top of page
Search

16. liða úrslit FA bikarsins - Barnsley vs Chelsea

Keppni: FA Bikarinn

Dag- og tímasetning: Fimmtudagurinn 11. febrúar kl 20:00.

Leikvangur: Oakwell Stadium

Hvar er leikurinn sýndur: Stöð 2 Sport 3

Upphitun eftir: Jóhann Már Helgason


Chelsea mætir Barnsley í 16.liða úrslitum FA bikarkeppninnar á fimmtudagskvöld. Við mættum liði Barnsley í Carabao bikarnum í september þar sem okkar menn slátruðu andstæðingunum 6-0. En síðan þá hefur ýmislegt breyst.


Thomas Tuchel hefur farið vel af stað með liðið, a.m.k. hvað úrslitin varða. Baráttusigur gegn Sheffield Utd gerir það að verkum að liðið er núna komið á fulla ferð í baráttu um sæti í Meistaradeildinni. Þegar Tuchel var spurður út í það hversu mikilvæg FA bikarkeppnin væri stóð ekki á svörum - Chelsea ætlar sér að vinna þessa keppni!


Á sama blaðamannafundi sagði Tuchel líka að hann myndi hræra aðeins í liðinu og gefa leikmönnum sem minna hafa spilað undir hans stjórn tækifæri. Með það fyrir augum þá spái ég því að Kepa mæti í markið. Miðverðirnir þrír verða svo Kurt Zouma, Toni Rudiger og A. Christensen. Ég ætla að spá því að Hudson-Odoi og Alonso verði í vængbakvörðunum (sem spila samt eins og hreinræktaðir vængmenn) og að Kante og Billy Gilmour verði á miðjunni.


Tuchel gaf það sterklega í skyn að Hakim Ziyech verði í byrjunarliðinu, þannig ég reikna með honum í framliggjandi miðjumanni. Christan Pulisic er líka mættur til æfinga aftur eftir að hafa fengið frí vegna fjölskyldumála þannig vonandi byrjar hann við hlið Ziyech. Ég tel svo næsta víst að Tammy Abraham byrji þennan leik í fremstu víglínu.


Barnsley

Þrátt fyrir að okkar menn hafi slátrað Barnsley í október á ég persónulega ekki von á slíkum sigri aftur. Sá leikur fór fram snemma á tímabilinu og gerðu varnarmenn Barnsley sig seka um mjög slæm mistök í þeim leik og Chelsea gengu á lagið. Þeir hafa líka skipt um þjálfara á tímabilinu, hinn austuríski Gerhard Struber fékk að taka pokann sinn og í hans stað kom Frakkinn Valérien Ismaël.


Barnsley sitja í 13. sæti Championship deildarinnar og sigla þennan fræga lygna sjó. Eru ekki í neinni alvöru baráttu um að komast í umspil og eru heldur ekki í neinni fallhættu. Það er fínasta jafnvægi í liðinu, hafa skorað 29 mörk í 27 leikjum og fengið á sig 34. Hann Ismaël spilar ekki eins djarfann fótbolta og forveri sinn, þess vegna megum við gera ráð fyrir meiri varnarleik en í leiknum í september.


Skæðasta vopn Barnsley er klárlega enski framherjinn Cauley Woodrow. Hann er 26 ára og hefur skorað 11 mörk á tímaiblinu. Hann kemur úr unglingaakademíu Spurs og á að baki nokkra u-21 árs landsleiki fyrir England. Greinilega alvöru spilari sem við verðum að hafa góðar gætur á.


Spá

Ef okkar menn falla úr leik gegn neðrideildar liði er það alltaf stórslys - svo einfalt er það nú bara. Það er samt aldrei auðvelt að fara á útivöll í FA bikarnum, hvað þá á skítköldu febrúarkvöldi. En Tuchel virðist ætla að stilla upp hörku góðu liði sem mun gera gæfumuninn. Ætla vonast til þess að sóknarleikurinn hrökkvi í gang og við sigrum þenna leik 4-1. Tammy með tvennu, Pulisic eitt og Hudson-Odoi eitt. Hakim Ziyech mun leggja upp þrjú mörk.


KTBFFH

- Jóhann Már

Comments


bottom of page