Á miðvikudagskvöldið 24 Janúar fær Chelsea erkifjendur sína í Tottenham Hotspurs í heimsókn á Brúnna í deildarbikarnum. Leikurinn byrjar kl. 19:45 og er sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Síðustu dagar Þetta hafa verið ansi sérstakir dagar fyrir stuðningsmenn Chelsea. Eftir þessa hörmulegu frammistöðu mætti Sarri í viðtal eftir leikinn og drullaði all hressilega yfir mannskapinn. Það má deila um það hvort svona hlutir eigi ekki heima einungis í búningsklefanum en greinilegt er að Sarri var að reyna að stuða mannskapinn all hressilega og í kvöld fáum við að sjá hvort það hafi virkað eður ei. Sarri er hér kominn í ansi djarfan póker því stuðningsmenn Chelsea vita manna best að það ríkir mikið leikmannavald (e. player power) á Stamford Bridge.
Higuain mættur Loksins var staðfest í gærkvöldi að Gonzalo Higuain sé genginn í raðir Chelsea á láni út tímabilið. Higuain sagði sjálfur að hann hafi aldrei spilað betri bolta en undir Sarri og miðað við framherjakrísuna hjá okkur þá labbar hann beint inn í liðið án nokkurs vafa. Hans fyrsti leikur verður hins vegar ekki fyrr en næstu helgi á móti Sheffield Wednesday í bikarnum, þó svo það hefði verið mikið "boost" að hafa hann til staðar í kvöld.
Það er engum blöðum um að fletta að Higuain kann að koma boltanum í netið eins og sést á tölfræði töflunni hér til hliðar. Hann hefur spilað 569 leiki á ferlinum og skorað 290 mörk og gefið 97 stoðsendingar - geri aðrir betur! Ef Higuain finnur sína fjöl er á hreinu að Chelsea er komið með einn skæðasta framherja Evrópu í sínar raðir.
Tottenham Þrír af bestu leikmönnum Spurs á þessu tímabili eru frá í kvöld. Kane og Alli eru að glíma við meiðsli og Son er að spila fyrir þjóð sína í Asíukeppninni. Annað hvort munu þeir spila framherjalausir með Lucas Moura upp á topp eða stóra manninn Fernando Lorente. Ef það væri einhvern tímann lag á að mæta þessu Spurs liði þá er það núna þegar þeir eru að glíma við þessi forföll. Pochettino hefur engu að síður sýnt að hann er klókur að leysa úr akkurat svona vandamálum og má segja að við séum að fara mæta óútreiknanlegu liði Spurs. Þessi leikur verður alltaf erfiður.
Chelsea Ég verð bara að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um hvað Sarri mun gera í kvöld. Svo að liðið sem ég mun stilla upp hér að neðan er liðið sem undirritaður myndi stilla upp. Ég gef þetta Hazard ´´false 9´´ uppá bátinn. Finnst ekki koma nærri því eins mikið út úr honum þar eins og á vinstri vængnum. Willian er búinn að vera allt of slappur á þessu tímabili fyrir utan gæðin sem hann sýndi gegn Newcastle.
Hudson-Odoi mætir að sjálfsögðu í liðið og mun bókað mál skapa usla í leiknum. Ég hendi Oliver Giroud fram af því mér finnst hann einungis aðeins skárri en Morata. Ástæðan er ekki meiri en það. Það þarf að bekkja Jorginho og það strax, ég væri alveg til í að sjá Kovacic í þessari stöðu fyrst Fabregas er horfinn á braut.
Þetta verður erfiður leikur, sérstaklega í ljósi þess að Spurs fara inn í leikinn með 1-0 forskot. En þetta ætti að hafast ef menn mæta með hugann við verkefnið!
Spáin: 2-0 Chelsea. Hudson-Odoi með fyrsta markið.
KTBFFH