sérstaklega ef Mudryk missir grjónin.


Ég er meira efins um Reece James en þó gæti hann komið til bjargar á ögurstundu.

Þetta verður erfitt en að sama skapi veisla enda tvö frábær lið og ég hef bullandi góða tilfinningu fyrir þessum leik og ætla að gerast svo djarfur að spá okkur sigri en hann verður ekki stór og ég tel ekki ólíklegt að leikurinn endi 1-2 og Jackson og Sterling skora og Ödegaard nær inn einu fyrir gestina.


Eitt er klárt! þetta verður gaman og hvet ég alla stuðningsmenn til að koma saman og skemmta sér vel þennan laugardagseftirmiðdag.



Góða skemmtun og áfram Chelsea!!!


KTBFFH!!!



Comments


bottom of page