Keppni: Enska úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: Laugardagur 22. febrúar kl: 17:30
Leikvangur: Villa Park, Birmingham
Dómari: Michael Oliver
Hvar sýndur: Síminn Sport
Upphitun eftir: BFR - Bjarni Reynisson

Vér mótmælum öll…eða er það of snemmt? Það ríkir mikil óánægja með eigendur klúbbsins sem við elskum þessa dagana og aðdáendur hafa boðað til mótmæla gegn Blue Co. fyrir leik liðsins við Southampton. Við erum búin að upplifa erfiða tíma síðan að við lyftum Meistaradeildar bikarnum árið 2021. Meiðsla krísur ár eftir ár, hópurinn undir sífellum breytingum og þjálfararnir staldra stutt við. Fótboltastjórar þurfa að sjá til þess að leikmenn sínir séu með rétta hugarfarið, það er ástæðan fyrir því að harðar reglur með peningalegum sektum eru í gildi fyrir seinkomu á æfingar og liðsfundi auk fjárhagslegar refsingar við slæmri hegðun á vellinum svo fátt sé nefnt. Eldri leikmenn setja fordæmi fyrir þá ungu með framúrskarandi vinnusiðferði og sýna í verki að aukaæfingin skapar meistarann. Eigendur klúbbsins eiga að styðja þjálfarann með því að útvega honum þá leikmenn sem hann þarfnast. Síðan að BlueCo. keypti Chelsea hafa verið nokkrar nálganir á leikmanna markaðinn. Einstaka leikmenn hafa verið fengnir inn með þann ásetning að hafa samstundis áhrif. Lang flest kaupin hafa þó verið á yngri leikmönnum sem annað hvort eiga að verða mikilvægir fyrir klúbbinn í framtíðinni, en margir hverjir fá aldrei að klæðast né berjast fyrir treyjuna, merkið og klúbbinn. Þau ykkar sem hafa séð myndina Moneyball vita að ákvarðanir um félagaskipti byggjast að mestu leyti á tölfræði. Þrátt fyrir að íþróttastjórarnir hjá Chelsea vinna hörðum höndum á að fá inn leikmenn sem skarta tölfræði sem gefur í skyn að þeir verði heimsklassa leikmenn yfirsést þeim einn þáttur í þróun þessara leikmanna. Þessir ungu leikmenn ná ekki að þroskast jafn hratt og mikið eins og þegar þeir njóta góðs af eldri og reyndari leiðtogum í liðinu sem fyrirmyndum og kennurum.
Margt smátt gerir eitt stórt og öll þessi kaup á leikmönnum hafa þær afleiðingar að Chelsea neyðist til að selja uppalda leikmenn sem eru við það að brjóta sig inn í aðalliðið, þetta er annar galli sem fylgir innkaupastefnu Chelsea því að uppöldu leikmennirnir vita hvað það er að vera Chelsea leikmaður, leggja meira á sig heldur en aðkeyptir leikmenn og vilja sigra hvern einasta leik fyrir heiður klúbbsins. Það er auðsjáanlegt andleysi sýnilegt á vellinum og skammarlegt fyrir klúbb á okkar stærðargráðu að fara tvisvar í sömu vikunni á Amex völlinn í Brighton og tapa samanlagt 5 - 1. Að heyra Enzo Maresca segja eftir fyrra tapið að það jákvæða við að falla úr FA bikarnum var að við gætum þá einbeitt okkur meira að deildinni og svo í kjölfarið á þessu slæma gengi upp á síðkastið þá eru afsakanirnar þær að það sé ekki markmið klúbbsins að vinna deildina á þessu tímabili, eða að tala um það trekk í trekk að á næstu fimm til tíu árum munum við vera með yfirburði. Ég gaf Maresca mikið lof í byrjun tímabils fyrir hvernig hann meðhöndlaði leikmannahópinn og hversu skýrt það væri hvaða leikmenn voru aðalliðsmenn í deildinni og Sambandsdeilding og bikarkeppnirnar voru vettvangurinn þar sem aðrir leikmenn voru að fá sínar mínútur. En eins og undanfarin tímabil erum við að lenda í gífurlegri meiðsla krísu og af einhverjum ástæðum, þrátt fyrir öll okkar fjölmörgu leikmannakaup, eru gæðin í dýptinni ekki nægilega góð. Ef að ég byggi í London væri ég alvarlega að íhuga að slást í hóp mótmælendanna. Slæmur janúar gluggi, slæmt gengi í deildinni, sama meiðsla krísan og fjölmiðla teymi klúbbins er að spúa skilaboðum sem að ég bendla ekki við klúbbinn sem að ég styð. Mælirinn hjá mér er þó ekki alveg fullur, en það er ekki langt í það.
Það sem þaggar niður í óánægjuröddum í fótbolta heiminum er góð frammistaða á vellinum og fyrsta skóflustungan þarf að koma ekki seinna en á laugardaginn, þegar Chelsea mætir á Villa Park í Birmingham. Aston Villa styrktu sig vel í janúar með komu Donyell Malen, Rashford, og Marco Asensio, einnig fengu þeir Axel Disasi á láni frá okkur. Þeir eru að spila í Meistaradeildinni á þessu tímabili og enduðu í áttunda sæti eftir, deildar fasann, og tryggðu sér sjálfkrafa þátttöku í 16 liða úrslitunum með þeim árangri. Þrátt fyrir þennan góða árangur sitja þeir í níunda sæti Úrvalsdeildarinnar með 39 stig sem er þó eingöngu fimm stigum frá Man City sem sitja í fjórða sætinu. Þeirra hættulegasti maður, Ollie Watkins, er með 12 mörk í Úrvalsdeildinni á þessu tímabili en ég tel að úrslitin í þessum leik ráðist á þeirri staðreynd að hann er out-and-out nía og við erum að spila með Christopher Nkunku upp á topp þessa dagana og á erfitt með að sjá fyrir mér hvaðan mörk okkar manna ættu að koma í þessum leik.
Á meiðsla listanum hjá okkur má finna fastagestina Fofana, Badiashile, og Lavia, en Madueke, Jackson og Guiu bættust nýlega á listann. Neyðin kennir nakinni konu að spinna og þegar að meiðslin herja á myndast tækifæri fyrir akademíu strákana. Bukayo Saka hjá Arsenal er dæmi, Reece James fékk fyrstu alvöru tækifærin sín þegar Chelsea sætti félagsskipta banni og lengi mætti áfram telja. Tyrique George (vængmaður) og Shim Mheuka (framherji) eru vonarstjörnurnar okkar úr akademíunni og ættu að fá einhverjar mínútur í næstu fjórum leikjum.
Ég myndi stilla liðinu upp með Jörgensen í markinu, Reece James í hægri bakverði, Trevoh Chalobah og Levi Colwill sem miðverði, Cucurella sem vinstri bakvörð. Miðsvæðið skipað af Caicedo og Enzo með Cole Palmer þar fyrir framan. Sancho á vinstri vængnum, Neto á þeim hægri og Shim Mheuka upp á topp. Ég treysti Nkunku ekki, efast um hugarfarið hans og held að hann sé að fara annað í sumar glugganum, en ég býst þó við að Maresca velji hann í byrjunarliðið. Mín spá er því miður ekki jákvæð að þessu sinni og tel að við lútum lægra haldi með einu marki gegn engu.
Áður var það “Trust the process” en fljótlega verður það “Trust the protest”.
Commentaires