Árið 1942 orti Steinn Steinarr ljóð sem byrjar á orðunum:" Í draumi sérhvers manns er fall hans falið". Akkurat í dag eiga þessi orð vel við þá félaga Maurizio Sarri og Roman Abramovich.
Draumur Sarri felst í því að gera Chelsea að besta félagsliði Evrópu. Hann hefur sagt það áður, það er stóra markmiðið hans. Hann ætlaði ekki að ná því á þessu tímabili, ekki heldur því næsta en mögulega á því þriðja. Hann ætlaði að byggja upp lið sem myndi spila blússandi sóknarbolta sem hefur einkennt hann sem þjálfara, vinna titla í Mekka knattspyrnunnar í erfiðustu deildarkeppni heims - ensku Úrvalsdeildinni.
Draumur Roman Abramovich er ögn flóknari. Upphaflega var draumurinn bara að gera Chelsea að besta liði Evrópu. Um tíma tókst það. Á árunum 2005 - 2012 var Chelsea eitt af bestu liðum heims, stútfullt lið af sigurvegurum eins og Lampard, Terry, Ballack, Cech, Drogba, Cole, Essien og Makelele. Einkenni liðsins var að gefast aldrei upp og það var rosalega erfitt að vinna þetta lið. Það gekk á ýmsu; margir þjálfarar, dramatík og læti. En liðið var alltaf mjög samkeppnishæft. Segja má að með Meistaradeildarsigrinum árið 2012 hafi Chelsea náð að kreista fram síðustu dropana úr þessu "winner" liði sem hófst árið 2005.
Þrátt fyrir þessa miklu velgengni er alltaf einn draumur sem Abramovich hefur ekki ná að uppfylla. Það var hans draumur um að liðið myndi spila dúndrandi sóknarbolta og hafa yfirburði í leikjum. Velgengni Chelsea hefur oftar en ekki mátt rekja til öflugs varnarleiks mögulega með Carlo Ancelotti sem undantekningu. Abramovich dreymdi um að fá Pep Guardiola til að taka við Chelsea til að láta þennan draum verða að veruleika, Pep valdi að fara til Man City. Þegar færi gafst til þess að ráða þjálfara sem byggir sína hugmyndfræði á sömu gildum og Pep stökk Roman til og réði Maurizio Sarri til Chelsea. Sarri átti að uppfylla síðasta draum Roman, að vinna titla með sóknarbolta.
Hvar erum við núna?
Núna skulum við fara aftur í nútímann. Chelsea var að tapa fyrir Man City 6-0 á Ethihad vellinum. Þetta er versta tap Chelsea á ferli Roman sem eiganda, í raun er þetta versta tap Chelsea í 33 ár! Það sem gerir þetta tap margfallt verra er Chelsea tapaði nýverið 4-0 fyrir Bournemouth (!!!) og þar áður 2-0 fyrir Arsenal. Síðustu þrír útileikir hafa því allir tapast og það án þess að Chelsea skori mark. Markatalan í þessum leikjum er 0-12. Eftir þessa útreið situr Chelsea í 6. sæti Margir stuðningsmenn liðsins eru búnir að fá nóg. Þeir vilja taka í gikkinn og fleygja Sarri út á hafsauga enda eru menn ekki beint vanir þessu rugli.
Hins vegar má ekki gleyma að skoða hina hliðina. Chelsea er komið í úrslitaleik Carabao deildarbikarkeppninnar, erum í 16 liða úrslitum FA Cup og komnir í útsláttar keppni Europa League. Hvað varðar ensku Úrvalsdeildina að þá erum við, þrátt fyrir allt þetta rugl, bara einu stigi frá Meistaradeildarsæti sem var markmið ársins. Þetta tímabil er á köflum búið að vera ágætt. Fótboltinn sem Chelsea er að reyna að spila er hreint út sagt frábær þegar hann virkar. Alltof oft er hann samt of flatur og of hægur.
Hvað á Roman að gera?
Ef ég myndi taka mér það alræðisvald sem Roman Abramovich hefur á Chelsea myndi ég ekki reka Sarri úr starfi. Ekki strax. Framundan eru svakalegir leikir gegn Man Utd í FA bikarnum og úrslitaleikurinn gegn Man City sem ég tel að hann eigi að fá þá leiki til að rétta skútuna af. Er ég að gera kröfu um að hann eigi að vinna þessa leiki? Nei, alls ekki. En ég er hins vegar að gera þá kröfu að það skíni í gegn að leikmennirnir séu ennþá að berjast fyrir hann og hafi trú á þeirri stefnu sem hann er að reyna innleiða hjá Chelsea - hið svokallaða Sarri-Ball eða Vertical TikiTaka.
Við munum öll eftir síðasta leik Antonio Conte á Etihad vellinum. Þar mætti Chelsea til leiks með það eitt af markmiði að reyna ekki að vinna leikinn. Jafntefli var sigur. Þegar Man City skoraði fyrsta mark leiksins í fyrri hálfleik reyndu okkar menn ekki einu sinni að snúa við blaðinu heldur biðu bara áfram með sinn 10 manna varnarmúr og dúndruðu svo boltanum fram á Hazard sem var einn að berjast í skallaeinvígum við Otamendi. Sá leikur gerði útslagið hjá mér gagnvart Conte. Hvort er verra að skíttapa 6-0 en reyna sannarlega að vinna leikinn eða tapa 1-0 og reyna bara alls ekki að vinna leikinn? Ég er ekki viss. En óbragðið í munninum eftir leikinn í fyrra er ekkert skárra en það sem ég var með eftir leikinn á sunnudag.
Við skulum heldur ekki gleyma því að allir merkustu stjórar heims hafa drullu tapað fótboltaleikjum:
Ferguson tapaði 6-1 á heimavelli gegn Man City árið 2011
Klopp tapaði 5-0 á síðasta tímabili gegn Man City
Mourinho tapaði 5-0 með Real Madrid gegn Barcelona árið 2010
Guardiola tapaði 4-0 fyrir Everton á sínu fyrsta tímabili með Man City
Ég vona innilega að Sarri nái að snúa þessu við, því mér finnst fótboltinn sem hann er að reyna ná fram hreint út sagt frábær, þegar hann virkar. Sarri þarf til þess tíma. Og fyrir mér þarf Chelsea að gefa honum tíma. Ég læt það alls ekki fara í taugarnar á mér að Kanté spili framar en Jorginho, ég fatta hugmyndina á bakvið það, og hún er frábær þegar hún virkar (hann mætti samt nota Kanté í djúpum gegn City á útivelli).Ég læt þetta ekki fara í taugarnar á mér því þetta er partur af ferlinu sem Sarri er með liðið í, að þróa áfram þennan leikstíl.
Hins vegar er þolinmæði mín fyrir stórum töpum algerlega að þrotum komin - ef einn svona skellur kemur í viðbót þá er það einum of mikið. Segja má að Sarri sé kominn með gult spjald og er búinn að brjóta tvisvar af sér, dómarinn er búinn að segja við hann að ef hann svo mikið sem snerti annan leikmann í leiknum þá fær hann rauða spjaldið. Sarri þarf að skilja þetta og hann þarf að þora að vera meira sveigjanlegri og gefa mönnum eins og Loftus-Cheek og Hudson-Odoi miklu stærra hlutverk - hinir leikmennirnir eru einfaldlega ekki að virka.
Hvernig enda draumarnir?
Ég hóf þennan pistil á tilvitnun í Stein Steinar, um fallið og draumana. Ég óttast það mjög að fall Sarri sé falið í hans fallegu draumsýn um að hann ætli sér bara að spila sókndjarfan tiki-taka bolta og hafa ofurtrú á mönnum eins og Barkley og David Luiz, því þeir henti hans leikstíl. Þó að þetta hafi virkað vel í Napoli að þá er enska Úrvalsdeildin einfaldlega annar kalíber, hún leyfir engin mistök og allir leikir eru erfiðir.
Hvað Roman blessaðan varðar að þá mun draumsýn hans um sókndjarft sigurlið Chelsea enn þá vera óskhyggja hans. Hann þar samt að átta sig á því vandamáli sem hann hefur skapað hjá Chelsea. Hvaða alvöru þjálfari mun vilja koma til okkar ástkæra liðs ef hann tekur í gikkinn á fyrstu alvöru hindrun? Conte, Ancelotti, Mourinho - allir þessir stjórar teljast til heimsklassa og fall hans er eflaust falið í þeirri staðreynd að Chelsea er einfaldlega orðið óaðlaðandi út af þessum óstöðugleika. Það er bæði synd og skömm, því mikilvægast einstaklingurinn í fótboltafélagi er alltaf knattspyrnustjórinn.
Keep the blue flag flying high!