Keppni: Enska Úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: Þriðjudagur 14. janúar 2025 kl: 19.30
Leikvangur: Stamford Bridge, Lundúnum
Dómari: Robert Jones
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport
Upphitun eftir: Guðna Reyni Þorbjörnsson
Já kæra stuðningsfólk, það hefur vissulega verið lægð undanfarið, en nú er hún vonandi búin að ganga yfir. Við unnum nokkuð þægilegan 5-0 bikarsigur gegn Morecambe um síðustu helgi í leik sem var náttúrulega ekki neitt annað en skyldusigur fyrir okkar menn. Það voru mjög góðar fréttir að bæði Reece James og Romeo Lavia gátu byrjað þann leik og komust meiðslalausir í gegnum hann. Þeir spiluðu að vísu bara fyrri hálfleikinn en það var lagt upp með að þeir myndu taka 45 mínútur í þessum leik. Það þarf auðvitað að gæta þess að koma þeim rólega af stað og vonandi er meiðslakvóti þeirra búinn þetta tímabilið. Hinn ungi og efnilegi Tyrique George átti mjög góðan leik og lagði upp tvö mörk ásamt því að eiga flestar lykilsendingar af öllum leikmönnum í leiknum. Hann var með 88% sendingarhlutfall og má vera mjög ánægður með sinn leik. Fyrri hálfleikurinn var þyngri en sá seinni en loksins þegar fyrsta markið kom opnuðust allar flóðgáttir. Tosin og Felix skoruðu sitthvor tvö mörkin með snyrtilegum afgreiðslum og Nkunku bætti marki í safnið sitt eftir frákast inn í teig. Hann hafði klikkað á víti fyrr í leiknum og því var þetta mark mjög kærkomið fyrir hann. Hann hefur verið orðaður við brottför frá okkur síðustu daga, en ég trúi ekki öðru en að hann muni klára tímabilið með okkur og leggja sitt af mörkum í þeim verkefnum sem framundan eru.
Eftir fjóra leiki í röð án sigurs í deildinni yrði kærkomið að sækja sigur í næsta leik sem er heimaleikur gegn hinu sterka suðurstrandarliði Bournemouth. Eftir 20 umferðir sitjum við í fjórða sæti með 36 stig, með stigi meira en Newcastle sem eru því fimmta. Önnur lið fylgja svo þar á eftir, þar á meðal Bournemouth, alveg niður í miðja deild, þannig að nú mega leikmenn okkar gíra sig upp úr hátíðarsleninu sem þeir komu sér í og gera sig klára fyrir seinni helming tímabilsins. Það er enn mikið eftir af tímabilinu og engin ástæða til einhverrar svartsýni þó að liðið hafi aðeins dalað í síðustu leikjum. Ég hef fulla trú á því að við komum okkur aftur á almennilegt skrið og það væri auðvitað algjör draumur að berjast um efstu fjögur sætin. Úr því sem komið er ætti evrópusæti allavega að vera lágmarkskrafa.
Bournemouth:
Bournemouth er í 7.sæti með 33 stig og geta jafnað okkur að stigum ef þeir sigra þennan leik. Þeir eru taplausir í síðustu 8 deildarleikjum og eru sannarlega erfiðir viðureignar. Þeir unnu WBA 5-1 í bikarnum um helgina og koma því væntanlega fullir sjálfstrausts í leikinn gegn okkur. Þeir hafa tapað fimm af þeim 20 leikjum sem þeir hafa spilað í deildinni og í fjórum af þessum fimm hafa þeir tapað með aðeins eins marks mun. Eini leikurinn sem þeir hafa tapað með meira en einu marki var ósigur þeirra á Anfield gegn sterku liði Liverpool í september. Bournemouth urðu fyrir áfalli nú í upphafi árs þar sem tveir af þeirra sterkustu leikmönnum, sóknarmennirnir Evanilson og Enes Unal, meiddust og munu missa af þessum leik. Þeir eiga þó inni aðra sterka leikmenn sem við þurfum vissulega að hafa gætur á, eins og Justin Kluivert, Dango Ouattara og Antonie Semenyo til dæmis. Þeir verða einnig án Kepa í markinu en þeir eru með hann í láni frá okkur eins og flestir vita og því er hann ekki gjaldgengur í þennan leik. Síðast þegar þessi lið áttust við náðum við í 0-1 sigur gegn þeim á útivelli með marki frá Nkunku undir lok leiks, en fram að því hafði Sanchez haldið okkur inn í leiknum með góðum vörslum. Síðasti leikur þessara liða á Stamford Bridge var lokaleikur síðustu leiktíðar þar sem Chelsea unnu 2-1 með mörkum frá Moises Caicedo frá miðju, og Raheem Sterling, sem að öllum líkindum var hans síðasta mark fyrir Chelsea. Chelsea er búið að hafa nokkuð gott tak á Bournemouth undanfarið, en síðasti tapleikur okkar gegn þeim kom 14.desember 2019, og gerðist reyndar á Stamford Bridge í hundleiðinlegum leik.
Chelsea:
Eins og áður hefur komið fram og hefur ekki farið framhjá okkur er sú staðreynd að Chelsea hafa einfaldlega ekki verið að spila vel í undanförnum deildarleikjum. Þeir hafa verið í mestu vandræðum með að sigla leikjunum heim og virðast mjög óöruggir með eins marks forystu. En verðum við ekki að trúa því að okkar menn komi sér upp úr þessari lægð? Cole Palmer skoraði bæði gegn Fulham og Crystal Palace og nú væri mjög gott ef hann tæki sig til og myndi bara klára þennan leik í fyrri hálfleik með fleiri mörkum eða stóðsendingum. Auðvitað er best að halda dampi allan leikinn, en á meðan ástandið er svona, væri fínt að hann myndi nota orku sína og hæfileika í það. Því hann hefur virkað þreyttur undir lok leikja upp á síðkastið. Það yrði alveg rosalega notaleg tilbreyting og þá væri hægt að skipta Joao Felix inn fyrir hann með góðri samvisku síðustu tuttugu mínúturnar, til að halda þeim báðum við efnið. Svo er það hinn umdeildi Nicolas Jackson. Hann er að koma sér í færi, við skulum ekki gleyma því. Og jú, vissulega er hann búinn að vera að klúðra þeim upp á síðkastið, en hann skorar ekki nema skjóta. Ég trúi því að mörkin fari aftur að detta inn hjá honum og ég væri til í að sjá Maresca gefa honum klukkutíma leik áður en hann myndi henda Nkunku inn, en aðallega líka til að halda Jackson almennilega á tánum. Gleymum því síðan ekki að í heildina þá hefur tímabilið verið gott, og eflaust er þessi hátíðarlægð ágætur skóli fyrir þessa ungu leikmenn. Þeir sjá að enginn leikur er gefins í ensku úrvalsdeildinni og það þarf að mæta með hundrað prósent fókus í hvern einasta leik.
Það lið sem ég ætla að spá að Maresca muni tefla fram er eftirfarandi: Sanchez verður í markinu. Malo Gusto byrjar hægra megin og Cucurella vinstra megin. Colwill verður á sínum stað í vörninni ásamt Tosin. Ég ætlaði að setja Acheampong þangað en tvennan frá Tosin um helgina finnst mér líkleg til að gefa honum byrjunarliðssætið í þessum leik. Á miðjunni verða þeir Enzo og Caicedo með Palmer fyrir framan sig. Ég held að á köntunum verði þeir Sancho og Madueke að þessu sinni og Jackson uppi á topp.
Ég væri til í að vinna þennan leik með að lágmarki tveggja marka forystu og í bjartsýni minni ætla ég fylgja þeirri von eftir. Ég spái okkur 3-1 sigri þar sem Jackson og Palmer skora mörkin í fyrri hálfleik og Pedro Neto kemur inná í þeim síðari og setur eitt.
Comments