Chelsea tekur á móti Brighton í frestuðum leik í ensku Úrvalsdeildinni. Leikurinn er á morgun (miðvikudag) og hefst hann kl 18:45. Stöð 2 Sport sýnir ekki leikinn svo við stuðningsmenn Chelsea verðum að horfa á leikinn á annað hvort NBC eða BeIn Sports.
Chelsea
Síðasti leikur var fullkomið rugl. Hörmungar spilamennska okkar manna gerði það að verkum að við þurftum að treysta á dómaramistök til að jafna leikinn. Það var svo vonarstjarnan okkar, Loftus-Cheek, sem skoraði dramatískt sigurmark. Það er eitthvað sem segir mér að Craig Pawson, dómari leiksins, muni fá sömu meðferð og Tom nokkur Ovrebo fékk frá okkur stuðningsmönnum Chelsea eftir einn ákveðinn leik gegn Barcelona hér um árið. Því auk þess að dæma ekki þessa rangstöðu í jöfnunarmarkinu sleppti hann nokkuð augljósu víti á Rudiger og hefði svo líklega átt að reka Rudiger út af í leiknum. Það þýðir ekki að sykurhúða þetta - við vorum drullu heppnir að vinna Cardiff.
Sarri tók stóran séns í þessum leik með því í hvíla bæði Kanté og Hazard. Ekkert pláss var fyrir Hudson-Odoi því Sarri ákvað að byrja með þá Willian og Pedro á vængjunum. Líklega er ástæðan sú að hvorugur þeirra var í landsleikjum og hefðu því átt vera ferskir og til í slaginn - en það var nú ljóti misskilningurinn! Báðir voru þeir hörmulegir í fyrri hálfleik og það eina sem Willian gerði í leiknum var að leggja upp markið á Loftus-Cheek.
Þessi arfaslaka spilamennska þýðir að Sarri (vonandi) geri verulegar breytingar á byrjunarliðinu. Það er gefið að Hazard og Kanté koma inn í liðið. Sarri sagði á blaðamannafundi að Alonso væri meiddur sem þýðir að Emerson kemur inn í hans stað. Oliver Giroud á skilið að fá byrjunarliðssæti á kostnað Higuain og Loftus-Cheek verður bara að byrja alla leiki það sem eftir er - hann er svo margfallt betri en bæði Barkley og Kovacic. Að lokum heimta ég það að Callum Hudson-Odoi fái LOKSINS að byrja leik í ensku Úrvalsdeildinni. Ef Sarri skilur hann enn og aftur eftir á bekknum þá mun ég ekki eiga aukatekið orð. Byrjunarliðið væri þá eins og sést hér til hliðar og vil ég meina að þetta sér líklega okkar sterkasta lið fyrir utan að Christansen ætti auðvitað byrja líka - ég efast samt um að Sarri geri það.
Brighton Hove Albion
Lærisveinar Chris Hughton sitja í 15. sæti deildarinnar með 33 stig. Þeir eru heilum fimm stigum frá fallsæti svo þeir eru ekki alveg sloppnir við falldrauginn ógurlega. Þeir eru á ágætis skriði eftir að hafa unnið tvo af síðustu þremur en töpuðu samt síðasta leik gegn Southampton 0-1. Brighton eru þekktir fyrir að fá flest öll sín stig á heimavelli og hafa þeir aðeins unnið tvo leiki af fjórtán á útivelli. Fyrri leik þessara liða lyktaði með 1-2 sigri okkar manna.
Þeirra hættulegasti maður er unglambið Glenn Murray en hann er búinn að troða boltanum ellefu sinnum í netið sem verður að teljast býsna gott á þeim bænum. Þeir eru svo með fína leikmenn í Knockaert, Davy Propper og Lewis Dunk. Helsti styrkleiki Brighton er samt og verður liðsheildin og gott skipulag Hughton.
Það er vert að minnast á að Brighton á sinn stærsta leik á tímabilinu nk. laugardag en þá mæta þeir Man City í undanúrslitum FA bikarsins - vonum að þeira verði örlítið með hugann við þann leik á morgun.
Spá og pælingar
Það er umtalsverð óánægja með Maurizio Sarri. Leikur liðsins þykir fyrirsjáanlegur og alltof hægur, þetta er þvert á allar væntingar en eins og flestir muna boðaði Sarri mikinn sóknarbolta í anda Napoli liðsins sem hann hafði þá stýrt í þrjú ár. Það er svo ekkert launungamál að þrjóska Sarri til þess að spila ungu leikmönnunum eins og Loftus-Cheek, Christansen, Ampadu og Hudson-Odoi er farin að fara verulega í taugarnar á öllum stuðningsmönnum Chelsea. Sérstaklega þegar þeir leikmenn sem eru að spila fyrir eru engan veginn að standa undir væntingum.
Þrátt fyrir þessa miklu óánægju er staða Chelsea samt ekki svo slæm. Chelsea er í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti og er liðið aðeins þremur stigum frá þriðja sætinu. Liðið er svo í 8. liða úrslitum Evrópudeildarinnar þar sem okkar menn eiga góðan séns á að komast alla leið í úrslitaleikinn án þess að mæta verulega "sterkum" andstæðingi. Mögulega vinnur það núna gegn Sarri hversu vel hann byrjaði með liðið enda tapaði Chelsea ekki í fyrstu 18 leikjum tímabilsins í öllum leikjum. Ef Chelsea hefði byrjað illa og við værum að blússandi siglingu núna væri skap stuðningsmanna eflaust með öðru móti. Sarri er með 65% sigurhlutfall úr þeim 51 leik sem hann hefur stýrt Chelsea, það er mjög gott.
Ég tilheyri ekki þeim hópi stuðningsmanna sem vilja reka Sarri núna. Eins og staðan er í dag vil ég gefa honum út þetta tímabil, ekki misskilja mig, mitt traust á Sarri hangir á algerum bláþræði. Ef Brighton valta yfir okkur á Stamford Bridge á morgun eru dagar hans eflaust taldir en á meðan við erum í bullandi séns um Meistaradeildarsætið og ennþá inni í Evrópudeildinni vil ég gefa honum traustið.
Ef Sarri velur rétta liðið, leyfir Hudson-Odoi og Loftus-Cheek að spila frá byrjun með Hazard og co. er ég handviss um að við munum sigra Brighton örugglega. Ef við sjáum hins vegar sömu gömlu tugguna sem inniheldur Barkley, Kovacic, Pedro og Willian að þá munum við eflaust enda með að gera jafntefli.
Ætla spá okkur 3-1 sigri með þeim fyrirvara að Hazard, Loftus-Cheek og CHO byrji allir leikinn.
KTBFFH