top of page
Search

Chelsea vs Man City - Úrslitaleikur á Wembley



Á sunnudaginn kemur spilar Chelsea gegn Man City í úrslitaleik Carabao deildarbikarsins. Leikurinn er að sjálfsögðu leikinn á Wembley og hefst hann klukkan 16:30.

Félagaskiptabann

Á föstudagsmorgun var Chelsea dæmt í félagaskiptabann af aganefnd FIFA, bannið hljóðar upp á tvo félagaskiptaglugga auk fjársektar upp á 400.000 pund. Bannið er tilkomið vegna ólöglegra skráninga á 29 unglingsleikmönnum sem koma ekki frá Englandi. Hin meintu skráningarbrot fara nokkur ár aftur í tímann og hefur nafn Bertrand Traore verið nefnt til sögunnar sem eitt af þeim félagaskiptum sem talin hafa verið vafasöm. Traore kom fyrst til Chelsea árið 2013, þá 18 ára gamall. Þannig brotin eru talin vera framkvæmd á árunum 2012-2015.

Chelsea hefur þegar sagst ætla að áfrýja þessum dómi og lýsti félagið yfir vonbrigðum sínum með niðurstöðu FIFA. Það sem er áhugavert við þetta allt saman er að enska Knattspyrnusambandið fékk líka fjársekt út af þessu sama máli og sambandinu gert að lagfæra reglur sínar að stöðlum FIFA.

Með áfrýjun sinni mun Chelsea að öllum líkindum fresta gildistöku bannsins svo að öllum líkindum mun Chelsea geta keypt leikmenn í næsta sumarglugga. Svo þetta bann mun ekki endilega hafa gríðarleg áhrif strax. Við fjöllum nánar um þetta mál þegar þegar frekari skýringar liggja fyrir.

Chelsea

Okkar menn fara inn í þennan úrslitaleik sem algerir undirhundar (e. underdogs). 6-0 niðurlægingin á Etihad vellinum er öllum stuðningsmönnum enn í fersku minni og er væntingarstuðullinn eftir því. Chelsea spilaði sl. fimmtudag síðari leikinn í 32. liða úrslitum Evrópudeildarinnar gegn Malmö. Fyrri hálfleikurinn í þeim leik var afar slæmur og ógnuðu Malmö marki Chelsea ansi reglulega. Chelsea spilaði þó nokkuð vel í síðari hálfleik og vann að lokum leikinn 3-0. Sarri hvíldi marga af sínum lykilmönnum og fékk Hudson-Odoi meira að segja að byrja leikinn, táningurinn svaraði kallinu með marki og var í raun einn besti maður liðsins.

Í fyrsta skipti í dálítin tíma er ég ekki alveg viss um hvaða nálgun Sarri mun taka á byrjunarliðinu sínu og þá sérstaklega vörninni. Það liggur fyrir að Kepa sé tæpur vegna meiðla en hann mun þó að öllum líkindum spila. Emerson hefur verið að spila ágætlega upp á síðkastið á meðan Alonso hefur verið skelfilegur. Andreas Christensen er búinn að vera besti varnarmaðurinn okkar í þeim leikjum sem hann hefur spilað á ætti með réttu að vera orðinn fastamaður í vörninni. Mun Sarri í alvörunni henda Alonso aftur í liðið og notast við Rudiger og Luiz? Ég veit það ekki, en það kæmi mér samt ekki á óvart. Jorginho mun vera á sínum stað í liðinu og Kanté líka. Ef ég fengi að ráða þá væri Loftus-Cheek alltaf að fara byrja þennan leik, en líklega mun Ross Barkley fá traustið. Hvað framlínuna varðar að þá liggur fyrir að Higuain og Hazard muni byrja og ég tippa á að Pedro verði þriðji maðurinn í framlínunni. Aftur er ég algerlega ósammála því liðsvali og myndi alltaf notast við Hudson-Odoi en Sarri er þjáfarinn og þarf að axla þessa ábyrgð.

Set hér til gamans það lið sem ég myndi velja og það lið sem ég held að Sarri muni tefla fram í leiknum á morgun:



Man City

Þeir sem lesa þetta blogg hafa áttað sig á því að ég er mikill aðdáandi Pep Guardiola. Fyrir mér er hann besti þjálfari í heimi, ekki bara taktísktlega séð heldur einnig hvernig hann bætir leikmenn liðsins. Árið 2016 hafnaði Guardiola því að taka við Chelsea. Ástæðan var einföld, klúbbinn vantaði stefnu, strategíu og þolinmæði. Fyrir honum tikkaði Man City í öll hans box, þar hafa menn verið þolinmóðir, fjárfest mikið, en fjárfest af skynsemi.

Man City hefur verið á mikilli siglingu á árinu 2019 og hefur munað miklu um endurkomu Kevin De Bruyne og Sergio Aguero úr meiðslum. Fyrir mér eru Man City með 6-7 heimsklassa leikmenn og er hópurinn þeirra það sterkur að B-liðið þeirra myndi eflaust berjast um meistaradeildarsæti. Ef Pep ákveður að notast við Bernardo Silva og Raheem Sterling á vængjnum þá eru Ryihad Mahrez og Leroy Sane á bekknum til að sprengja upp leikinn.

Ef það er einhver mögulegur veikleiki á liðinu þá er það í gegnum vinstri bakvarðastöðuna en hún hefur verið vesen hjá þeim þar sem Ben Mendy er í langtímameiðslum. Líklega mun Zinchenko byrja í vinstri bakverðinum, það þarf því að keyra á hann.

Spá

Ég er svartsýnn. Svo einfalt er það. Það er ekki mikið sjálfstraust í liði Chelsea þessa dagana og mér líður eins og eitthvað hafi dáið innra með þessum leikmönnum eftir 4-0 tapið gegn Bournemouth. Eftir þann leik virðast einhverjir leikmenn endanlega hafa misst trúnna á fótboltann sem Sarri er að reyna innleiða.

Til að vinna leikinn þarf Chelsea að reyna lifa af fyrri hálfleikinn og sérstaklega ekki eiga þessa martraðarbyrjun eins og síðast gegn Man City. Ef okkur tekst að skora fyrst mun það örugglega gera helling fyrir sjálfstraustið og þá eigum við alltaf séns en ég sé það bara ekki gerast.

Spái 2-0 tapi.

KTBFFH


bottom of page