Keppni: FA bikarinn
Tími, dagsetning: 07.02 kl: 20.00
Leikvangur: Villa Park, Birmingham
Dómari: Thomas Bramall
Hvar sýndur: Stöð 2 sport 2
Upphitun eftir: Hafstein Árnason
Í fyrsta skipti á tímabilinu var baulað á Chelsea liðið eftir mjög slæmt tap gegn Wolverhampton Wanderers. Matheus Cunha gerði sér lítið fyrir og setti þrennu í andlitið á okkur á Stamford Bridge. Það er sannarlega ný reynsla þegar andstæðingar af þessu kalíberi ná slíkum áfanga. Í rauninni var þetta kannski fyrirséð. Það var nokkuð grátbroslegt að lesa komment okkar kæra félaga, Björgvins Óskars Bjarnasonar, í Chelsea grúppunni fyrir leikinn. Hann spáði fyrir um að Úlfarnir myndu liggja til baka og ráðast til atlögu með öflugum skyndisóknum. Það varð raunin. Chelsea komst yfir nokkuð snemma í leiknum með laglegu marki frá Cole Palmer, en það virtist ekki trufla andstæðingana. Leikmenn Úlfanna einfaldlega vildu þetta meira, börðust betur og kláruðu flest öll einvígi. Leikstjórnin hjá Pochettino virkaði fálmkennd eftir að staðan var orðin 3-1. Innáskiptingar leikmanna virka ekki sannfærandi og einhvernveginn er engin von í neinu, sérstaklega með tvo miðverði inná þegar liðið skíttapar. Malo Gusto kórónaði svo hrikalega frammistöðu með glórulausri tæklingu inn í eigin vítateig sem kostaði vítaspyrnu.
Varnarmennirnir réðu ekki neitt við neitt. Ben Chilwell var alveg sérstaklega slakur enn eina ferðina og virkar langt frá sínu besta. Ég set ákveðin spurningamerki við að spila svona hárri varnarlínu þegar miðverðirnir í liðinu eru ekki sérstaklega hraðir í spretthlaupum til baka. Mikið er lagt á tæplega fertugan Thiago Silva og þetta atriði með að láta hann hlaupa til baka, minnti óþægilega mikið á þegar André Villas Boas ákvað að spila hárri varnarlínu, eitthvað sem hentaði John Terry nákvæmlega ekki neitt (munið eftir þegar Arsenal vann okkur 5-3 á Brúnni). Sá portúgalski neitaði að breyta um leikstíl og við vitum öll hvað gerðist í framhaldinu. Þarna held ég að Pochettino verði að horfa eitthvað í eigin barm og breyta til. Hvort sem það er bara að liggja til baka og beita skyndisóknum, eða setja upp í gamla 3-4-3 leikkerfið þar sem miðverðirnir og bakverðinir njóta sín betur. Poch notaði það hjá Tottenham um tíma, þannig að hann er kunnugur staðháttum. Badiashile, Disasi, Thiago Silva og Trevoh Chalobah virka betur í þannig leikkerfi. Það er samt hægt að sjá, útfrá tölfræðinni sem skiptir engu máli, t.d. hlutfall með bolta, að Pochettino er alveg með eitthvað í höndunum, en það augljóst að honum skortir leikmenn sem láta dæmið ganga upp. Ef vörnin er ekki til að hjálpa miðjunni, verða Enzo og Caicedo yfirleitt undir baráttunni.
Margir vilja skella skella skuldinni alfarið á Pochettino og heimta nýjan stjóra. Ég get sagt ykkur það kæru lesendur, að það er ekki garanteruð lausn. Þarna myndi ég fókusera athyglinni á Paul Winstanley og Lawrence Stewart. Þeir bera ábyrgð á því að setja saman leikmannahópninn eftir stefnunni sem stjórnin setur. Því hefur verið haldið fram af spekingum að liðið virkar eins og það sé samsett úr einhverjum algoryþma. Það er ójafnvægi í liðinu. Flestir varnarmenninrir eru hægir. Miðjumennirnir ekki nógu líkamlega sterkir og það virðist skorta leikreynslu og leiðtogahæfileika í liðið. Thiago Silva er þessi maður upp að vissu marki, en mikið óskaplega eru Raheem Sterling, Ben Chilwell og Conor Gallagher ekki að standa sig hvað þetta varðar. Einu sinni var Chelsea með einhverja fimm til sex landsliðsfyrirliða í byrjunarliðinu. Pochettino hefur ekki haft hönd í bagga við mörg leikmannakaup hingað til. Mögulega einungis Cole Palmer og Axel Disasi. Hróp og köll um að láta reka hann eru kannski ekki tímabær núna, þrátt fyrir að þolinmæði stuðningsmanna Chelsea sé á þrotum. Núna reynir á einhverjar breytingar, eins og Bella Silva, eiginkona Thiago, lét eftir sér á samfélagsmiðlum. Thiago reyndar tók frumkvæðið við Pochettino að útskýra það mál. Það er ekkert ósætti þeirra á milli og samband þeirra er frábært að sögn þess argentínska. Við skulum ekki tapa okkur í einhverri dramatík, eins og fjölmiðlar og aðdáendur eru gjarnir á að gera. Setjum smá traust á vin okkar frá Argentínu að hann komi með einhverjar breytingar.
Og ekki veitir af! Framundan er seinni leikurinn í FA bikarnum við Aston Villa. Fyrri leikurinn endaði markalaust jafntefli á Stamford. Það hefði verið þægilegt að vinna hann, en þetta er staðan. Aston Villa eru mjög hættulegir framávið og enginn skal vanmeta þá Unai Emery og félaga. Hinsvegar lentu þeir í áfalli í síðasta leik - sem var sigurleikurinn gegn Sheffield United. Ezri Konsa meiddist í leiknum og verður frá einhverjar vikur. Hann bætist á meiðslalistann, en fyrir eru Pau Torres, Lucas Digne, Tyrone Mings, Emiliano Buendía og Jhon Durán. Byrjunarliðið hjá Aston Villa verður að öllum líkindum Emi Martínez í markinu. Álex Moreno í vinstri bakverði, Matty Cash í hægri. Clement Lenglet og Diego Carlos miðverðir. Miðjan verður McGinn, Douglas Luiz, Kamara og Leon Bailey. Frammi líklegast Diaby og Ollie Watkins. 4-4-2 eða 4-4-1-1 líklegasta leikskipulagið sem Unai Emery teflir.
Hvað gerir Pochettino? Breytir hann til eða ekki? Meiðslalistinn er nokkuð óbreyttur. Trevoh Chalobah er kominn langt með endurhæfinguna og ekki er ólíklegt að hann verði í hóp. Robert Sanchez er byrjaður að æfa aftur, sem og Levi Colwill. Þeir sem eru ennþá meiddir eru Marc Cucurella, Reece James, Romeo Lavia, Lesley Ugochukwu og auðvitað Wesley Fofana. Liðsuppstillingin verður líklega 4-2-3-1, þar sem Pochettino er svo djöfulli íhaldsamur, en það væri gaman að sjá hann spila 3-4-3 og vaða í varnarlínu með Badiashile, Thiago Silva og Axel Disasi. Gusto og Chilly í vængbakvörðum. Nkunku, Jackson og Palmer frammi. En ég held að hann geri það ekki. Hann mun ekki fórna tíunni sinni. Hann teflir fram klassísku varnarlínunni - Chilwell, Thiago Silva, Disasi og Malo Gusto. Miðan verður að öllum líkindum Conor Gallagher, Enzo og Carney Chukwuemeka. Nkunku verður vinstra megin, Palmer hægra megin og Jackson upp á toppnum.
Hvernig fer leikurinn? Ég trúi ekki öðru en að Chelsea vinni þetta með með smá kombakk. Gera upp hræðilegan leik og rétt merja 0-1 sigur á Villa Park. Nkunku verður með markið.
Áfram Chelsea og KTBFFH!
Comments