top of page
Search

Chelsea fer til Ungverjalands



Chelsea gerir sér ferð yfir á meginlandið til þess að spila lokaleikinn í riðlakeppni Evrópudeildarinnar nk. fimmtudag. Þessi leikur verður seint talinn sá mest spennandi þar sem Chelsea er þegar búið að vinna riðilinn. Leikurinn hefst kl 17:55.

Síðasti leikur

Chelsea vann á laugardagskvöld frækinn sigur á meisturnum í Manchester City. Leikurinn byrjaði ekkert frábærlega fyrir okkar menn því fyrstu 35 mínúturnar voru Man City með tögl og haldir í leiknum og pressuðu okkar menn stíft. Chelsea reyndi ítrekað að spila sig í gegnum pressu Man City en komst lítt áleiðis. Jorginho reyndi eins og hann gat að spila boltanum milli línanna á sóknar og miðjumönnum Man City en sóknar tríóinu okkar tókst afar sjaldan að halda í boltann og byggja upp einhvern takt í sóknarleiknum. Það var ekki fyrr en City sofnuðu örlítið á verðinum undir lok fyrri hálfleiks að David Luiz fékk tíma á boltann og náði að sprengja upp vörn City með glæsilegri 40 metra sendingu yfir á Pedro. Sú sókn endaði með því að Hazard renndi boltanum út í teiginn þar sem N'Golo "Lampard" Kanté mætti á svæði og setti boltann upp í þaknetið.

Seinni hálfleikurinn var svo mikið mun betri hjá Chelsea en sá fyrri. Það er ótrúlegt hvað eitt mark getur breytt miklu hjá einu liði og gefið þeim sjálfstraust. Chelsea mættu með kassann út í seinni hálfleikinn og byrjuðu að halda mikið mun betur í boltann og skapa sér færi. Í raun fékk Chelsea hættulegri færi en City lungað úr seinni hálfleiknum. Það var svo David Luiz sem kóronaði stórleik sinn með því að klára endanlega leikinn á 78 mín er hann skallaði inn hornspyrnu Eden Hazard.

Pressan var farin að aukast verulega á Sarri og hans hugmyndafræði hjá klúbbnum. Þessi sigur gerir því heilan helling fyrir stjórann og leikmennina. Sarri hafði talað um að liðinu hefði skort rétt "mentality" í síðustu leiki og þá sérstaklega gegn Spurs og Wolves. Í þessum leik sýndu Chelsea hins vegar grimmd og voru tilbúnir að fórna sér almennilega fyrir málstaðinn. Vonandi var þessi upphafið af góðri sigurgöngu í deildinni.

Mol Vidi

Ég fjallaði ágætlega um andstæðinga okkar fyrir fyrri leik liðanna. Það sem kryddar aðeins tilveru þessa leiks er að Mol Vidi er að leika á splunkunýjum heimavelli sem var vígður í síðasta mánuði. Heitir völlurinn MOL Aréna Sóstó og tekur 14.200 áhorfendur. Vonar standa til að hann verði í fyrsta skipti uppselt í leiknum gegn Chelsea.


Mol Vidi eru í hörkubaráttu í þessum blessaða L riðli okkar. Þeir eru með 6 stig í 3. sæti en BATE er í 2. sæti með sama stigafjölda. Vidi verður því að næla í stig gegn Chelsea og vonast til þess að BATE misstígi sig gegn PAOK. Það gæti komið upp sú einstaka staða í riðlinum að þrjú lið endi með 6 stig. Svo að það gerist þarf Chelsea og PAOK að vinna sína leiki. Persónulega finnst mér BATE hafa verið best spilandi liðið af þessum andstæðingum okkar, en sjáum hvað setur.

Chelsea

Núna reynir á Sarri kallinn að hvíla alla þá leikmenn sem eiga að taka þátt í næsta deildarleik. Helst þannig að þeir eigi ekki einu sinni að ferðast með liðinu. Ég vil sjá Kepa, Luiz, Rudiger, Azpilicueta, Alonso, Kanté, Jorginho, Willian, Pedro, Loftus-Cheek, Hazard og jafnvel Kovacic fá algera hvíld frá þessum leik og vera bara heima í héraði og sofa svefni þeirra réttlátu. Þessi leikur skiptir okkur engu máli og því verður Sarri að vera skynsamur í því mikla leikjaálagi sem er framundan í desember.

Að því sögðu vonast ég til þess að þessir leikmenn verði í byrjunarliðinu:


Moses hefur ekkert sést í langan tíma og er brottför hans frá félaginu næsta örugg í janúar. Vonandi verður hann valinn í þetta verkefni, bara til að minna á sig og sýna sig fyrir öðrum liðum. Ég vel Barkley með það fyrir augum að Loftus-Cheek byrji leikinn gegn Brighton.

Vonandi fá svo ungu strákarnir, þeir Ampadu og Hudson-Odoi að spila þennan leik og fá þannig dýrmætar mínútur í sínu þroskaferli.

Spá

Ég segi 1-2 sigur í skemmtilegum leik þar sem Morata og Hudson-Odoi setja mörkin.


bottom of page