Pistill eftir Hafstein Árnason
Það vakti nokkra athygli þegar tilkynnt var um kaup Chelsea á ungum miðjumanni úr primavera liði Inter. Þessi leikmaður heitir Cesare Casadei, og er 19 ára gamall, fæddur 10. janúar 2003. Hann kemur á 15 milljónir evra, sem getur hækkað í 20 milljónir, með árangurstengdum atriðum. Það gerir hann, líklega að dýrasta ungling, sem hefur ekki leikið “fullorðinsfótbolta”. Chelsea keypti einnig núna í sumar, Carney Chukwuemeka frá Aston Villa. Hann er einnig 2003, en fæddur í Október. Carney var keyptur á 18 milljónir, en hann hefur leikið 13 leiki í ensku úrvarlsdeildinni með Aston Villa.
Til samanburðar, þá getum við nefnt að Chelsea keypti Kevin De Bruyne frá Genk á 8 milljónir evra (9,6 á núvirði), og Thibaut Courtois á 9 milljónir (10,8 á núvirði). Mohamed Salah var keyptur á 16.5 milljónir evra (20 á núvirði) frá Basel. Allt leikmenn sem voru með reynslu úr meistaraflokk og með leiki í evrópukeppnum. Undirritaður rámar helst til Franco di Santo sem leikmanns, þar sem mest spenna ríkti um, þegar sá var keyptur til klúbbsins. En hann kom á 4,5 milljónir evra (5,8m á núvirði) – en varð svo síðar seldur með tapi til Wigan. Eini leikmaðurinn, sem kom á slíkum aldri til Chelsea, fyrir meiri pening var John Obi Mikel, en eins og allir vita, þá þurfti að borga Manchester United sérstaklega fyrir þann snúning. Eftir situr spurningin, afhverju er Cesare Casadei svona dýr leikmaður, þegar hann hefur enga reynslu? Hver er þessi ungi leikmaður?
Hann er fæddur í Ravenna, í Emilia Romagna héraðinu og lék fyrst með liði Cervia, en færði sig fljótt yfir til Cesena sem er stærsti klúbburinn á svæðinu þarna við Adríahafið. Hæfileikar hans komu býsna fljótt í ljós og við 15 ára aldurinn samdi hann við Inter í Mílanó. Til þess að setja það eitthvað í samhengi, þá er Mílanóborg í ca 3 tíma akstursfjarlægð frá Cesena (eða um 312 km). Það má því gera fastlega ráð fyrir því að hann hefur farið frá heimaslóðum á þeim aldri. Á þeim tíma hefur hann fór hann nánast strax í Primavera liðið hjá Inter, sem er U19 lið, þrátt fyrir að hann var 16 ára. Hann var fyrirliði liðsins í Primaveradeildinni á nýliðnu tímabili, þrátt fyrir að hafa endað í 2. sæti í deild, þá vann Inter úrslitakeppnina og Casadei fékk MVP verðlaun. Hann skoraði einnig 14 mörk í 34 leikjum, þar af tvö úr vítaspyrnum og átti 4 stoðsendingar. Sá markahæsti í deildinni var með 19 mörk, en Casadei var markahæstur í liði Inter, þrátt fyrir að spila yfirleitt sem “box-to-box” mezzala miðjumaður. Hann hefur einni verið nýttur sem trequartista (hin klassíska 10'a) í holunni. Hann er frekar hávaxinn, eða um 1.86 m, á hæð og hefur mikinn líkamlegan styrk, að minnsta kosti í samanburði við aðra leikmenn í Primavera deildinni á Ítalíu. Hann er einnig talinn hafa mjög gott næmi fyrir tímasetningum um hvenær hann eigi að vera í boxinu.
Fjölmiðlar á Ítalíu hafa ritað um Casadei sem einvherskonar gullmola sinnar kynslóðar. Ef við ættum að geta líkt honum við einhvern leikmann í Chelsea í dag, þá svipar honum mikið til Ruben Loftus Cheek hvað líkamlega burði og leikstöður varðar. Þar fyrir utan þykir hann einnig mjög góður á boltanum er með ágætis auga fyrir spili og sendingum af lengri toga. Aðrir fjölmiðlamenn hafa þó gengið lengra og líkt Cesare Casadei við Frank Lampard. Það eru ansi stór orð en vonum þó að það verði að veruleika. Það sem gefur því ákveðna vigt, er að núna í sumar var landsliðsmót U19 liða, sem England vann. Englendingar slógu Ítali út í undanúrslitum, en í liði mótsins voru Cesare Casadei frá Ítalíu, Carney Chukwuemeka og Harvey litli Vale frá Englandi. Það gefur ákveðin fyrirheit, sérstaklega þegar maður skoðar lið mótsins nokkur ár aftur í tímann.
Það sem kemur þó örlítið á óvart, er að Inter hafa ekki spilað honum í aðalliðinu á síðasta tímabili. Simone Inzaghi kom sem nýr stjóri inn í Inter, eftir að Antonio Conte fór frá liðinu eins og frægt var orðið. Inzaghi spilaði nánast eingöngu á Barella, Brozovic og Hakan Calhanoglu. Casadei fékk þó einhverjar mínútur með þeim á nýliðinu undirbúningstímabili en alls ekki nóg til að dæma heildstætt. Hann hefur þó æft mikið með aðalliði Inter á síðasta tímabili. Stefnt var þó að því að spila honum á þessu tímabili, en stjórn Inter, hafa ákveðið að fórna Casadei fyrir ákveðna skammtímahagsmuni í fjárhagsbókhaldinu, sem hefur verið mjög erfitt á þeim bænum.
Helstu veikleikar, ef maður getur talið eitthvað upp, er að hann virðist ekki getað talað ensku ef marka má orð Thomas Tuchel. Hann fær því nægan aðlögunartíma til að koma sér að liðinu. Það er líklegt að hann spili með unglingaliðinu fyrst um sinn, en skv. Heimasíðu Chelsea var haft eftir Neil Bath, þjálfara unglingaliðisins, að þeir hefðu fylgst með Casadei um skeið. Það gefur okkur ákveðnar vísbendingar, að þetta sé ekki einungis áherslubreyting með nýrri stjórn, heldur eitthvað sem fyrri stjórn var að vinna að. Tíminn kemur þó til með að leiða það í ljós, hvort við séum með einhverja stórstjörnu í bígerð á Cobham æfingasvæðinu.
Við óskum Cesare Casadei velfarnaðar í störfum. Vonandi verður hann næsti Frank Lampard, eða jafnvel næsti Roberto Baggio!
Heimildir:
Comments