top of page
Search

Heimaleikur gegn Bournemouth


CFC.is þurfti að fara í örlítið vetrarfrí vegna anna, að þeim sökum hefur ekki verið fjallað um sl. tvo leiki. Næsti leikur er nk. miðvikudagskvöld gegn sveinum Eddie Howe í Bournemouth á Stamford Bridge.

Leikmannaglugginn

Byrjum á að fjalla aðeins um stöðu mála í leikmannaglugganum. Þegar þetta er skrifað eru ekki nema tveir fullir dagar eftir að leikmannaglugganum, glugginn lokar nk. miðvikudag kl 23:00. Klukkan tifar og hafa forráðamenn Chelsea þann tíma til að ganga frá eftirtöldum málefnum:

  • Ganga frá kaupunum á Emerson Palmeri eða öðrum leikmanni sem getur spilað stöðu vinstri vængbakvarðar - þetta á að vera nánast frágengið.

  • Kaupa alvöru framherja sem getur veitt Alvaro Morata aðhald.

  • Ákveða framtíð Michy Batshuayi

Ákvörðunin gæti vel verið að sú að halda bara Batshuayi og kaupa ekki annan framherja - ekki einu sinni Crouch (djók). Þá er það ákvörðun sem liðið verður að standa og falla með. Michy hefur verið að minna á sig á undanförnu, skoraði tvö góð mörk gegn Newcastle í bikarnum. Hann hefur hins vegar ekki heillað Conte sem alhliða leikmaður að leiða línuna og er ekki launungarmál að Conte er að leita að ákveðinni tegund af framherja - stórum, sterkum leikmanni sem getur haldið boltanum uppi og látið til sín taka í teignum - eitthvað sem Batshuayi er fyrirmunað að gera í heilan leik.

Öll þessi sápuopera varðandi Edin Dzeko rann út í sandinn. Hann er að verða 32 ára og vill samning upp á 3 og hálft ár. Eitthvað sem Chelsea vill ekki bjóða honum. Önnur nöfn sem hafa verið nefnd eru Oliver Giroud og Islam Slimani. Persónulega held ég að Slimani sé vanmetinn leikmaður og Giroud myndi gagnast okkur. Giroud er hins vegar 31 árs og Arsenal vill fá 35 milljónir punda fyrir (LOL).

Núna er hins vegar komin upp störukeppni milli Arsenal, Chelsea og Dortmund. Svo að Arsenal geti keypt Aubameyang þarf Dortmund að finna annan framherja og hefur Batshuayi verið nefndur í því samhengi. "Batsman" er opinn fyrir Dortmund félagaskiptunum en Chelsea mun ekki láta hann frá sér nema Giroud komi til Chelsea. Þannig Arsenal verða að byrja að lækka verðmiðann á Giroud áður en við hleypum Michy til Dortmund. Það eru óljósar fréttir varðandi það hvort Dortmund sé að kaupa Batshuayi eða fá hann að láni. Persónulega vona ég að við lánum hann bara.

Það sem er sennilega mest pirrandi við þennan leikmannaglugga er að horfa á liðin í kringum okkur reyna að styrkja sig með alvöru kaupum - leikmönnum sem fara beint í byrjunarliðið og setja aðra leikmenn upp á tærnar innan hópsins. Dæmi: Alexis Sanchez til Man Utd, van Dijk til Liverpool, Arsenal er að landa Aubameyang og fengu Mhiktarian líka. Tottenham mun líklega kaupa Lucas Moura osfrv. Einu kaup Chelsea hingað til eru Ross Barkley, leikmaður sem er búinn að vera meiddur í 7 mánuði og virðist eiga langt í land m.v. hans fyrstu mínútur. Núna er að duga eða drepast fyrir okkar menn. Það er gríðarlega mikilvægt að klára Emerson kaupin því Kenedy er farinn á lán og þá akkurat enginn sem getur bakkað Alonso upp (ekki það að Kenedy hafi verið mikið back-up). Þau kaup eiga að ganga í gegn í dag (þriðjudag). Ef Conte vill svo fá Giroud í staðinn fyrir Batshuayi þá er mikilvægt að treysta stjóranum í þeirri nálgun - gleymum ekki að Giroud gæti spilað með okkar mönnum í meistaradeildinni sem er mikill kostur. Bournemouth Eddie Howe hefur tekist að rífa sitt lið í gang eftir erfiða byrjun á tímabilinu. Þeir sitja núna í 12. sæti deildarinnar, þremur stigum frá fallsæti og þremur stigum frá 9. sætinu. Það er því mikil barátta í neðri helmingi deildarinnar og má segja að rúmur helmingur liða í deildinni sé í fallbaráttu.

Bournemouth er á smá siglingu, þeir hafa ekki tapað í fimm leikjum og unnu m.a. Arsenal 2-1 í þar síðustu umferð. Flestir af þeirra bestu mönnum eru núna heilir heilsu og hefur það skipt máli, sérstaklega varnarlega. Fyrri leikur okkar gegn Bournemouth var í lok október þar sem við mörðum sigur, 1-0. Eden Hazard skoraði markið. Bournemouth vill spila fótbolta. Þeir munu ekki mæta á svæðið og henda öllum fyrir aftan boltann og spila upp á jafnteflið. Þegar færi gefst munu þeir sækja á nokkrum mönnum og láta finna fyrir sér sóknarlega. Þeir hafa nokkra flotta sóknarþenkjandi leikmenn eins og Joshua King, Callum Wilson, Ryan Fraiser og Jordan Ibe. Þeir verða hins vegar án Jermain Defoe sem er meiddur.

Chelsea

Ég ætla að spá byrjunarliði Chelsea svona:


Courtois, Willian, Morata og David Luiz voru allir frá í síðasta leik vegna meiðsla. Conte gaf í skyn að Courtois yrði klár en óljósara með hina þrjá. Ég myndi gefa Batshuayi traustið í framlínunni, svo framarlega sem hann sé enn partur af leikmannahópi Chelsea (eins furðulega og það nú hljómar). Hann, Pedro og Hazard náðu ágætlega saman í síðasta leik, voru hreyfanlegir gegn vörn sem lá mjög aftarlega og því líklegt að þetta verði svipaður leikur. Persónulega myndi ég vilja að sjá Fabregas í liðinu en hann er að stíga upp úr meiðslum og því óvíst hvort Conte treysti honum frá byrjun. Ég myndi svo taka Rudiger fram yfir Cahill þessa dagana.

Eins og fyrr segir lokar leikmannaglugginn á leikdegi fyrir Chelsea, þ.e. þegar leikurinn gegn Bournemouth er að klárast er aðeins um 1 klst eftir að leikmannaglugganum. Chelsea þarf því að vera búið að taka ákvörun um Batshuayi vel fyrir leikinn, helst bara í dag (þriðjudag) upp á undirbúning, skipulag osfrv. Því ég þykist vita að Conte vilji nota Michy frá byrjun ef hann er svo ekki að fara neitt eftir allt saman.

Spái okkar mönnum sigri í 3-1 markasúpu! KTBFFH


bottom of page